Isabelle Autissier
Isabelle Autissier (f. 18. október 1956) er frönsk siglingakona sem er þekktust fyrir að hafa verið fyrsta konan sem lauk einmenningskeppni í kringum hnöttinn árið 1991. Hún starfar sem rithöfundur og dagskrárgerðarkona og er forseti Frakklandsdeildar Alþjóðlega náttúruverndarsjóðsins.
Hún hafnaði í 7. sæti í BOC Challenge (nú VELUX 5 Oceans Race) árið 1991 og varð þar með fyrsta konan sem lauk keppni í að sigla ein kringum jörðina. Árið 1994 setti hún ásamt áhöfn sinni á kjölbátnum Ecureuil Poitou-Charentes nýtt met í siglingu frá New York til San Francisco um Hornhöfða og bætti fyrra met um 14 daga. Í næstu einmenningskeppni umhverfis jörðina 1994-5 (sem þá hét Around Alone) missti hún mastur 900 mílum sunnan við Ástralíu og var bjargað af þyrlu af áströlsku flugmóðurskipi. Hún tók enn þátt í keppninni árið 1998 en hvolfdi bátnum í Suður-Kyrrahafi. Annar keppandi, Giovanni Soldini, kom henni til bjargar. Eftir það hætti hún að keppa í einmenningskeppnum.