[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Tadsíkistan

(Endurbeint frá Tadsjikistan)

Tadsíkistan (tadsíska: Тоҷикистон) er land í Mið-Asíu með landamæri að Afganistan í suðri, Kína í austri, Kirgistan í norðri og Úsbekistan í vestri. Í suðri skilur Wakhan-ræman Tadsikistan frá pakistönsku héruðunum Chitral og Gilgit-Baltistan. Nafnið er dregið af heiti þjóðarbrots Tadsíka.

Lýðveldið Tadsíkistan
Ҷумҳурии Тоҷикистон
Jumhurii Tojikiston
Fáni Tadsíkistans Skjaldarmerki Tadsíkistans
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Surudi Milli
Staðsetning Tadsíkistans
Höfuðborg Dúsjanbe
Opinbert tungumál tadsikíska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Emomali Rahmon
Forsætisráðherra Kokhir Rasulzoda
Sjálfstæði
 • frá Sovétríkjunum 9. september 1991 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
94. sæti
143.100 km²
1,8
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
96. sæti
9.537.645
48,6/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 30,547 millj. dala (132. sæti)
 • Á mann 3.354 dalir (155. sæti)
VÞL (2019) 0.668 (125. sæti)
Gjaldmiðill somoni
Tímabelti UTC+5
Þjóðarlén .tj
Landsnúmer +992

Landið var hluti af Baktríu í fornöld og varð síðan hluti af ríki Túkara (Skýþa). Á 9. öld var Tadsíkistan hluti af Samanídaríkinu en höfuðborg þess var Samarkand. Mongólar lögðu þessi lönd undir sig á 13. öld og Tadsíkistan varð hluti af Tímúrveldinu þegar Mongólaveldið klofnaði í smærri ríki og síðan Búkarakanatinu. Það varð síðan hluti af Rússneska keisaradæminu sem suðurhluti Túrkistans árið 1867. Tadsíkistan rekur rætur sínar til þess þegar Sovétmenn stofnuðu sérstakt sovétlýðveldi Tadsíka innan Úsbekistans árið 1924. Tadsíkistan lýsti yfir sjálfstæði árið 1991 í kjölfar falls Sovétríkjanna. Fyrsta ríkið til að viðurkenna sjálfstæði landsins var Íran. Aðeins ári síðar braust borgarastyrjöldin í Tadsíkistan út og stóð til 1997. Átök hafa síðan blossað upp í austurhluta landsins.

Flestir íbúar landsins eru Tadsíkar, sem er almennt heiti yfir ýmis persneskumælandi þjóðarbrot í Mið-Asíu. Tadsíska er afbrigði nútímapersnesku. Múslimar eru 98% íbúa og súnní íslam af hanafi-grein er opinber trú, en stjórnarskrá landsins kveður á um trúfrelsi og ríkisvaldið er veraldlegt. Í landinu búa einnig Úsbekar, Kirgisar og Rússar. Í austurhluta landsins búa Pamírar sem eru sjítar. Í fjallahéruðum í norðri búa Jagnóbar sem tala jagnóbísku sem er eina tungumálið sem komið er af sogdísku sem eitt sinn var töluð um alla Mið-Asíu.

Tadsíkistan var fátækasta sovétlýðveldið innan Sovétríkjanna og það er nú fátækasta land Mið-Asíu. Borgarastyrjöldin hafði mjög neikvæð áhrif á efnahagslíf landsins en eftir vopnahléð hefur það aftur tekið við sér. Helstu útflutningsvörur Tadsíkistans eru ál og baðmull. Tadsíska ríkisfyrirtækið TALKO rekur stærsta álver Mið-Asíu og eitt það stærsta í heimi. Nurekstíflan í ánni Vaksj er önnur hæsta manngerða stífla heims.

Landfræði

breyta
 
Gervihnattarmynd af Tadsíkistan.

Tadsíkistan er landlukt land og minnsta land Mið-Asíu að flatarmáli. Það er að mestu milli 36. og 41. breiddargráðu norður og 67. og 75. lengdargráðu austur. Tadsíkistan er í Pamírfjöllum og stærstur hluti landsins er í yfir 3.000 metra hæð. Helstu láglendissvæðin eru í Ferganadal í norðri og í árdölum Kofarnihon-ár og Vakhsh-ár sem renna saman í Amu Darya í suðri. Dúsjanbe er í suðurhlíðum Kofarnihon-dals.

