[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/Fara í innihald

Stórmæri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stórmæri á hátindi sínum.

Stórmæri (latína: Regnum Marahensium, gríska: Μεγάλη Μοραβία, Megale Moravia; tékkneska: Velká Morava; slóvakíska: Veľká Morava; pólska: Wielkie Morawy, þýska: Grossmähren) eða einfaldlega Mæri[1][2][3] var fyrsta stóra ríki Vestur-Slava sem varð til í Mið-Evrópu og stóð frá 833 til um 907.[4] Það náði að öllum líkindum yfir landsvæði sem í dag eru hlutar af Tékklandi, Slóvakíu, Ungverjalandi, Austurríki, Þýskalandi, Póllandi, Rúmeníu, Króatíu, Serbíu og Úkraínu. Eina slavneska ríkið sem kom á undan því var Ríki Samós sem stóð frá 631 til 658.

Kjarnaland ríkisins var þar sem í dag heitir Mæri í austurhluta Tékklands, meðfram ánni Morava, sem það dregur nafn sitt af. Í þessu ríki myndaðist slavnesk bókmenning á kirkjuslavnesku og útbreiðsla kristni, fyrst með trúboðum frá Austur-Frankíu og síðan með komu Kýrils og Meþódíusar frá Miklagarði 863 og þróun glagólítísks leturs, fyrsta letursins sem gert var fyrir ritun slavneskra mála. Það þróaðist síðan í það sem var nefnt kýrillískt letur.

Ekki er vitað hvar landamæri ríkisins lágu nákvæmlega. Stórmæri náði hátindi sínum í valdatíð Svatopluks 1. sem ríkti frá 870 til 894. Klofningur og innanlandsátök eftir dauða hans leiddu til hruns þegar Magýarar réðust inn í ríkið og lögðu núverandi Slóvakíu undir sig. Nákvæmlega hvenær það gerðist er ekki vitað, en talið að það hafi verið milli 902 og 907.

Menningarleg vakning varð í Stórmæri í valdatíð Rastislavs konungs, með komu trúboðanna Kýrils og Meþódíusar árið 863. Róm hafði áður hafnað beiðni Rastislavs um trúboða, svo hann sneri sér til Býsantíum og óskaði eftir kennurum í bókmenntum og lögum. Bræðurnir Kýrill og Meþódíus þróuðu nýtt ritmál og messusöng á slavnesku. Hadríanus 2. páfi samþykkti það síðarnefnda að lokum.[5] Kýrill þróaði líklega glagólítíska letrið sjálfur og byggði ritmál sitt á slavneskri mállýsku sem hann og bróðir hans þekktu frá Þessalóníku. Kirkjuslavneskan var því talsvert ólík þeirri slavnesku sem var töluð í Stórmæri, sem var undanfari slavnesku mállýskanna sem í dag eru talaðar í Mæri og vesturhluta Slóvakíu.

Seinna rak Svatopluk 1. lærisveina Kýrils og Meþódíusar frá Stórmæri og sveigði opinber trúarbrögð ríkisins aftur að vestrænum sið. Það hafði aftur mikil áhrif á þau lönd þar sem lærisveinarnir settust að og héldu trúboði sínu áfram, sérstaklega í Suðaustur-Evrópu og Austur-Evrópu. Kirkjuslavneska varð opinbert ritmál í Búlgaríu frá 893 og er stundum kölluð fornbúlgarska þar. Kýrillískt letur, sem var þróað í Búlgaríu, tók við af því glagólítíska þótt það notaði sum tákn þaðan.[6][7][8][9]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Bowlus 1995, bls. 1.
  2. Barford 2001, bls. 108–112.
  3. Curta 2006, bls. 124–133.
  4. Drulák 2012, bls. 91.
  5. Elvins, Mark Twinham (1994). Towards a People's Liturgy: The Importance of Language. ISBN 9780852442579.
  6. Auty, R. Handbook of Old Church Slavonic, Part II: Texts and Glossary. 1977.
  7. Dvornik, Francis (1956). The Slavs: Their Early History and Civilization. Boston: American Academy of Arts and Sciences. bls. 179.
  8. Curta 2006, bls. 221–222.
  9. J. M. Hussey, Andrew Louth (2010). „The Orthodox Church in the Byzantine Empire“. Oxford History of the Christian Church. Oxford University Press. bls. 100. ISBN 978-0191614880.
  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.