[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Manchester er borg í norðvesturhluta Englands. Íbúafjöldi er 503 þúsund en yfir tvær milljónir búa á stórborgarsvæðinu. Bærinn myndaðist á tímum Rómverja, en hann breyttist fyrst í stórborg með iðnbyltingunni þegar svæðið varð miðstöð baðmullarvinnslu og vefnaðariðnaðar. Bridgewater-skurðurinn, sem er fyrsti eiginlegi skipaskurðurinn í Bretlandi, var opnaður 1761 til að flytja kol úr kolanámum við Worsley til Manchester. Fyrsta járnbrautin fyrir farþegalestir í heiminum var lögð frá Manchester til Liverpool og opnaði 1830.

City of Manchester
Sjóndeildarhringur Manchester
Sjóndeildarhringur Manchester
Skjaldarmerki City of Manchester
Viðurnefni: 
„Capital of the North“, „Cottonopolis“,
„Second city“, „Warehouse City“
Kjörorð: 
Concilio Et Labore (latneska: Viska og áreynsla)
Staðsetning City of Manchester
Manchester í Englandi
LandEngland
SvæðiNorðvestur-England
SýslaGreater Manchester
Stofnun1. öld
Stjórnarfar
 • BorgarstjóriAbid Latif Chohan
Flatarmál
 • Samtals115,65 km2
Hæð yfir sjávarmáli
38 m
Mannfjöldi
 (2006)
 • Samtals503.127 (2.011)
 • Þéttleiki3.815/km2
Póstnúmer
M
Svæðisnúmer0161
TímabeltiGMT
Vefsíðawww.manchester.gov.uk

Lega og lýsing

breyta

Manchester liggur á sléttlendi rétt vestan við Pennínafjöll og um 50 km fyrir austan ströndina að Írlandshafi. Næstu stærri borgir eru Bolton fyrir norðvestan (20 km), Liverpool til vesturs (50 km), Stoke til suðurs (60 km) og Leeds til norðausturs (60 km). Fljótið Mersey rennur til vesturs í gegnum borgina uns það mundar í Merseyside. Í borginni sjálfri búa rúmlega hálf milljón, en á stórborgarsvæðinu búa 2,2 milljónir manna. Þannig er Manchestersvæðið þriðja stærsta stórborgarsvæðið í Englandi (á eftir London og Birmingham). Í Manchester er höfn sem liggur við skipaskurðinn Manchester Ship Canal.

Orðsifjar

breyta

Rómverjar nefndu staðinn Mamucium. Það er líklega fengið að láni úr keltnesku, en mamm merkir brjóst (þ.e. lítil hæð). Aðrir vilja meina að mamm merki móðir, sem vísar í gyðju í ánni Medlock. Chester er dregið af latneska orðinu castra, sem merkir búðir (rómverska herstöðin). Þegar engilsaxar settust að á staðnum gáfu þeir honum heitið Memeceaster, sem þróaðist í Manchester. Íbúar Manchester eru kallaðir Mancunians.

Skjaldarmerki

breyta
 
Skjaldarmerki Manchester

Skjaldarmerki borgarinnar er tvískipt. Fyrir neðan er rauður flötur með þremur gulum skáhöltum línum. Fyrir ofan er seglskip á hafi en það vísar til þess að Manchester var og er miðstöð verslunar. Skjaldarberarnir eru antílópa til vinstri og ljón til hægri. Antílópan merkir iðni en ljónið yfirráð. Bæði dýrin eru með rauðu rós Lancashire, sem er konungsmerki. Efst er hnattlíkan með býflugum. Hnötturinn er tákn um heimsverslun borgarinnar. Býflugurnar eru tákn um iðni en Manchester er upphafsstaður iðnbyltingarinnar. Neðst er borði með áletruninni Concilio et Labore, sem merkir Með visku og iðni. Skjaldarmerkið var veitt 1842, ellefu árum áður en bærinn fékk borgarréttindi.

Saga Manchester

breyta

Rómverjar

breyta
 
Endurgert borgarhlið Rómverja í Manchester

Það voru Rómverjar undir stjórn Gnaeusar Iuliusar Agricola sem reistu virki á staðnum 79 e.Kr. meðan þeir herjuðu á keltneska þjóðflokkinn Briganta. Virki þetta var gert úr torfi og viði. Það var endurgert árið 160 og aftur árið 200. Í kjölfarið myndaðist byggð í grennd við virkið er verslunarmenn og iðnaðarmenn settust þar að. Virkið var yfirgefið á miðri 3. öld, þó að fámennur hópur rómverskra hermanna hafi verið á staðnum allt fram til þess tíma er Rómverjar yfirgáfu landið árið 407.