Fjall Hæð Staðsetning
Ismoil Somoni-tindur (hæstur) 7.495 m Norðvesturmörk Gorno-Badakhshan (GBAO), sunnan við landamærin að Kirgistan.
Ibn Sina-tindur (Leníntindur) 7.134 m Norðurmörk í Trans-Alaj-fjöllum, norðaustan við Ismoil Somoni-tind.
Korsjenevskajatindur 7.105 m Norðan við Ismoil Somoni-tind, á suðurbakka Muksu-ár.
Sjálfstæðistindur (Byltingartindur) 6.974 m Miðhluti Gorno-Badakhshan, suðaustan við Ismoil Somoni.
Vísindaakademíufjöll 6.785 m Norðvesturhluti Gorno-Badakhshan, í norður-suðurátt.
Karl Marx-tindur 6.726 m GBAO, við landamærin að Afganistan í norðurfjöllum Karakoramfjalla.
Garmo-tindur 6.595 m Norðvesturhluta Gorno-Badakhshan.
Majakovsíjtindur 6.096 m Suðvestan við GBAO, við landamærin að Afganistan.
Concord-tindur 5.469 m Suðurlandamærin í norðurhluta Karakoramfjalla.
Kyzylart Pass 4.280 m Norðurlandamærin í Trans-Alaj-fjallgarðinum.

Árnar Amu Darya og Panj mynda landamæri Tadsíkistans við Afganistan, og jöklar í fjöllum Tadsíkistans eru mikilvæg upptök vatns sem rennur í Aralvatn. Yfir 900 ár í Tadsíkistan eru yfir 10 km að lengd.

Stjórnmál

breyta

Stjórnsýslueiningar

breyta
 
Héruð Tadsíkistans.

Tadsíkistan skiptist í 4 stjórnsýslueiningar. Þetta eru héruðin (viloyat) Sughd og Khatlon, sjálfstjórnarhéraðið Gorno-Badakhshan (skammstafað GBAO) og Lýðveldisstjórnarhéraðið (NTJ – Ноҳияҳои тобеи ҷумҳурӣ á tadsikísku; áður þekkt sem Karotegin-hérað). Hvert hérað skiptist í nokkur umdæmi (Ноҳия nohija), sem aftur skiptast í jamoöt (þorpseiningar) og síðan þorp (qyshloq). Árið 2006 voru 58 umdæmi og 367 jamoöt í Tadsíkistan.[1]

Hérað ISO 3166-2 Nr. á korti Höfuðborg Stærð (km2)[1] Íbúar (2019)[2]
Sughd TJ-SU 1 Khujand 25.400 2.658.400
Lýðveldisstjórnarhéraðið TJ-RR 2 Dúsjanbe 28.600 2.122.000
Khatlon TJ-KT 3 Bokhtar  24.800 3.274.900
Gorno-Badakhshan TJ-GB 4 Khorugh 64.200 226.900
Dúsjanbe Dúsjanbe 124,6 846.400

Íbúar

breyta

Íbúar Tadsíkistan eru tæplega 10 milljónir. 70% þeirra eru undir þrítugu og 35% eru milli 14 og 30 ára.[3] Tadsíkar sem tala tadsikísku (skyld persnesku) eru stærsta þjóðarbrotið. Í landinu búa einnig stórir hópar Rússa og Úsbeka, en þeim fer fækkandi vegna brottflutnings.[4] Pamírar í Badaksjan, lítill hópur Jagnóba, og nokkuð stór minnihlutahópur Ísmaíla, eru allir taldir með Tadsíkum.[5]

 
Nowruz-hátíðahöld í Tadsíkistan.

Árið 1989 voru Rússar 7,6% íbúa landsins, en 1998 hafði hlutfall þeirra minnkað niður í 0,5%, eftir borgarastyrjöldina í Tadsíkistan sem olli miklum búsifjum meðal Rússa. Eftir stríðið hélt brottflutningur Rússa áfram.[6] Fjöldi Þjóðverja hefur líka minnkað í Tadsíkistan vegna brottflutnings. Þjóðverjar voru flestir 38.853 árið 1979, en eru nú nær horfnir.[7]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Population of the Republic of Tajikistan as of 1 January 2008, State Statistical Committee, Dushanbe, 2008
  2. „Population size, Republic of Tajikistan on January 1, 2019“ (PDF) (tadsjikska). Tajikistan Statistics Agency. 2019. bls. 16–29. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann júlí 2, 2015. Sótt 28. mars 2020.
  3. Tajikistan: Building a Democracy (video) Geymt 11 apríl 2016 í Wayback Machine, Sameinuðu þjóðirnar, mars 2014
  4. Russians left behind in Central Asia Geymt 11 september 2013 í Wayback Machine, Robert Greenall, BBC News, 23. nóvember 2005.
  5. CIA World Factbook. Tajikistan
  6. Tajikistan – Ethnic Groups Geymt 7 desember 2010 í Wayback Machine. Heimild: U.S. Library of Congress.
  7. Russian-Germans in Tajikistan Geymt 20 ágúst 2009 í Wayback Machine. Pohl, J. Otto. "Russian-Germans in Tajikistan", Neweurasia, 29. mars 2007.
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.