Stóra-Laxá
Stóra-Laxá, oft einnig kölluð Stóra-Laxá í Hreppum, er 90 kílómetra löng dragá á sunnanverðu Íslandi. Hún á upptök sín í Grænavatni, Laxárdrögum sunnan Kerlingarfjalla á suðurlandshálendinu og fellur á hreppamörkum Hrunamanna- og Gnúpverjahrepps í Hvítá hjá bænum Iðu, ásamt Litlu-Laxá. Hún er all vatnsmikil, með 512 ferkílómetra vatnasvið.[1][2]
Stóra-Laxá er þekkt laxveiðiá og þykir landslag í og við ána bæði fjölbreytt og mikilfenglegt en þar eru þekktust Laxárgljúfur sem hafa skorist djúpt í berggrunninn á hálendisbrúninni á afrétti Hrunamanna og Skeiða- og Gnúpverja. Berggrunnurinn er um 2 - 3 milljón ára gamall, þjappaður úr gjósku eldsumbrota á ísöld. Gljúfrin hafa myndast við það að Stóra-Laxá hefur undanfarin 10.000 ár, eða svo, grafið sig ofan í bergið. Gljúfrin eru um 10 kílómetra löng og víða 100 - 200 metra djúp frá innsta hlutanum að Hrunakrók sem er efst í Laxárdal. Áin er laxgeng langt inn í Laxárgljúfur.[3]
2012 sótti Landsvirkjun um rannsóknarleyfi vegna virkjunar í ánni en ósætti er um málið milli Orkustofnunar, stjórnvalda og veiðifélaga.[4] Í júlí sama ár veitti svo Orkustofnun Landsvirkjun rannsóknarleyfi vegna áætlana um virkjun í efri hluta vatnasviðs Stóru Laxár.[5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Stóra-Laxá“. Landsamband veiðifélaga. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. febrúar 2013. Sótt 26. júlí 2012.
- ↑ „Stóra-Laxá“. Lax-a.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. júní 2012. Sótt 26. júlí 2012.
- ↑ „Laxárgljúfur“. Þjórsárstofa. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. október 2014. Sótt 26. júlí 2012.
- ↑ „Stóra-Laxá ekki í rammaáætlun – „Vilja helga sér þennan virkjanakost"“. Smugan. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. maí 2012. Sótt 26. júlí 2012.
- ↑ „Rannsóknarleyfi í Stóru Laxá gefið út“. visir.is. Sótt 27. júlí 2012.[óvirkur tengill]