[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Túlín

Frumefni með efnatáknið Tm og sætistöluna 69

Túlín er frumefni með efnatáknið Tm og sætistöluna 69 í lotukerfinu. Túlín hefur bjartan, silfurgráan gljáa, er auðunnið og sjaldgæfast allra sjaldgæfra jarðmálma. Það hefur nokkuð tæringarviðnám í þurru lofti og er vel teygjanlegt. Náttúrulegt túlín er eingöngu úr samsætunni Tm-169.

   
Erbín Túlín Ytterbín
  Mendelevín  
Efnatákn Tm
Sætistala 69
Efnaflokkur Lantaníð
Eðlismassi 9320,0 kg/
Harka Ekki vitað
Atómmassi 168,93421(2) g/mól
Bræðslumark 1818,0 K
Suðumark 2223,0 K
Efnisástand
(við staðalaðstæður)
Fast form
Lotukerfið

Notkun

breyta

Vegna þess hversu fágætt túlín er hafa ekki fundist mörg not fyrir það í almennum tilgangi. Það hefur verið notað til að smíða leysa en sökum mikils framleiðslukostnaðar hafa þeir ekki reynst arðvænlegir.

Sænski efnafræðingurinn Per Teodor Cleve uppgötvaði túlín árið 1879 er hann leitaði að óhreinindum í oxíðum annarra sjaldgæfra jarðmálma. Hann byrjaði á því að fjarlægja öll þekkt óhreinindi erbíu (Er2O3) og eftir ákveðið ferli, vann hann úr því tvö ný efni; eitt brúnt og hitt grænt. Brúna efnið reyndist vera oxíð frumefnisins holmín og kallaði hann það holmíu, en græna efnið var oxíð áður óþekkts frumefnis. Cleve nefndi oxíðið túlíu og frumefni þess túlín eftir Túle, sem er gamalt rómverskt nafn yfir goðsagnakennt land í norðri, væntanlega Skandinavíu.

Tilvist

breyta

Túlín finnst aldrei í hreinu formi í náttúrunni, en finnst þó í litlum mæli í steinum ásamt öðrum sjaldgæfum jarðmálmum. Það er aðallega unnið úr mónasíti (~0,007% túlín) úr straumseti með jónskiptiaðferðum. Engin efnasambönd túlíns eru mikilvæg iðnaði.

Samsætur

breyta

Náttúrulegt túlín er úr einu stöðugu samsætu þess, Tm-169 (100,0% náttúruleg gnægð). Efnið á sér 31 geislasamsætu, sem hefur verið lýst, og stöðugastar þeirra eru Tm-171 sem hefur helmingunartímann 1,92 ár, Tm-170 með helmingunartímann 128,6 daga, Tm-168 með helmingunartímann 93,1 daga og Tm-167 með helmingunartímann 9,25 klukkustundir. Allar hinar geislasamsæturnar hafa helmingunartíma undir 64 klukkustundum og meirihluti þeirra undir 2 mínútum. Túlín hefur einnig 14 systurkjarna og eru þeir stöðugustu Tm-164m (helmingunartími 5,1 mínúta), Tm-160m (helmingunartími 74,5 sekúndur) og Tm-155m (helmingunartími 45 sekúndur).

Samsætur túlíns hafa atómmassa frá 145,966 (Tm-146) upp í 176,949 (Tm-177). Aðalsundrunarháttur þess áður en kemur að algengustu stöðugu samsætunni, Tm-169 er rafeindahremming og aðalsundrun eftir það er betasundrun. Aðaldótturefni þess áður en kemur að Tm-169 eru samsætur frumefnis 68 (erbín) og aðaldótturefni á eftir eru samsætur frumefnis 70 (ytterbín).

Varúðarráðstafanir

breyta

Túlín er metið sem vægt eitur og skyldi meðhöndla það með aðgát. Af málmdufti þess stafar eld- og sprengihætta.

Tenglar

breyta