[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Indland

land í Suður-Asíu

Indland er land í Suður-Asíu. Það er fjölmennasta land jarðarinnar og það sjöunda stærsta að flatarmáli. Þar búa yfir 1,4 milljarðar manna (2023) eða um 17,3% jarðarbúa. Landið markast af Indlandshafi í suðri, Arabíuhafi í suðvestri og Bengalflóa í suðaustri. Indland á landamæri að Pakistan í vestri, Kína, Nepal og Bútan í norðaustri, Mjanmar og Bangladess í austri. Srí Lanka, Maldíveyjar og Indónesía eru nærliggjandi eyríki í Indlandshafi. Andaman- og Níkóbareyjar tilheyra Indlandi. Á Indlandi voru mörg af elstu siðmenningarsamfélögum heims og landið hefur getið af sér fjögur af stærstu trúarbrögðum okkar samtíma: hindúatrú, búddatrú, jainisma og síkisma. Landið var hluti af Breska heimsveldinu frá 19. öld til 1947 þegar það hlaut sjálfstæði.

Lýðveldið Indland
भारत गणराज्य
Bhārat Ganarājya
Fáni Indlands Skjaldarmerki Indlands
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Satyameva Jayate (sanskrít)
Sannleikurinn einn sigrar
Þjóðsöngur:
Jana Gana Mana
Staðsetning Indlands
Höfuðborg Nýja-Delí
Opinbert tungumál Hindí, enska og 21 annað tungumál
Stjórnarfar Sambandslýðveldi

Forseti Droupadi Murmu
Forsætisráðherra Narendra Modi
Sjálfstæði
 • frá Bretlandi 26. janúar 1950 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
7. sæti
3.287.263 km²
9,6
Mannfjöldi
 • Samtals (2023)
 • Þéttleiki byggðar
1. sæti
1.428.627.663
426,7/km²
VLF (KMJ) áætl. 2024
 • Samtals 14.594 millj. dala (2. sæti)
 • Á mann 10.123 dalir (125. sæti)
VÞL (2022) 0.644 (134. sæti)
Gjaldmiðill Indversk rúpía
Tímabelti IST (UTC +5:30)
Þjóðarlén .in
Landsnúmer +91

Nútímamaðurinn kom til Indlandsskaga fyrir meira en 55.000 árum síðan.[1][2][3] Þessi langa saga og hlutfallsleg einangrun hópa veiðimanna og safnara hefur getið af sér mikla erfðafræðilega fjölbreytni íbúa.[4] Landbúnaður hófst vestan megin við Indusfljót fyrir um 9000 árum og á 3. árþúsundinu f.o.t. kom Indusdalsmenningin fram.[5][6] Um 1200 f.o.t. barst frumgerð sanskrít til Indlandsskaga. Safn trúarljóða sem talin eru hafa varðveist í munnlegri geymd frá þessum tíma eru tekin saman í ritinu Rigveda, en elstu þekktu handrit þess eru frá því eftir árið 1000.[7] Rigveda segir frá upphafi hindúasiðar á Indlandi. Í norður- og vesturhluta landsins tóku indóevrópsk tungumál við af dravidískum tungumálum. Um 400 f.o.t. var komin á föst stéttaskipting með erfðastéttum innan hindúasiðar. Búddatrú og jainismi boðuðu á sama tíma afnám erfðastétta. Mauryaveldið og Guptaveldið komu fram á flóðsléttu Gangesfljóts í fornöld. Þetta voru laustengd ríki þar sem listir og menning blómstruðu, en staða kvenna versnaði á sama tíma og hugmyndin um ósnertanleika varð hluti af skipulegum trúarbrögðum. Miðríkin á Suður-Indlandi áttu í miklum viðskiptum við ríki Suðaustur-Asíu og þaðan bárust trúarrit, siðir og hefðir á dravidísku.[8]

