Spútnik 3
Spútnik 3 (rússneska: Спутник-3) var sovéskt gervitungl sem skotið var á loft 15. maí 1958. Markmið verkefnisins var að rannsaka efri hluta lofthjúps Jarðarinnar.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Í júlí árið 1956 hófust Sovétmenn handa við að hanna og byggja fyrsta gervitunglið sem kallast átti ISZ. Spútnik 3 átti upphaflega að vera fyrsti gervihnöttur Sovétmanna. Framkvæmdirnar við Spútnik 3 töfðust nokkuð svo Sergei Korolyov, verkefnisstjórinn, ákvað að skjóta á loft hinum einfalda gervihnetti, Spútnik 1, á undan Spútnik 3 vegna þess að Korolyov óttaðist að Bandaríkjamenn yrðu fyrstir þjóða til að koma á loft gervihnetti ef ekki væri inn í gripið. Á endanum var Spútnik 2 einnig skotið upp á undan Spútnik 3 og af þessari röð draga gervihnettirnir þrír nöfn sín.
Það tók tvær tilraunir til að koma Spútnik 3 á loft. Sú fyrri fór fram þann 27. apríl 1958 en þá brotnaði eldflaugin eftir aðeins 88 sekúndur.[1] Seinni tilraunin, þann 15. maí sama ár, tókst.
Yfirlit verkefnisins
[breyta | breyta frumkóða]Spútnik 3 sem var 1.327 kg var skotið upp með R-7 Semyorka eldflaug, ekki ósvipaðri þeim sem notaðar voru við geimskot Spútnik 1 og 2. Farið sjálft var keilulaga, 3,57 meta langt og 1,73 metra breitt við grunninn. Braut farsins var 216 x 1863 kílómetrar og hallinn 65,3°.[2]
Spútnik 3 var sjálfvirkur vísindagervihnöttur sem safnaði upplýsingur um þrýsting og efnasamsetningu efri hluta lofthjúps jarðarinnar (Heið-, Mið- og hluta Hitahvolfsins). Einnig safnaði hann upplýsingum um fjölda hlaðinna öreinda, frumeindakjarna og ljóseindir í geimgeislum, raf- og segulsvið auk þess að leita eftir eindum úr loftsteinum. Upptökutækið um borð bilaði strax eftir geimskot og því var einungis hægt að safna upplýsingum frá geimfarinu þegar það var innan samskiptasvæða móttökustöðva Sovétmanna á Jörðinni. Þetta varð til þess að hið svokallaða Van Allen-belti var ekki uppgötvað af Sovétmönnum heldur Bandarísku gervihnöttunum Explorer 1 og Explorer 3. Þann 1. maí 1959 hætti Spútnik 3 að senda gagnlegar upplýsingar og brann upp í andrúmslofti Jarðar þann 6. apríl 1960.[2]