[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/Fara í innihald

Fjörusvertuætt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fjörusvertuætt
Fjörusverta
Vísindaleg flokkun
Ríki: Sveppir (Fungi)
Fylking: Asksveppir (Ascomycota)
Undirfylking: Pezizomycotina
Flokkur: Eurotiomycetes
Undirflokkur: Chaetothyriomycetidae
Ættbálkur: Fjörusvertubálkur (Verrucariales)
Ætt: Fjörusvertuætt (Verrucariaceae)
Zenker

Fjörusvertuætt (fræðiheiti: Verrucariaceae), einnig kölluð svertuætt,[1] er ætt flétta af fjörusvertubálk. Svertuætt er stór ætt sem aðallega inniheldur fléttumyndandi sveppi. Um 750 tegundir í 45 ættkvíslum eru taldar tilheyra svertuætt. Af þeim hafa um 70 tegundir af tíu ættkvíslum fundist á Íslandi. Hefðbundin flokkun ættkvísla innan ættarinnar byggist einkum á þremur einkennum, þ.e. þverveggjum gróa, útliti þals og því hvort þörungafrumur séu í gróbeði. Þær þroska aska í skjóðum á meðan flestar aðrar fléttur eru disksveppir (discomycetes).

Mismunandi tegundir

[breyta | breyta frumkóða]

Þótt flestar tegundir af fjörusvertuætt myndi fléttur, eru innan ættarinna tegundir sem vaxa á öðrum fléttum, svokallaðir fléttuháðir sveppir en þeir eru annaðhvort sníklar á fléttunni eða samnýta þörunga hennar. Sérkennilegust er þó þangblaðögn (Mycophyscias ascophylli) en sú tegund vex á klóþangi og er jafnvel talið að um sambýli milli sveppsins og brúnþörungsins sé að ræða. Tegundir svertuættarinnar skera sig frá öðrum fléttum meðal annars að því leyti að þær lifa fyrst og fremst á votu búsvæði eins og votum klettum smálækja eða á ströndum stöðuvatna og vatnsfalla og í fjörum. Þar á meðal vex ein þeirra, grænsverta, á klöppum og steinum undir sjávarborði og koma eingöngu úr kafi á fjöru. Þó eru einnig tegundir innan ættarinnar sem vaxa á þurrlendi, t.d. kragastrympa sem finnst á móbergi og jarðvegi.

Vísindaleg flokkun

[breyta | breyta frumkóða]

Fléttur af fjörusvertuætt eru að mörgu leyti ólíkar öðrum fléttum og var vísindaleg flokkun þeirra á reiki uns þær voru með hjálp sameindafræðilegra aðferða staðsettar í flokki Eurotiomycetes sveppa. Á ráðstefnu um fjörusvertuættina á Akureyri 2007 var svertuætt rannsökuð af alþjóðlegu teymi vísindamanna og í framhaldinu birt grein þar sem tveim nýjum ættkvíslum, Hydropunctaria og Wahlenbergiella, var lýst innan ættarinnar. Báðar vaxa í vætu, ýmist við ferskvatn eða sjó. Hydropunctaria inniheldur margar tegundir sem vaxa við ferskvatn auk algengustu tegund ættarinnar á Íslandi, fjörusvertu, sem vex á rökum fjöruklöppum. Aðrar tegundir sem vaxa í fjörum virðast tilheyra Wahlenbergiella eins og grænsverta (Wahlenbergiella mucosa). Við þessa nýju ættkvíslaflokkun var meðal annars fræðiheiti fjörusvertu breytt úr Verrucaria maura í Hydropunctaria maura.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Hörður Kristinsson (2016). Íslenskar fléttur. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. ISBN 978-9979-66-347-8