Snemma á miðöldum bárust kristni, gyðingdómur, sóróismi og íslam til norður- og vesturhéraða Indlands.[9][10][11] Herir múslima frá Mið-Asíu lögðu norðurslétturnar undir sig og stofnuðu Soldánsdæmið Delí sem var hluti af hinum íslamska menningarheimi. Á 15. öld barst hindúasiður til Suður-Indlands með Vijayanagara-veldinu. Í Púnjab hófst síkismi sem hafnaði trúarstofnunum. Eftir að Mógúlveldið var stofnað 1526 tóku við tvær aldir sem einkenndust af friði. Frá þeim tíma eru sum þekktustu dæmin um indverska byggingarlist. Breska Austur-Indíafélagið stofnaði verslunarstaði við strönd Indlands og jók smám saman yfirráðasvæði sín þar til þau náðu yfir nær allan Indlandsskaga. Eftir uppreisnina á Indlandi 1858 tók við stjórn bresku krúnunnar á Breska Indlandi. Smám saman fengu Indverjar aukin réttindi og Bretar stóðu fyrir miklum tækniframförum ásamt umbótum í menntakerfi og stjórnsýslu. Á 20. öld kom fram þjóðernissinnuð grasrótarhreyfing sem barðist fyrir sjálfstæði án ofbeldis. Hreyfingin átti stóran þátt í að binda enda á stjórn Breta. Árið 1947 var landinu skipt í tvennt: Indland þar sem meirihluti íbúa var hindúar, og Pakistan þar sem meirihluti íbúa var múslimar. Skiptingin olli mikilli þjáningu, með trúarbragðahreinsunum og þvinguðum fólksflutningum á báða bóga.[12][13]

Indland hefur verið lýðveldi frá 1950. Landið er fjölmenningarríki og þar eru töluð um 200 tungumál. Á síðustu 20 árum hefur það vaxið mikið bæði hvað varðar fólksfjölda og hnattræn áhrif. Frá 1951 til 2022 fór íbúafjöldinn úr 361 milljón í næstum 1,4 milljarða. Á sama tíma jukust tekjur á mann úr 64 dölum á ári í 2.601 dal, og læsi fór úr 16,6% í 74%. Indland er langfjölmennasta lýðræðisríki heimsins og vaxandi hernaðarveldi. Það hefur yfir að ráða kjarnorkuvopnum og einum stærsta herafla heimsins. Indland, Pakistan og Kína deila um yfirráð yfir Kasmírhéraði. Indland er með geimferðaáætlun og hefur staðið að nokkrum geimferðum. Indverskar kvikmyndir, tónlist og andleg leiðsögn hafa notið vaxandi vinsæla um allan heim.[14] Dregið hefur verulega úr fátækt, en ójöfnuður hefur vaxið að sama skapi. Meðal áskorana sem indverskt samfélag stendur frammi fyrir eru kynjamismunun, vannæring barna[15] og vaxandi loftmengun.[16] Indland er 3,3 milljón ferkílómetrar að stærð og er eitt af löndum heims með mesta líffjölbreytni.[17] Skógar þekja 21,7% landsins. Á Indlandi voru árið 2023 106 þjóðgarðar sem þekja um 44 þúsund ferkílómetra, eða um 1,35% landsins.[18]

Nafnið Indland (áður nefnt „Indíaland“ á íslensku) kemur í íslensku úr latínu, India, sem aftur kemur úr hellensku Ἰνδία India, forngrísku Ἰνδός Indos, fornpersnesku Hindush (austurhérað í ríki Akkamenída). Þessi heiti eru skyld orðinu Sindhu „fljót“, í sanskrít, sem vísaði sérstaklega til Indusfljóts og byggðarinnar í kringum suðurhluta þess.[19][20] Forn-Grikkir töluðu um Indverja sem Indoi, sem merkir „fólkið við Indusfljót“.[21]

Heitið Bharat sem kemur fyrir í sagnakvæðum Indverja og stjórnarskrá Indlands[22][23] eða afbrigði þess, er notað í mörgum indverskum tungumálum. Það er nútímaútgáfa sögulega heitisins Bharatavarsha, sem upphaflega vísaði til Norður-Indlands.[24][25] Frá miðri 19. öld var tekið að nota Bharat sem innlent heiti landsins alls.[22][26]

Hindústan er miðpersneskt heiti á Indlandi sem varð útbreitt á 13. öld,[27] og var notað víða um heim frá tímum Mógúlveldisins. Inntak orðsins var breytilegt, en það vísaði oft til landsvæðis sem náði yfir norðurhluta Indlandsskaga (núverandi Indland og Pakistan), eða til alls Indlandsskaga.[22][26][28]

 
Fornar myndir úr Ajanta-hellunum á Indlandi.

Elstu ummerki um Homo erectus á Indlandi eru 500.000 ára gömul og elstu merki um Homo sapiens eru 75.000 ára gömul. Indusdalsmenningin kom upp á svæði sem nú skiptist milli Indlands og Pakistan um 3300 f.Kr. Á eftir henni fylgdi Vedatímabilið þar sem grunnur var lagður að hindúatrú og indverskri menningu. Á þriðju öld f.Kr. sameinaði Ashoka keisari mikinn hluta Suður-Asíu og bjó til Maurya-veldið. Við endalok þess árið 180 f.Kr. braust út stríð sem stóð í tæpa öld.

Næstu aldirnar skiptist Indlandsskagi milli nokkurra Miðríkja eins og Guptaveldisins. Suðurhluti skagans skiptist milli ættarveldanna Chola, Chalukya, Pandya og Pallava. Á miðöldum blómstraði menning og trúarlíf hindúa á Suður-Indlandi sem hafði áhrif langt út fyrir skagann.

Tyrkískir og afganskir múslimar stofnuðu nokkur ríki á Norður-Indlandi frá 13. öld. Það fyrsta var Soldánsdæmið Delí sem stóð frá 1206 til 1526. Á sama tíma urðu til öflug ríki hindúa; Vijayanagara-veldið (1336-1646), Gajapati-ríkið (15. og 16. öld) og furstadæmin í Rajputana. Á norðurhluta Deccan-hásléttunnar komu upp nokkur soldánsdæmi á 16. og 17. öld. Mógúlveldið lagði norðurhluta Indlandsskagans undir sig á 16. öld. Því tók að hnigna á 18. öld um leið og Marattaveldið reis til áhrifa.

Seint á 18. öld lagði Breska Austur-Indíafélagið stóra hluta Indlandsskagans undir sig eftir nokkur átök við Marattaveldið. Óánægja með stjórn fyrirtækisins leiddi til uppreisnarinnar 1857. Í kjölfar hennar innlimuðu Bretar Indland sem krúnunýlendu. Í upphafi 20. aldar hófst sjálfstæðisbarátta Indlands. Einn leiðtogi sjálfstæðisbaráttunnar var Mahatma Gandhi sem boðaði friðsamleg mótmæli. Þann 15. ágúst 1947 hlaut Indland sjálfstæði undan breska konungsvaldinu og í kjölfarið var Breska Indlandi skipt í Pakistan og Indland. Furstafylkin sem notið höfðu sjálfstæðis að nafninu til gengu öll inn í nýju ríkin. Stjórnarskrá Indlands tók formlega gildi þann 26. janúar 1950. Fyrsti lýðræðislega kjörni leiðtogi Indlands var forsætisráðherrann Jawaharlal Nehru.

Landfræði

breyta

Indland þekur megnið af Indlandsskaga, sem liggur á Indlandsflekanum. Indlandsflekinn er hluti af Indó-Ástralíuflekanum.[29] Mótun Indlands hófst fyrir 75 milljón árum þegar Indlandsflekann, sem þá var hluti af suðurhluta Gondvanalands, tók að reka í norðausturátt vegna botnreks suðvestan, og síðar sunnan og suðvestan við hann.[29] Á sama tíma tók hið mikla Teþyshaf norðaustan við hann að sökkva undir Evrasíuflekann.[29] Þessi tvö ferli sköpuðu bæði Indlandshaf og ýttu meginlandsskorpunni á Indlandsflekanum undir Evrasíuflekann þar sem Himalajafjöll risu.[29] Sunnan við fjöllin varð til stórt hálfmánalaga trog sem fylltist fljótt af seti[30] og myndaði Indó-Gangessléttuna.[31] Indlandsflekinn birtist aftur undan setinu í hinum fornu Aravallifjöllum sem liggja í suðvestur frá Delíhryggnum. Vestan megin við Aravallifjöll er Thar-eyðimörkin.[32][33][34]

Áin Tungabhadra rennur út í Krishna-fljót.[35]
Fiskibátar bundnir saman í fallastraumi við þorpið Anjarle í Maharashtra.

Afgangurinn af Indlandsflekanum sést á Suður-Indlandi, sem er jarðsögulega elsti hluti Indlands, allt norður að Satpura-fjöllum og Vindhya-fjöllum á Mið-Indlandi. Þessir tveir fjallgarðar liggja samsíða frá strönd Arabíuhafs í Gujarat í vestri að Chota Nagpur-hálendinu í Jharkand í austri.[36] Sunnan við þau er Deccan-hásléttan, með strandfjöllin Vestur-Ghat-fjöll og Austur-Ghat-fjöll sitt hvorum megin.[37] Á hásléttunni er að finna elsta berg landsins, sem sumt er yfir milljarðs ára gamalt. Indland liggur norðan við miðbaug, milli 6˚44' og 35˚30' N og 68˚7' og 97˚25' A. Ríkisstjórn Indlands lítur svo á að allt héraðið sem áður tilheyrði furstadæminu Jammú og Kasmír, þar á meðal Gilgit-Baltistan sem Pakistan ræður yfir, sé hluti af Indlandi og setur því nyrsta odda landsins við 37˚6'.[38]

Strandlengja Indlands er 7.517 km að lengd. Þar af tiheyra 5.423 km Indlandsskaga og 2.094 km Andaman-, Níkóbar- og Lakshadweep-eyjum.[39] Samkvæmt indverskum sjókortum er strönd meginlandsins 43% sandstrendur, 11% klettastrendur, og 46% leirur eða fen.[39]

Helstu ár sem renna úr Himalajafjöllum eru Ganges og Brahmaputra, sem báðar enda í Bengalflóa.[40] Meðal helstu þveráa Gangesfljóts eru Yamuna og Kosi-fljót. Grynningar í því síðarnefnda, sem stafa af uppsöfnun sets, valda reglulega flóðum og breytingum á árfarveginum.[41][42] Sunnar á skaganum renna helstu ár milli hærri bakka sem koma í veg fyrir flóð. Meðal þeirra eru Godavari-fljót, Mahanadi-fljót, Kaveri-fljót og Krishna-fljót, sem líka enda í Bengalflóa;[43] og Narmada-fljót og Tapti-fljót sem renna út í Arabíuhaf.[44] Við ströndina er að finna sjávarfitjarnar Rann í Kutch og Sundarban-fenjaviðarskógana við austurströndina. Skógarnir ná inn í Bangladess.[45] Tveir stórir eyjaklasar tilheyra Indlandi: Lakshadweep, kóraleyjar undan suðvesturströnd Indlands; og Andaman- og Níkóbareyjar, eldfjallaeyjar í Andamanhafi.[46]

Himalajafjöllin og Thar-eyðimörkin hafa mikil áhrif á veður á Indlandi, þar sem þau drífa áfram monsúnveðrakerfið að sumri og vetri.[47] Himalajafjöllin stöðva kalda vinda frá Mið-Asíu þannig að meginhluti Indlands er mun hlýrri en flestir aðrir staðir á svipuðum breiddargráðum.[48][49] Thar-eyðimörkin leikur lykilhlutverk við að draga til sín raka sumarmonsúnvinda sem sjá Indlandi fyrir megninu af sinni ársúrkomu frá júní til október.[47] Á Indlandi eru ríkjandi fjögur loftslagsbelti: rakt hitabeltisloftslag, þurrt hitabeltisloftslag, rakt hlýtemprað loftslag og fjallaloftslag.[50]

Á milli 1901 og 2018 hefur hiti á Indlandi hækkað um 0,7˚ C.[51] Það er talið ein afleiðing loftslagsbreytinga. Hop jökla í Himalajafjöllum frá 1850 hefur dregið úr rennsli í helstu ám, þar á meðal Gangesfljóti og Brahmaputra.[52] Samkvæmt spám munu þurrkar aukast og lengjast verulega fyrir lok þessarar aldar.[53]

Stjórnmál

breyta

Stjórnsýslueiningar

breyta

Indland er sambandsríki 28 fylkja og 8 alríkissvæða.[54] Öll fylkin, auk alríkissvæðanna Jammú og Kasmír, Puducherry og Delí, hafa kosið sér löggjafarþing og ríkisstjórnir, samkvæmt Westminster-kerfinu. Hin fimm alríkissvæðin eru undir beinni stjórn miðstjórnarinnar með skipaða umdæmisstjóra. Árið 1956 voru fylkin endurskipulögð á grundvelli tungumála.[55] Alls eru um 250 þúsund stjórnsýslueiningar á ýmsum stjórnsýslustigum (borgir, bæir, hverfi og þorp) á Indlandi.[56]

Fylki Indlands númeruð. 
Fylki Indlands númeruð.

Alríkissvæði

breyta

Íbúar

breyta
 
Tungumálaættir í Suður-Asíu.

Áætlað var að Indverjar væru 1.428.627.663 árið 2023, sem gerir Indland að fjölmennasta ríki heims.[57] Í manntali árið 2011 voru taldir 1.210.193.422 íbúar.[58] Fólksfjöldinn óx um 17,64% frá 2001 til 2011,[59] borið saman við 21,54% vöxt áratuginn á undan (1991–2001).[59] Samkvæmt manntalinu frá 2011 var kynjahlutfallið 940 konur á hverja 1000 karla.[58] Miðaldur var 28,7 ár (2020).[60] Fyrsta manntalið sem gert var eftir að landið fékk sjálfstæði, árið 1951, taldi 361 milljón íbúa.[61] Framfarir í læknisfræði síðustu 50 ár, og aukin framleiðni landbúnaðar vegna „grænu byltingarinnar“ urðu til þess að fólksfjöldinn hefur vaxið mjög hratt.[62]

Lífslíkur á Indlandi eru um 70 ár; 71,5 ár hjá konum og 68,7 ár hjá körlum.[60] Um 93 læknar eru á hverja 100.000 íbúa.[63] Síðustu ár hefur þéttbýlisvæðing einkennt indverskt samfélag. Hlutfall fólks í þéttbýli jókst um 31,2% milli 1991 og 2001.[64] Samt sem áður bjuggu yfir 70% í dreifbýli árið 2001.[65][66] Þéttbýlisvæðingin jókst enn frá 27,81% í manntalinu árið 2001 í 31,16% 2011. Hægst hefur á fólksfjölgun í heildina vegna þess að vöxturinn í dreifbýli hefur hrapað frá 1991.[67] Samkvæmt manntalinu 2001 eru 53 þéttbýlisstaðir með yfir milljón íbúa á Indlandi. Meðal þeirra eru Mumbai, Delí, Kolkata, Chennai, Bangalore, Hyderabad og Ahmedabad.[68] Læsi var 74,04%; 65,46% hjá konum og 82,14% hjá körlum.[69] Munurinn á læsi í dreifbýli og þéttbýli var 21,2% árið 2001, en hafði fallið í 16,1% árið 2011. Læsi í dreifbýli hefur vaxið tvöfalt á við læsi í þéttbýli.[67] Hlutfall læsis er hæst í Kerala þar sem það er 93,91%, en lægst í Bihar þar sem það er 63,82%.[69]

Af þeim sem tala indversk mál, tala 74% indóarísk mál, austurgrein indóevrópskra mála; 24% tala dravidísk mál sem eru upprunnin í Suður-Asíu og voru töluð víðar áður en indóevrópsku málin breiddust þar út; og 2% tala ástróasísk mál eða sínótíbetsk mál. Hindí sem er algengasta einstaka tungumálið, er opinbert stjórnsýslumál.[70][71] Enska er notuð víða í viðskiptum og stjórnsýslu og hefur stöðu „opinbers hjálparmáls“.[72] Enska er líka mikilvæg í menntakerfinu, sérstaklega í framhaldsskólum. Hvert fylki og sambandssvæði hefur eitt eða fleiri opinber tungumál, og stjórnarskráin nefnir 22 „skráð tungumál“.