Miðaldir

breyta
 
Gamlar byggingar við Shambles Square frá miðri 16. öld

Eftir brotthvarf Rómverja var svæðið meira eða minna autt. Engilsaxar settust að á staðnum á 7. öld, en vísbendingar eru um að keltar og Danir hafi búið í og við staðnum. Nokkur konungsríki mynduðust. Í stríði milli þeirra er líklegt að bænum Manchester hafi verið eytt 620 af Edwin frá Norðymbralandi og aftur 870 af Dönum. Manchester sjálft var hluti af konungsríki Mersíu (Mercia). Eftir daga Mersíu, þegar normannar hertóku England 1066, varð Manchester hluti af Salford-sýslu í Lancashire. Þar réði Gesle-ættin ríkjum í tvær aldir, sem aftur var undir konung Englands sett. Snemma á 13. öld fékk Manchester markaðsréttindi. Á 14. öld settust iðnaðarmenn frá Flæmingjalandi að í Manchester og hófu vefnað. Þetta var upphafið að miklum iðnaði í bænum og varð hann brátt að leiðandi miðstöð iðnaðar í Lancashire.

Uppgangur

breyta

Í borgarastyrjöldinni á 17. öld gekk Manchester til liðs við þingið (Cromwell) og því sátu konungsmenn um borgina. Manchester var ekki með varnarmúra en náði samt að verjast. Þegar konungdómurinn var endurreistur í Englandi 1660 missti Manchester því öll þingsæti sín fyrir næstu tvær aldir. Þrátt fyrir það varð mikill efnahagslegur uppgangur í borginni, fyrst og fremst með vefnaði og verslun. Til að mynda betri verslunarleiðir voru árnar Irwell og Mersey gerðar skipgengar 1736. Árið 1761 var Bridgewater-skurðurinn tekinn í notkun en hann er elsti skipaskurður Bretlands. Með tilkomu hans varð bylting í samgöngum á svæðinu. Skip fluttu aðallega kol til Manchester. Þá varð borgin orðin leiðandi í framleiðslu og sölu á vefnaðarvörum.

Iðnbyltingin

breyta
 
Baðmullarverksmiðjur í Manchester í kringum 1820
 
Fyrsta járnbraut heims fyrir farþega var tekin í notkun 1830 og gekk hún milli Manchester og Liverpool

Þegar aldamótin 1800 gengu í garð átti sér stað mikil bylting í vefnaðarmálum borgarinnar. Með tilkomu gufuvélarinnar jukust afköst vefnaðar til muna. Allar aðstæður fyrir uppgang iðnaðar voru til staðar í Manchester. Kol, skipaaðgengi, mannafl og vefnaður. Á fyrstu áratugum 19. aldar varð Manchester fyrsta og fremsta iðnborg í heimi. Hún hlaut viðurnefnið Cottonpolis og Warehouse City sökum mikils vefnaðar og verslunar. Annars konar iðnaður þreifst einnig og má þar nefna vélaiðnað og efnaiðnað. Samgöngur voru bættar í takt við vöxt borgarinnar. Skipaskurðirnir voru betrumbættir og fyrsta járnbrautarlest heims með farþega tók til starfa 1830. Hún gekk milli Manchester og Liverpool. Auk farþega flutti lestin einnig vörur til hafnarinnar í Liverpool. Íbúatala borgarinnar margfaldaðist. 1801 voru íbúar stórborgarsvæðisins 328 þúsund, 1821 voru þeir 526 þúsund og 1851 voru þeir orðnir rúmlega milljón. Þeir voru komnir í rúmar tvær milljónir áður en öldin var á enda. Árið 1900 var borgin orðin níunda stærsta borg heims. Manchester var einnig fyrsta borg heims þar sem símakerfi tók til starfa. 1894 var enn einn skipaskurður grafinn sem gerði úthafsskipum kleift að sigla til hafnar í Manchester. Fyrsta tilbúna iðnaðarhverfi heims reis 1896-1910 í Trafford Park þar sem m.a. Ford og Westinghouse ráku verksmiðjur. Samfara iðnbyltingunni og kapítalismanum komu upp kröfur um bætt skilyrði verkalýðsins. Friedrich Engels dvaldi lengi í Manchester og notaði hann aðstæður þar í verk sitt The Condition of the Working Class in England in 1844. Karl Marx sótti Engels heim í Manchester og sá aðstæðurnar með eigin augum. Fyrstu verkalýðsþingin voru haldin í Manchester 1868. Borgin var einnig höfuðvígi verkamannaflokksins í Englandi, sem og kvenréttindahreyfingin. Þegar komið var fram á 20. öldina höfðu nágrannaborgir eins og Bolton og Oldham farið fram úr Manchester hvað fjölda vefmyllna varðaði. En Manchester var áfram leiðandi í framleiðslu baðmullarvara, enda voru 65% af heimsafurðum unnin á stórborgarsvæðinu. Borgin átti mjög undir högg að sækja í heimstyrjöldinni fyrri og sérstaklega í kreppunni miklu á fjórða áratugnum.

Nútími

breyta
 
Höfnin í Manchester í upphafi 20. aldar

Manchester breyttist mikið í heimstyrjöldinni síðari. Gamli vefnaðurinn minnkaði til muna, en við tók hervæðing. Til að mynda voru herflugvélar framleiddar þar (Avro-vélar og Rolls Royce-mótorar). Því varð borgin fyrir loftárásum þýska flughersins. Þær verstu áttu sér stað 22.-24. desember 1940 (Christmas Blitz) er 467 þungum sprengjum og 37 þús eldsprengjum var varpað á borgina. Stór hluti miðborgarinnar eyðilagðist, þar á meðal 165 vöruhús, 200 fyrirtæki og fjölda annarra húsa. 30 þúsund önnur hús skemmdust, þar á meðal dómkirkjan. Þó biðu aðeins 376 manns bana. Eftir stríð breyttist atvinnulíf borgarinnar aftur. Sökum skemmda í miðborginni var hún endurbyggð en nútíma byggingar voru hafðar í fyrirrúmi. Baðmullarmarkaðurinn hrundi en verslun jókst. Höfnin stækkaði og var þriðja stærsta höfn Englands 1963. Þegar gámaskipin komu til sögunnar minnkaði vægi hafnarinnar, því að skipin stækkuðu og komust ekki lengur um skipaskurðina. Höfninni var að mestu lokað 1982. Þungaiðnaður minnkaði sömuleiðis talsvert, en við tók upplýsingatæknin, fjármagnsfyrirtæki, fjölmiðlar og samskiptatækni. Í borginni eru til dæmis 60 bankar og í fjármagnsgeiranum starfa fimmtán þúsund manns. Í gegnum tíðina hefur írski lýðveldisherinn (IRA) framið hryðjuverk í Manchester. Tvær sprengjur sprungu 1992. Þann 15. júní 1996 sprengdi IRA stóra sprengju (1,5 tonn) við verslunarmiðstöð í miðborginni. Skemmdir voru gríðarmiklar. Mörg hús urðu illa úti og rúður brotnuðu í nær kílómeters fjarlægð. 200 manns slösuðust. Þetta var mesta sprenging sem orðið hefur í Bretlandi fyrr eða síðar. 2006 reis Beetham Tower, hæsta bygging Bretlands utan London og hæsta íbúðahús Evrópu á sínum tíma. Turninn er 169 m hár.

Íþróttir

breyta
 
Íbúar í Manchester fylgjast með knattspyrnuleik á skermi í miðborginni

Manchester hefur ávallt verið mikið íþróttaborg. Tvisvar hefur borgin sótt um Ólympíuleikana (sumarleikana 1996 og 2000), en fékk ekki. Hins vegar voru samveldisleikarnir haldnir þar 2002.

Í borginni eru tvö stór knattspyrnufélög: Manchester United og Manchester City.

  • Manchester United (einnig þekkt sem ManU eða bara sem United) er næstríkasta félagslið heims (á eftir Real Madrid) og er sigursælasta knattspyrnulið Englands. Félagið hefur 19 sinnum orðið enskur meistari (síðast 2010), 12 sinnum bikarmeisari (FA), 5 sinnum deildarbikarmeistari og hefur unnið góðgerðarskjöldinn 19 sinnum. Á alþjóðavettvangi hefur félagið þrisvar unnið Evrópukeppni meistaraliða/Meistaradeildina (1968, 1999 og 2008), einu sinni orðið Evrópumeistari bikarhafa (1991) og einu sinni unnið heimsbikarinn (1999).
  • Manchester City hefur rokkað nokkuð um deildir síðustu áratugi en á þó nokkra bikara í skápnum sínum. Félagið hefur þrisvar orðið enskur meistari (1937, 1968 og 2012), 5 sinnum bikarmeistari (síðast 2011), tvisvar deildarbikarmeistari (1970 og 1976) og unnið góðgerðarskjöldinn fjórum sinnum (síðast 2012). Auk þess varð félagið Evrópumeistari bikarhafa 1970.

Greater Manchester Run er árlegt borgarhlaup þar sem hlaupið eru 10 km. Þeir eru tengdir Great City Games, þar sem 110 m hlaup fer fram á götunni Deansgate.

Manchester er einnig ein helsta rúgbýborgin í Englandi. Þar eru tvö stór lið og nokkur smærri. Eitt elsta rúgbýfélag heims er Mancunians RL en það var stofnað 1860.

Krikket er einnig mikið stundað í borginni. Völlurinn Old Trafford Cricket Ground er einn sá þekktasti í Englandi. Meistarakeppnin milli Englands og Ástralíu (kölluð The Ashes) hefur verið haldin í Manchester síðan 1882.

Manchester Velodrome er fyrsta hjólreiðakapphöll í Englandi. Hún var reist fyrir samveldisleikana 2002 en hefur síðan þá verið mikil lyftistöng fyrir hjólreiðaíþróttina í borginni. Höllin hefur haldið HM í íþróttinni nokkrum sinnum.

Vinabæir

breyta

Manchester viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

breyta
 
Gallagher-bræður í Oasis eru frá Manchester

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Ráðhúsið í Manchester
 
Beetham-turninn er hæsta byggingin og sést víða að.
  • Ráðhúsið í Manchester er ægifögur bygging við Albertstorgið í miðborginni. Það var reist í nýgotneskum stíl og vígð 1877. Turninn er 87 m hár og í honum er klukknaverk með 23 bjöllum. Sú stærsta kallast Great Abel og vegur rúmlega átta tonn. Helsti salur ráðhússins er Stóri salur (Great Hall) og er 30x15 m stór. Hann er skreyttur með tólf stórum veggmálverkum sem sýna atriði úr sögu borgarinnar. Eftir viðbætur 1934-38 fékk byggingin tvær göngubrýr í nærliggjandi hús.
  • Dómkirkjan í Manchester er ein elsta nústandandi bygging borgarinnar. Hún var reist 1421-1506 í síðgotneskum stíl og helguð Maríu mey, heilögum Díónýsíusi og heilögum Georgi. Kirkjan var í upphafi kaþólsk en var breytt í anglíska kirkju skömmu eftir vígsluna. 1847 varð hún að dómkirkju. 1864 var turninn rifinn og nýr reistur. Hann var ferhyrndur eins og sá gamli en hærri. Kirkjan skemmdist talsvert í loftárásum 1940. Viðgerðir stóðu allt til 1960. Árið 2007 baðst stórfyrirtækið Sony afsökunar á því að hafa notað 3D mynd af dómkirkjunni í Manchester í bardagatölvuleiknum Resistance: Fall of Man.
  • Beetham-turninn (Beetham Tower) er hæsta bygging borgarinnar og er 168 m há. Hér er um íbúðahús að ræða og sem slík hæsta íbúðahús Evrópu. Byggingin er að sama skapi hæsta hús Englands utan London. Það var vígt 2004-2006 og átti að vera þremur hæðum hærra. En sökum þess hve mjótt húsið er, svignar það of mikið í vindi. Mörgum finnst byggingin ófögur.
  • Járnbrautarstöðin í Liverpool Road er elsta járnbrautarstöð heims. Hún var vígð 15. september 1830 og notuð fyrir farþegaflutninga til og frá Liverpool, elstu járnbrautarlínu heims. Stöðin er lítil og gerð úr tígulsteinum. Henni var lokað fyrir farþegaflutningum þegar árið 1844, er ný lína var opnuð, en notuð áfram fyrir vöruflutninga allt til 1975. Þá keypti sjónvarpsfyrirtækið Granada Television húsið og framleiddi þar sjónvarpsþættina Coronation Street. Í dag er vísindasafn í byggingunni.
  • Old Trafford er knattspyrnuvöllur í borginni og heimavöllur Manchester United. Völlurinn rúmar 76 þúsund manns í sæti og er því næststærsti knattspyrnuvöllur Englands (á eftir Wembley í London).
  • Etihad-leikvangurinn er heimavöllur Manchester City. Hann var vígður 2003 og tekur 47 þúsund manns í sæti.

Heimildir

breyta