[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/Fara í innihald

Qasem Soleimani

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Qasem Soleimani
قاسم سلیمانی‎
Qasem Soleimani árið 2019.
Fæddur11. mars 1957
Dáinn3. janúar 2020 (62 ára)
ÞjóðerniÍranskur
StörfHermaður
TrúSjía-íslam

Qasem Soleimani (11. mars 1957 – 3. janúar 2020) var íranskur hershöfðingi og lengi leiðtogi Quds-sveitanna innan íranska byltingarvarðarins, sem standa fyrir hernaðaraðgerðum Írans erlendis og móta m. a. stefnu Írans í Írak, Líbanon, Afganistan og á Gasaströndinni. Hann var um árabil talinn einn voldugasti maður Írans á eftir æðstaklerknum Ali Khamenei.[1] Soleimani var ráðinn af dögum í drónaárás Bandaríkjahers á flugvöll í Bagdad þann 3. janúar árið 2020. Dauði hans hefur ollið verulegri ólgu í Íran og Írak og hefur spillt samskiptum beggja landanna við Bandaríkin.[2]

Qasem Soleimani fæddist í fjallaþorpinu Qanat-e Malek í austurhluta Írans og kom úr fátækri bændafjölskyldu. Hann lauk fimm ára grunnskólanámi og flutti síðan til borgarinnar Kerman þegar hann var 13 ára til að vinna í byggingarvinnu til að hjálpa fjölskyldu sinni að standa skil á skuldum sínum.[3]

Eftir írönsku byltinguna árið 1970 gekk Soleimani til liðs við byltingarvarðlið hinnar nýju klerkastjórnar landsins. Þegar stríð Írans og Íraks braust út var Soleimani sendur á víglínurnar og komst þar brátt til metorða innan íranska hersins.[4]

Árið 1998 var Soleimani gerður leiðtogi írönsku Quds-sveitanna.[2] Stuttu eftir að hann hlaut þá stöðu var Soleimani meðal hóps herforingja sem vöruðu forseta Írans, Mohammad Khatami, gegn því að láta stúdentamótmæli sem þá geisuðu afskiptalaus. Talið er að hótanir herforingjanna um að grípa inn í stöðuna hafi átt þátt í ákvörðun Khatami um að láta lögregluna brjóta mótmælin á bak aftur.[3]

Sem foringi Quds styrkti hann meðal annars samstarf sveitanna við líbönsku skæruliðasamtökin Hizbollah og starfaði með þeim í stríði Líbanon og Ísraels árið 2006. Soleimani stýrði einnig inngripi Írana í sýrlensku borgarastyrjöldina og gaf Bashar al-Assad Sýrlandsforseta ráð um hvernig hann skyldi sigrast á uppreisnarmönnum.[5] Þá átti hann drjúgt hlutverk í skipulagningu hernaðaraðgerða Rússlands í styrjöldinni.[6]

Soleimani hafði í kjölfar Íraksstríðsins notið verulegra áhrifa í stjórnmálum Íraks sem fulltrúi Írana og honum var jafnvel lýst sem „valdamesta manni í Írak“ af fyrrum öryggismálaráðherra landsins.[1] Í Írak byggði hann völd sín meðal annars á því að múta embættismönnum, með því að styrkja fréttablöð og sjónvarpsstöðvar og með því að beita hótunum þegar þörf krafði.[4] Soleimani lagði línur við myndun ríkisstjórna, stýrði stjórnmálastefnu Íraks og bar ábyrgð á fjölda árása á bandaríska hermenn í landinu.[3] Frá árinu 2014 leiddi Soleimani sveitir sjíamúslima og kúrda í Írak í herförum gegn íslamska ríkinu þar í landi.[7]

Þann 3. janúar árið 2020 var Soleimani myrtur í drónaárás sem bandaríski herinn gerði á alþjóðaflugvöll í Bagdad á meðan Soleimani var staddur þar. Víg Soleimani voru fyrirskipuð af Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem réttlætti þau síðar með því móti að dauði hans hefði verið nauðsynlegur til að koma í veg fyrir stríð.[8] Í aðdraganda árásarinnar höfðu skæruliðar tengdir Írönum meðal annars gert árás ásamt íröskum mótmælendum á sendiráð Bandaríkjamanna í Bagdad.[2]

Bandaríkjamenn höfðu ári fyrir dauða Soleimani formlega skilgreint Quds-sveitirnar sem hryðjuverkasamtök. Innan Írans var Soleimani hins vegar álitinn þjóðhetja og tugþúsundir manna voru viðstaddir útför hans í Íran.[9] Að minnsta kosti 35 manns tróðust til bana í örtröð við líkför Soleimani í heimabæ hans, Kerman.[10]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Börkur Gunnarsson (7. ágúst 2011). „Íranski hershöfðinginn“. SunnudagsMogginn. Sótt 5. janúar 2020.
  2. 2,0 2,1 2,2 Atli Ísleifsson; Gunnar Reynir Valþórsson (3. janúar 2020). „Banda­ríkin réðu einn valda­mesta mann Írans af dögum“. Vísir. Sótt 5. janúar 2020.
  3. 3,0 3,1 3,2 Guðrún Hálfdánardóttir (6. janúar 2020). „Hetja eða hryðju­verkamaður?“. mbl.is. Sótt 8. janúar 2020.
  4. 4,0 4,1 Dexter Filkins (23. september 2013). „The Shadow Commander“ (enska). The New Yorker. Sótt 5. janúar 2020.
  5. Bogi Þór Arason (11. febrúar 2012). „Stefnir í enn blóðugri átök“. Morgunblaðið. Sótt 5. janúar 2020.
  6. How Iranian general plotted out Syrian assault in Moscow, Reuters
  7. Afshon Ostovar (2016). Vanguard of the Imam: Religion, Politics, and Iran's Revolutionary Guards. Oxford University Press. bls. 227.
  8. Ásrún Brynja Ingvarsdóttir (3. janúar 2020). „Segir að árásin hafi verið gerð til að stöðva stríð“. RÚV. Sótt 5. janúar 2020.
  9. Magnús Halldórsson (4. janúar 2020). „„Hefndin kemur". Kjarninn. Sótt 5. janúar 2020.
  10. „Tug­ir tróðust til bana við jarðarför So­leimani“. mbl.is. 7. janúar 2020. Sótt 8. janúar 2020.