Samkvæmt manntalinu frá 2011 var hindúasiður þau trúarbrögð sem flestir íbúar aðhylltust (79,8%). Þar á eftir koma íslam (14,23%), kristni (2,3%), síkismi (1,72%), búddatrú (0,7%), jaínismi (0,36%) og önnur (0,9%).[73] Indland er í þriðja sæti yfir lönd eftir fjölda múslima og það fjölmennasta þar sem múslimar eru ekki í meirihluta.[74][75]

Stærstu borgir

breyta

Taflan sýnir tíu stærstu borgir á Indlandi og hvaða fylkjum þær tilheyra.

Borg Íbúafjöldi Ríki
Mumbai 13.662.885 Maharashtra
Delí 11.954.217 Delí
Kolkata 7.780.544 Vestur-Bengal
Hyderabad 6.893.640 Telangana
Bangalore 5.180.533 Karnataka
Chennai 4.562.843 Tamil Nadu
Ahmedabad 3.867.336 Gujarat
Pune 3.230.322 Maharashtra
Surat 3.124.249 Gujarat
Kanpur 3.067.663 Uttar Pradesh

Tilvísanir

breyta
  1. Petraglia & Allchin 2007, bls. 10
  2. Dyson 2018, bls. 1
  3. Fisher 2018, bls. 23
  4. Dyson 2018, bls. 28
  5. Dyson 2018, bls. 4–5
  6. Fisher 2018, bls. 33
  7. Witzel, Michael (1997), „The Development of the Vedic Canon and its Schools: The Social and Political Milieu“ (PDF), Í Michael Witzel (ritstjóri), Inside the Texts, Beyond the Texts: New Approaches to the Study of the Vedas, Harvard Oriental Series, Opera Minora, 2. árgangur, Cambridge: Harvard University Press, bls. 257Snið:Ndash348, afrit (PDF) af uppruna á 4. ágúst 2020, sótt 22. september 2015
  8. Asher & Talbot 2006, bls. 17
  9. Ludden 2014, bls. 54
  10. Asher & Talbot 2006, bls. 78–79
  11. Fisher 2018, bls. 76
  12. Copland 2001, bls. 71–78
  13. Metcalf & Metcalf 2006, bls. 222.
  14. Metcalf, Barbara D.; Metcalf, Thomas R. (2012). A Concise History of Modern India. Cambridge University Press. ISBN 978-1-107-02649-0.
  15. Narayan, Jitendra; John, Denny; Ramadas, Nirupama (2018). „Malnutrition in India: status and government initiatives“. Journal of Public Health Policy. 40 (1): 126–141. doi:10.1057/s41271-018-0149-5. ISSN 0197-5897. PMID 30353132. S2CID 53032234.
  16. Balakrishnan, Kalpana; Dey, Sagnik; og fleiri (2019). „The impact of air pollution on deaths, disease burden, and life expectancy across the states of India: the Global Burden of Disease Study 2017“. The Lancet Planetary Health. 3 (1): e26–e39. doi:10.1016/S2542-5196(18)30261-4. ISSN 2542-5196. PMC 6358127. PMID 30528905.
  17. India, International Union for Conservation of Nature (IUCN), 2019, afrit af upprunalegu geymt þann 1. nóvember 2020, sótt 21. maí 2019
  18. „National Parks, National Wildlife Database Cell“. Wildlife Institute of India. 4. janúar 2023. Afrit af uppruna á 25. mars 2023. Sótt 26. mars 2023.
  19. „India (noun)“, Oxford English Dictionary (3rd. útgáfa), 2009 (subscription required)
  20. Thieme 1970, bls. 447–450.
  21. Kuiper 2010, bls. 86.
  22. 22,0 22,1 22,2 Clémentin-Ojha 2014.
  23. The Constitution of India (PDF), Ministry of Law and Justice, 1. desember 2007, afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 9. september 2014, sótt 3. mars 2012
  24. Jha, Dwijendra Narayan (2014), Rethinking Hindu Identity, Routledge, bls. 11, ISBN 978-1-317-49034-0
  25. Singh 2017, bls. 253.
  26. 26,0 26,1 Barrow 2003.
  27. Paturi, Joseph; Patterson, Roger (2016). „Hinduism (with Hare Krishna)“. Í Hodge, Bodie; Patterson, Roger (ritstjórar). World Religions & Cults Volume 2: Moralistic, Mythical and Mysticism Religions. United States: New Leaf Publishing Group. bls. 59–60. ISBN 978-0-89051-922-6.
