[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Teknetín

Frumefni með efnatáknið Tc og sætistöluna 43

Teknetín er frumefni með skammstöfunina Tc og sætistöluna 43 í lotukerfinu. Dimitri Mendeleev sagði fyrir um marga af eiginleikum frumefnis 43, sem hann kallaði ekamangan, löngu áður en það var uppgötvað. Fyrsta gervifrumefnið sem framleitt var, árið 1937, var samsæta teknetíns, Tc-97, og því fékk efnið nafn sitt af gríska orðinu τεχνητος, sem þýðir tilbúið eða framleitt.

  Mangan  
Mólýbden Teknetín Rúþen
  Renín  
Efnatákn Tc
Sætistala 43
Efnaflokkur Hliðarmálmur
Eðlismassi 11000,0 kg/
Harka Ekki vitað
Atómmassi (98) g/mól
Bræðslumark 2430,0 K
Suðumark 4538,0 K
Efnisástand
(við staðalaðstæður)
Fast form
Lotukerfið

Mestallt teknetín sem framleitt er í dag er aukaafurð frá klofningi úrans-235 í kjarnaofnum og er unnið úr eldsneytisstöngum. Engin samsæta teknetíns hefur lengri helmingunartíma en 4,2 milljónir ára (Tc-98), þannig að mæling þess í rauðum risum 1952 ýtti undir kenningu um að stjörnur gætu framleitt þyngri frumefni en járn. Á jörðu finnst teknetín eingöngu í úrangrýti sem afurð sjálfklofnunar, í magni sem er örlítið en samt mælanlegt.

Almenn einkenni

breyta

Teknetín er silfurgrár, geislavirkur málmur sem líkist mjög platínu. Oftast kemur það fyrir sem grátt duft. Staða þess í lotukerfinu er á milli reníns og mangans og eiginleikar þess eru, eins og sagt var fyrir um samkvæmt lotureglunni, mitt á milli þessara tveggja frumefna. Þetta frumefni er óvenjulegt meðal léttari frumefnanna sökum þess að það engar stöðugar samsætur og er þar af leiðandi mjög sjaldgæft í náttúrunni.

Málmform teknetíns tærist hægt og rólega í röku lofti. Oxíð þess eru TcO2 og Tc2O7. Algeng oxunarstig þess eru 0, +2, +4, +5, +6 og +7. Það leysist upp í kóngavatni, saltpéturssýru og óblandaðri brennisteinssýru en ekki í saltsýru. Málmform þess er örlítið meðseglað, sem þýðir að segulskaut þess samstillast við ytra segulsvið þrátt fyrir að teknetín sé yfirleitt ekki segulmagnað.

Notkun

breyta

Geislalæknisfræði

breyta

Tc-99m („m“ gefur til kynna að þetta sé hálfstöðugur systurkjarni, ‚metastable‘' á ensku) er notað sem samsæta í geislalæknisfræði, til dæmis sem geislavirkt sporefni sem lækningatæki geta mælt í líkamanum. Það gegnir því hlutverki vel því það gefur frá sér vel mælanlega 140 keV gammageisla, og hefur stuttan (6,01 klukkustundar) helmingunartíma.

Þegar Tc-99m er blandað saman við tin binst það við rauð blóðkorn og gerir kleift að kortleggja röskun í blóðrásarkerfinu. Tvífosfatjónir með Tc-99m bindast við kalsínset í skemmdum hjartavöðva, sem hjálpar til við að segja til um skemmdir eftir hjartaáfall. Miltað tekur upp brennisteinskvoðulausn af Tc-99m, sem gerir mögulegt að mynda það líffæri.

Hægt er að halda geislavirkri mengun við geislagreiningu í lágmarki. Þótt Tc-99m sé nokkuð geislavirkt (sem gerir kleift að mæla það í litlu magni) hefur það stuttan helmingunartíma og hrörnar því fljótlega í Tc-99 sem er minna geislavirkt. Teknetín er notað þannig að báðar samsætur þess hreinsast nokkuð fljótt úr líkamanum (yfirleitt eftir nokkra daga).

Iðnaður

breyta

Tc-99 hrörnar næstum eingöngu við betahrörnun, gefur frá sér betaeindir með stöðuga, veika orku og enga meðfylgjandi gammageislun (Tc-99m gefur aftur á móti frá sér gammageisla en engar betaeindir). Sömuleiðis minnkar þessi útgeislun fremur hægt með tímanum, vegna þess hversu helmingunartími efnisins er langur. Einnig er hægt að vinna það úr geislaúrgangi í mjög hreinu formi, bæði efnafræðilega og sem samsætu. Af þessum sökum er það staðalbetagjafi og notað til að kvarða mælitæki.

Líkt og renín og palladín, er hægt að nota teknetín sem hvata. Í sumum efnahvörfum, eins og til dæmis vetnissviptingu ísóprópanóls, er það mun virkara en bæði hin tvö efnin. Geislavirkni þess kemur þó í veg fyrir það það komi að almennum notum.