[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/Fara í innihald

Vínarterta

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sjö laga vínarterta með sveskjufyllingu.

Vínarterta er lagkaka (randalín) úr nokkrum þunnum botnum úr hnoðuðu deigi, með sultu milli laga. Tertan var vinsælt kaffibrauð á Íslandi seint á 19. öld og barst þá vestur um haf og er enn þjóðlegt kaffibrauð meðal Vestur-Íslendinga. Upphaflega var yfirleitt sveskjufylling í henni og hún hefur haldið sér vestanhafs en þegar rabarbararæktun varð útbreidd um og eftir aldamótin 1900 varð rabarbarasulta algengasta fyllingin hérlendis. Í elstu íslensku uppskriftunum eru kökurnar yfirleitt kringlóttar en seinna voru þær oftast ferhyrndar.

Vínartertur bárust hingað frá Danmörku á 19. öld en eru trúlega upprunnar í Vínarborg, þar eru áþekkar margra laga tertur vel þekktar.

Orðið vínarterta fékk um aldamótin 2000 inni í kanadískri útgáfu orðabókar Oxford útgáfunnar. Í frétt í vesturíslenska blaðinu Lögberg Heimskringla segir að orðið vínarterta hafi nú loksins fengið verðugan sess í bókasöfnum heimila Íslendingabyggðanna þar sem það sé nú meðal 2000 kanadískra orða í þessari fyrstu útgáfu orðabókarinnar. Orðabókin skilgreinir vínartertu sem meðalstóra og hringlaga köku, gerða úr nokkrum lögum með sveskjufyllingu. Ritstjórinn segir orðið hafa unnið sér svo fastan sess í málinu, m.a. í skrifum íslensk-kanadísku rithöfundanna W.D. Valgardsson og David Arnason, að rétt sé að taka það upp í orðabók.