[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Sykursýki

sjúkdómar sem valda of háum blóðsykri

Sykursýki er heiti yfir sjúkdóma sem einkennast af of háum styrki sykurs í blóðinu. Hár blóðsykur leiðir til þess að maður pissar mikið, og verður þyrstur og svangur. Önnur einkenni geta verið sjóntruflanir, höfuðverkur, þreyta, að sár grói seint, og kláði.

Í sykursýki nær líkaminn ekki að viðhalda réttum styrk sykurs í blóði og því fær fólk oft líka mjög lágan blóðsykur. Það er vanalega ekki hættulegt að vera með lágan blóðsykur, en einkennin geta verið óróleikatilfinning, sviti, skjálfti, og í verri tilfellum ruglingur, árásargirni, og yfirlið. Þessum einkennum svipar nokkuð til þess að viðkomandi sé undir áhrifum áfengis, hægt er að losna við þau með því að innbyrða sykur.

Langtíma fylgikvillar sykursýki koma fram yfir 10–20 ár og orsakast aðallega af skemmdum í æðum. Skemmdir í smáu æðunum leiða til skemmda í sjónhimnu augans, í nýrunum, og í taugum.

Til eru nokkrar gerðir af sykursýki en þær helstu eru:

  • Sykursýki af gerð 1 eða meðfædd sykursýki kemur fram vegna þess að líkaminn hættir að framleiða insúlín, sem er hormón sem stýrir meðal annars því hvernig líkaminn notar sykur. Frumurnar sem framleiða insúlin eru í brisinu, en hér ræðst ónæmiskerfið á þessar frumur svo að þær deyja. Þessi sjúkdómur fylgir manni ævilangt en hægt er að gefa insúlín í sprautu og þar með er hægt að hafa stjórn á sjúkdómnum. Sjúklingur getur lifað heilbrigðu lífi ef mataræði og lyfjagjöf er vel stjórnað. Þar sem líkaminn nær ekki að brjóta niður sykur fer hann að brjóta niður fitu. Þetta leiðir til aukins magns ketóna í blóði og því verður blóðið súrt, þetta kallast ketósa. Einkenni eru uppköst, kviðverkir, andköf, ruglingur, og stundum andardráttur sem lyktar eins og naglalakk.
  • Sykursýki af gerð 2 eða áunnin sykursýki kemur fram þegar frumur líkamans fara að veita viðnám við insúlíni og hætta að hlýða því jafn mikið. Þessi gerð af sykursýki er algengasta gerðin, um 90% af tilfellum eru sykursýki af gerð 2. Hún orsakast aðallega vegna offitu og lítillar hreyfingar. Meðferð gengur út á að passa mataræði, hreyfingu, og þyngd, en gangi það ekki eru til sykursýkislyf til að reyna að viðhalda réttum blóðsykri.

Tenglar

breyta
  • „Hvað gerist í frumunum þegar við fáum sykursýki?“. Vísindavefurinn.
  • „Af hverju er sykursýki tiltölulega óalgeng á Íslandi?“. Vísindavefurinn.
  • Samtök sykursjúkra á Íslandi
  • Um sykusýki á vef Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO)
  • Meðferðarúrræði við sykursýki á vef Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO)
   Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.