  28. „Hindustan“, Encyclopædia Britannica, sótt 17. júlí 2011
  29. 29,0 29,1 29,2 29,3 Ali & Aitchison 2005.
  30. Dikshit & Schwartzberg 2023, bls. 7.
  31. Prakash et al. 2000.
  32. Kaul 1970, bls. 160
  33. Prasad 1974, bls. 372
  34. Fisher 2018, bls. 83
  35. Mcgrail et al. 2003, bls. 257.
  36. Dikshit & Schwartzberg 2023, bls. 8.
  37. Dikshit & Schwartzberg 2023, bls. 9–10.
  38. Ministry of Information and Broadcasting 2007, bls. 1.
  39. 39,0 39,1 Kumar et al. 2006.
  40. Dikshit & Schwartzberg 2023, bls. 15.
  41. Duff 1993, bls. 353.
  42. Basu & Xavier 2017, bls. 78.
  43. Dikshit & Schwartzberg 2023, bls. 16.
  44. Dikshit & Schwartzberg 2023, bls. 17.
  45. Dikshit & Schwartzberg 2023, bls. 12.
  46. Dikshit & Schwartzberg 2023, bls. 13.
  47. 47,0 47,1 Chang 1967, bls. 391–394.
  48. Posey 1994, bls. 118.
  49. Wolpert 2003, bls. 4.
  50. Heitzman & Worden 1996, bls. 97.
  51. Sharma, Vibha (15. júní 2020). „Average temperature over India projected to rise by 4.4 degrees Celsius: Govt report on impact of climate change in country“. The Tribune. Sótt 30. nóvember 2020.
  52. Sethi, Nitin (3. febrúar 2007). „Global warming: Mumbai to face the heat“. The Times of India. Sótt 11. mars 2021.
  53. Gupta, Vivek; Jain, Manoj Kumar (2018). „Investigation of multi-model spatiotemporal mesoscale drought projections over India under climate change scenario“. Journal of Hydrology. 567: 489–509. Bibcode:2018JHyd..567..489G. doi:10.1016/j.jhydrol.2018.10.012. ISSN 0022-1694. S2CID 135053362.
  54. Library of Congress 2004.
  55. Sharma 2007, bls. 49.
  56. „India“. Commonwealth Local Government Forum. Afrit af uppruna á 15. júlí 2019. Sótt 7. september 2019.
  57. „World Population Prospects“. Population Division – United Nations. Sótt 2. júlí 2023.
  58. 58,0 58,1 Provisional Population Totals Paper 1 of 2011 India, bls. 160.
  59. 59,0 59,1 Provisional Population Totals Paper 1 of 2011 India, bls. 165.
  60. 60,0 60,1 Central Intelligence Agency.
  61. „Population Of India (1951–2001)“ (PDF). Census of India. Ministry of Finance. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 12. ágúst 2011. Sótt 13. febrúar 2013.
  62. Rorabacher 2010, bls. 35–39.
  63. „Physicians (per 1,000 people) – India“. World Bank. 2019. Sótt 27. mars 2022.
  64. Garg 2005.
  65. Dyson & Visaria 2005, bls. 115–129.
  66. Ratna 2007, bls. 271–272.
  67. 67,0 67,1 Chandramouli 2011.
  68. „Urban Agglomerations/Cities having population 1 lakh and above“ (PDF). Office of the Registrar General & Census Commissioner, India. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 17. október 2013. Sótt 12. maí 2014.
  69. 69,0 69,1 Provisional Population Totals Paper 1 of 2011 India, bls. 163.
  70. Ottenheimer 2008, bls. 303.
  71. Mallikarjun 2004.
  72. Ministry of Home Affairs 1960.
  73. „C −1 Population by religious community – 2011“. Office of the Registrar General & Census Commissioner. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. ágúst 2015. Sótt 25. ágúst 2015.
  74. „Global Muslim population estimated at 1.57 billion“. The Hindu. 8. október 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. júní 2013. Sótt 18. október 2021.
  75. „India Chapter Summary 2012“ (PDF). United States Commission on International Religious Freedom. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 7. apríl 2014. Sótt 18. október 2021.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta