[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/Fara í innihald

Mette Frederiksen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mette Frederiksen
Frederiksen árið 2019.
Forsætisráðherra Danmerkur
Núverandi
Tók við embætti
27. júní 2019
ÞjóðhöfðingiMargrét 2.
Friðrik 10.
ForveriLars Løkke Rasmussen
Persónulegar upplýsingar
Fædd19. nóvember 1977 (1977-11-19) (47 ára)
Álaborg, Danmörku
StjórnmálaflokkurJafnaðarmannaflokkurinn
MakiErik Harr (g. 2003; skilin 2014)
Bo Tengberg ​(g. 2020)​
Börn2
HáskóliÁlaborgarháskóli

Mette Frederiksen (f. 19. nóvember 1977) er danskur stjórnmálamaður, núverandi forsætisráðherra Danmerkur og formaður danska Jafnaðarmannaflokksins. Hún hefur hefur setið á danska þjóðþinginu frá árinu 2001[1] og var vinnumálaráðherra í ríkisstjórn Helle Thorning-Schmidt frá 2011 til 2014 og dómsmálaráðherra frá 2014 til 2015. Hún tók við af Thorning-Schmidt sem leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins þann 28. júní árið 2015.[2]

Frederiksen er önnur konan sem gegnir embætti forsætisráðherra Danmerkur og auk þess yngsti forsætisráðherra í sögu landsins.[3]

Frederiksen fæddist í Álaborg. Faðir hennar var leturfræðingur en móðir hennar kennari.[1] Hún gekk í gagnfræðiskólann í Aalborghus og lagði stund á stjórnendanám og félagsvísindi við Álaborgarháskóla.[1] Eftir að hún útskrifaðist árið 2000 vann hún sem ráðgjafi fyrir ungmenni hjá danska alþýðusambandinu.[1]

Frederiksen var kjörin á danska þjóðþingið fyrir Kaupmannahafnarkjördæmi í þingkosningum í nóvember árið 2001.[1] Eftir kosningar árið 2005 var hún útnefnd talsmaður Jafnaðarmannaflokksins fyrir félagsmálefni.[1] Eftir kosningarnar varð hún einnig varaformaður þingflokks Jafnaðarmanna.[1]

Í maí árið 2010 komst það í hámæli að Frederiksen og aðrir leiðtogar Jafnaðarmanna hefðu skráð börn sín til náms í einkaskólum.[4] Frederiksen og flokksfélagar hennar voru sökuð um hræsni þar sem flokkurinn hafði lengi talað fyrir mikilvægi ríkisrekinna menntastofnana.[4] Árið 2005 hafði Frederiksen gagnrýnt foreldra sem sendu börnin sín í einkaskóla.[4] Frederiksen svaraði gagnrýnendum með því móti að viðhorf hennar til einkaskóla hefði mildast með árunum og að það hefði verið meiri hræsni hjá henni að setja eigin stjórnmálaframa í efra sæti en hag dóttur sinnar.[5]

Eftir að Frederiksen varð formaður Jafnaðarmannaflokksins hefur flokkurinn færst til vinstri í efnahagsmálum en lengra til hægri í innflytjendamálum.[6][7] Í nýlegri ævisögu sagði hún: „Í mínum augum er orðið æ ljósara að það eru lægri stéttirnar sem greiða kostnaðinn fyrir óhefta hnattvæðingu, fjöldainnflutninga og frjálsa hreyfingu vinnuafls.“[6]

Danska vinstriblokkin vann sigur í þingkosningum árið 2019 og Frederiksen lýsti í kjölfarið yfir vilja til að stofna minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins með stuðningi annarra vinstriflokka.[8] Þann 25. júní féllust Sósíalíski þjóðarflokkurinn, Einingarlistinn og Róttæki vinstriflokkurinn á að styðja minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins með Frederiksen sem forsætisráðherra. Frederiksen lýsti því yfir að ríkisstjórn hennar myndi minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 70%, setja bindandi loftslagslöggjöf og hætta við áform um að senda erlenda sakamenn til afplánunar á eyjunni Lindholm.[3]

Árið 2020 gaf Frederiksen út tilskipun um að allir minkar í Danmörku skyldu aflífaðir vegna greiningar á stökkbreyttu afbrigði af veirusýkinni COVID-19 í dönskum minkabúum.[9] Um sautján milljónum dýra var lógað vegna tilskipunarinnar. Síðar kom í ljós að tilskipunin átti sér ekki stoð í dönskum lögum og árið 2022 komst rannsóknarnefnd að þeirri niðurstöðu að Frederiksen hefði gefið danska þinginu villandi upplýsingar. Ekki var þó talið að hún hefði gert þetta af ásettu ráði.[10]

Minkamálið leiddi til þess að Frederiksen boðaði til nýrra kosninga sem fóru fram þann 1. nóvember 2022. Róttæki vinstriflokkurinn hafði hótað að styðja ella vantrauststillögu gegn stjórn hennar.[11] Í kosningunum voru Jafnaðarmenn áfram stærstir og vinstriblokkin viðhélt þingmeirihluta en Frederiksen ákvað engu að síður að mynda stjórn yfir miðju ásamt Venstre og Moderaterne, flokki fyrrum forsætisráðherrans Lars Løkke Rasmussen.[12][13]

Stjórnmálaskoðanir

[breyta | breyta frumkóða]

Frederiksen er ötull andstæðingur vændis í Danmörku og hefur í mörg ár mælt með því að kaup á vændi verði gert ólöglegt líkt og í Svíþjóð, Noregi og Íslandi.[14] Rekstur vændishúsa og aðkoma þriðja aðila að vændissölu eru þegar ólögleg í Danmörku.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 „Æviágrip á vef Þjóðþingsins“ (danska). Folketinget. Sótt 31. maí 2019.
  2. „Portræt: Mette Frederiksen skal finde sin egen vej“ (danska). Politiken. Sótt 31. maí 2019.
  3. 3,0 3,1 Andri Eysteinsson (25. júní 2019). „Mette Frederiksen fer fyrir nýmyndaðri minnihlutastjórn jafnaðarmanna“. Vísir. Sótt 26. júní 2019.
  4. 4,0 4,1 4,2 Simon Andersen (5. maí 2010). „Alle børn skal i folkeskolen... bare ikke mit barn!“ (danska). B.T. Nyheder. Sótt 31. maí 2019.
  5. „Mette Frederiksen: Min datter kommer først“ (danska). Politiken. 6. maí 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. maí 2010. Sótt 31. maí 2019.
  6. 6,0 6,1 Richard Orange (11. maí 2018). „Mette Frederiksen: the anti-migrant left leader set to win power in Denmark“ (enska). The Guardian. Sótt 31. maí 2019.
  7. Naomi O'Leary (6. september 2018). „Danish left veering right on immigration“ (enska). Politico. Sótt 31. maí 2019.
  8. Lilja Hrund Ava Lúðvíks­dótt­ir (6. júní 2019). „Heltek­in af póli­tík frá 6 ára aldri“. mbl.is. Sótt 6. júní 2019.
  9. Ingunn Lára Kristjánsdóttir (4. nóvember 2020). „Allir minkar af­lífaðir vegna stökk­breytingar á veirunni“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. desember 2022. Sótt 17. desember 2022.
  10. Atli Ísleifsson (1. júlí 2022). „Biður minka­bændur inni­legrar af­sökunar eftir svarta skýrslu nefndar“. Vísir. Sótt 17. desember 2022.
  11. Freyr Gígja Gunnarsson (5. oktober 2022). „Frederiksen boðar til kosninga í Danmörku“. RÚV. Sótt 17. desember 2022.
  12. Atli Steinn Guðmundsson (14. desember 2022). „Fyrsta meirihlutastjórn í 30 ár“. mbl.is. Sótt 17. desember 2022.
  13. Kristján Már Unnarsson (15. desember 2022). „Mette Frederiksen sögð hafa tekið kröftuga hægri beygju“. Vísir. Sótt 17. desember 2022.
  14. Socialdemokrater vil forbyde købesex Berlingske 26. september 2009


Fyrirrennari:
Lars Løkke Rasmussen
Forsætisráðherra Danmerkur
(27. júní 2019 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti