[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Sumarólympíuleikarnir 1924

Sumarólympíuleikarnir 1924 voru haldnir í París í Frakklandi á tímabilinu 4. maí til 27. júlí. Mikið var lagt í umgjörð leikanna, t.d. var í fyrsta sinn reist Ólympíuþorp þar sem keppendur höfðust við meðan á íþróttamótinu stóð. Gestgjafarnir voru mjög andsnúnir því að Þjóðverjar tækju þátt í leikunum og fór svo að lokum að þeir sátu heima.

8. sumarólympíuleikarnir
Bær: París, Frakklandi
Þátttökulönd: 44
Þátttakendur: 3.089
(2.954 karlar, 135 konur)
Keppnir: 126 í 17 greinum
Hófust: 5. júlí 1924
Lauk: 27. júlí 1924
Settir af: Gaston Doumergue forseta
Aðalleikvangur Ólympíuleikanna í París 1924.

Aðdragandi og skipulagning

breyta

Amsterdam, Los Angeles, Rio de Janeiro og Róm sóttust eftir leikunum ásamt Parísarborg sem varð hlutskörpust þrátt fyrir að hafa haldið leikana tæpum aldarfjórðungi fyrr. Þar mun Pierre de Coubertin hafa ráðið mestu um, en leikarnir voru þeir síðustu sem skipulagðir voru undir forystu hans.

Á leikunum var einkunnarorð Ólympíuleikanna Citius, altius, fortius (Hraðar, hærra, fastar) kynnt til sögunnar í fyrsta sinn.

Í tengslum við Parísarleikanna var haldin keppni í vetrargreinum í Chamnoix í Ölpunum frá 25. janúar til 5. febrúar undir heitinu „vika vetraríþrótta“. Síðar fékk íþróttakeppni þessi heitið Vetrarólympíuleikar.

Keppnisgreinar

breyta

Keppt var í 127 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.

Einstakir afreksmenn

breyta
 
Paavo Nurmi var skærasta stjarna frjálsíþróttakeppninnar.

Bandaríkin hlutu tólf af gullverðlaununum 27 í frjálsíþróttakeppninni og Finnar tíu. Finnsku keppendurnir einokuðu langhlaupskeppnina og hlutu þeir viðurnefnið „Finnarnir fljúgandi“, þar var Paavo Nurmi fremstur í flokki. Hann vann til fimm gullverðlauna, þar á meðal í 1.500 og 5.000 metra hlaupi, þótt innan við hálftími væri á milli þeirra.

Finninn Albin Stenroos sigraði í Maraþonhlaupi með talsverðum yfirburðum, en hann hafði ekki keppt í þeirri vegalengd í fimmtán ár.

 
Argentínumenn sigruðu í póló á leikunum.

Bretar unnu til þriggja gullverðlauna í styttri hlaupagreinunum. Harold Abrahams sigraði í 100 metra hlaupi og Eric Liddle í 400 metrum. Abrahams var gyðingur en Liddle skoskur kristinboði. Óskarsverðlaunamyndin Chariots of Fire fjallar um þátttöku þeirra félaga á leikunum í París.

Bandaríkjamaðurinn Harold Osborn vann til gullverðlauna í hástökki og tugþraut. Hann er eini maðurinn í sögu leikanna til að vinna til gullverðlauna bæði í tugþrautinni og stakri keppnisgrein.

Bandaríska sundkonan Sybil Bauer sigraði í 100 metra baksundskeppninni. Hún var einhver fremsta sundkona sinnar tíðar, en lést úr krabbameini 23 ára að aldri. Hún var trúlofuð skemmtikraftinum Ed Sullivan.

Knattspyrnukeppni ÓL 1924

breyta
 
Pedro Cea varð Ólympíumeistari með Úrúgvæ 1924 og 1928. Hann varð einnig markahæsti leikmaður liðsins á fyrstu heimsmeistarakeppninni 1930.

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, var stofnað árið 1904 og snemma kviknuðu hugmyndir um að standa fyrir heimsmeistarakeppni í knattspyrnu. Þær hugmyndir strönduðu á kostnaði og deilum um áhugamennsku eða atvinnumennsku í íþróttinni. Knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna var því lengi vel helsta alþjóðlega mótið í greininni, þótt gæðin væru misjöfn.

Á Ólympíuleikunum í Antwerpen varð knattspyrnukeppnin einna vinsælasta greinin og á Parísarleikunum var þriðjungur teknanna af miðasölu á knattspyrnuleiki. FIFA sá um skipulagningu knattspyrnukeppninnar á Ólympíuleikunum 1924 og 1928, sem gaf henni aukið vægi.

22 landslið kepptu í knattspyrnu á Parísarleikunum, en svo mörg landslið kepptu ekki aftur á alþjóðlegu knattspyrnumóti fyrr en í úrslitakeppni heimsmeistarakeppninnar á Spáni 1982. Heimilað var að greiða leikmönnum fyrir vinnutap vegna ferðalagsins, sem gerði það að verkum að Danir og Bretar neituðu að taka þátt. Með því að slaka á áhugamannareglunum voru keppnisliðin 1924 mun sterkari en verið hafði, en um leið kom til árekstra við aðstandendur Ólympíuleikanna.

Keppt var með útsláttarfyrirkomulagi og varð nokkuð um óvænt úrslit. Belgar, Ólympíumeistararnir frá 1920, steinlágu í fyrsta leik 8:1 gegn Svíum sem hrepptu að lokum bronsið. Þá unnu Egyptar 3:0 sigur á Ungverjum, sem taldir höfðu verið líklegir til afreka. Það voru hins vegar leikmenn Úrúgvæ sem stálu senunni og heilluðu áhorfendur.

Landslið Úrúgvæ var fyrsta liðið frá Suður-Ameríku til að leika í Evrópu. Í Rómönsku Ameríku hafði þróast leikstíll sem byggðist á hröðum og stuttum samleik, meðan evrópsk knattspyrna var stórkarlaleg og snerist um langar og fastar spyrnur. Evrópsku liðin reyndust ekki eiga neitt svar við þessum nýju mótherjum, sem unnu flesta leiki sína með miklum mun. Í úrslitum sigraði Úrúgvæ lið Sviss með þremur mörkum gegn engu að viðstöddum 60 þúsund áhorfendum þar sem mun færri komust að en vildu.

Þátttaka Íslendinga á leikunum

breyta

Ólympíunefnd var stofnuð á vegum Íþróttasambands Íslands árið 1921, með það að markmiði að safna fé og undirbúa ferð íslenskra íþróttamanna á leikana í París. Deilur komu upp um sjálfstæði og verksvið nefndarinnar og lognaðist hún út nokkru síðar. Íþróttalíf Íslendinga var sömuleiðis í nokkurri lægð á þriðja áratugnum og því óljóst hvort þjóðin hafði yfir nokkrum einstaklingsíþróttamönnum að búa sem erindi ættu á Ólympíuleika.

Íslenskir knattspyrnumenn voru hins vegar fullir bjartsýni og ákváðu að stofna sína eigin Ólympíunefnd og stefna á þátttöku. Efnt var til fjársöfnunar og varð til nokkur sjóður. Horfið var frá þessum áformum. Hætt er við að íslenskt knattspyrnulið hefði beðið algjört skipbrot á Ólympíuleikunum, enda höfðu Íslendingar aldrei keppt utan landsteinanna og ekki einu sinni leikið fótboltaleik á grasi.

Verðlaunaskipting eftir löndum

breyta
Nr. Land Gull Silfur Brons Samtals
1 Fáni Bandaríkjana  Bandaríkin 45 27 27 99
2   Finnland 14 13 10 37
3   Frakkland 13 15 10 38
4   Bretland 9 13 12 34
5   Ítalía 8 3 5 16
6   Sviss 7 8 10 25
7   Noregur 5 2 3 10
8   Svíþjóð 4 13 12 29
9   Holland 4 1 5 10
10   Belgía 3 7 3 13
11 Fáni Ástralíu  Ástralía 3 1 2 6
12   Danmörk 2 5 2 9
13 Fáni Ungverjalands  Ungverjaland 2 3 4 9
14   Júgóslavía 2 0 0 2
15   Tékkóslóvakía 1 4 5 10
16   Argentína 1 3 2 6
17   Eistland 1 1 4 6
18   Suður-Afríka 1 1 1 3
19   Úrúgvæ 1 0 0 1
20 Fáni Austurríkis  Austurríki 0 3 1 4
  Kanada 0 3 1 4
22   Pólland 0 1 1 2
23   Haiti 0 0 1 1
  Japan 0 0 1 1
  Nýja Sjáland 0 0 1 1
  Portúgal 0 0 1 1
  Rúmenía 0 0 1 1
Alls 126 127 125 378