[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Hólmavíkurhreppur

Hólmavíkurhreppur var sveitarfélag á Ströndum sem nú er hluti af Strandabyggð. Áður kallaðist svæðið Staðarsveit og náði frá sunnanverðum Steingrímsfirði, frá Forvaða í Kollafirði, og fyrir botn Steingrímsfjarðar, að Selá í Selárdal að norðanverðu. Hreppurinn nær yfir í Ísafjarðardjúpi í vestri, að Kaldalóni að norðanverðu og í botn Ísafjarðar að sunnanverðu. Í hreppnum er þorpið Hólmavík. Hreppurinn hét áður Hrófbergshreppur eftir bænum Hrófbergi sem var þingstaðurinn. Honum var síðan skipt í tvennt árið 1942 undir nöfnunum Hrófbergshreppur og Hólmavíkurhreppur og sameinaður aftur 1. janúar 1987 undir nafni Hólmavíkurhrepps. Hólmavíkurhreppur sameinaðist síðan tvisvar öðrum hreppum: Nauteyrarhreppi í Djúpi árið 1994 og Kirkjubólshreppi við sunnanverðan Steingrímsfjörð árið 2002. Nýja sveitarfélagið hét eftir sem áður Hólmavíkurhreppur.

Hólmavíkurhreppur á árunum 2002-2006
Hólmavíkurhreppur á árunum 1994-2002
Hólmavíkurhreppur á árunum 1987-1994
Hólmavíkurhreppur á árunum 1944-1986

Sameiningartillögur

breyta

Í tillögum stjórnvalda árið 2005 var lagt til að sameinuð yrðu öll sveitarfélög á Ströndum norðan Hrútafjarðar í eitt sveitarfélag. Við þá breytingu hefðu orðið í einu sveitarfélagi auk íbúa Hólmavíkurhrepps, íbúar Broddaneshrepps sem tekur yfir Bitrufjörð og Kollafjörð sunnan Hólmavíkurhrepps og íbúar Kaldrananeshrepps og Árneshrepps sem eru norðan við Hólmavíkurhrepp. Nýtt sveitarfélag hefði náð frá Stikuhálsi í suðri að Geirólfsgnúpi í norðri.

Í kosningu um sameiningu sveitarfélaga í október 2005 var tillagan um sameiningu felld í öllum sveitarfélögum á Ströndum, nema Broddaneshreppi. Viðræður um sameiningu Broddaneshrepps og Hólmavíkurhrepps hófust síðan í nóvember sama ár. Var sameining samþykkt í kosningu 8. apríl 2006 og tók hún gildi 10. júní, að afloknum sveitarstjórnarkosningum vorið 2006. Þá var einnig kosið um þrjár tillögur að nafni nýs sameinaðs sveitarfélags og var hægt að velja á milli þriggja nafna, Strandahreppur, Strandabyggð og Sveitarfélagið Strandir. Í kosningunum hlaut nafnið Strandabyggð flest atkvæði, eða 95, en margir skiluðu auðu eða ógiltu seðlana sína með því að skrifa annað nafn. Flestir sem ógiltu seðilinn með þessum hætti munu hafa skrifað nafnið Hólmavíkurhreppur.

Heimildir

breyta