Norræna félagið
Norræna félagið er félag sem vinnur að því að efla tengsl fólks innan Norðurlandanna. Félagið var fyrst stofnað í Svíþjóð árið 1917 en á fundi í Kaupmannahöfn árið eftir var ákveðið að stofna félag með félagsdeildir á öllum Norðurlöndunum. Árið 1919 voru svo stofnaðar deildir í Noregi og Danmörku. 1922 var stofnuð deild á Íslandi og 1924 í Finnlandi. Síðan þá hafa bæst við félagsdeildir á Færeyjum, Álandseyjum og Grænlandi. Félagið stóð frá upphafi fyrir félagsmótum þar sem fólk frá öllum Norðurlöndunum hittist.
Félagið sinnir margs konar starfsemi; Það veitir meðal annars styrki til lýðháskólanáms á Norðurlöndunum og fjármagnar verkefnið Nordjobb ásamt Norrænu ráðherranefndinni. Norræna félagið rekur jafnframt Íslandsskrifstofu Halló Norðurlanda, sem er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir fólk sem hyggst flytja búferlum milli Norðurlanda.