[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Sókrates

forngrískur heimspekingur (469– 399 f.Kr.)

Sókrates (forngríska Σωκράτης) (4. júní, 469 f.Kr.?7. maí 399 f.Kr.) var grískur heimspekingur frá Aþenu. Hann fæddist á meðan gullöld Aþenu stóð. Allt sem er vitað um hann kemur aðallega úr ritum Platons (aðrar heimildir eru Aristófanes og Xenófon). Við hann er kennd „sókratísk kaldhæðni“.

Sókrates
Sókrates
Persónulegar upplýsingar
Fæddur469 f.Kr.
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilFornaldarheimspeki
Skóli/hefðklassísk heimspeki
Helstu ritverkengin
Helstu kenningarengin
Helstu viðfangsefnisiðfræði, þekkingarfræði

Andstætt forverum sínum, náttúruspekingunum, fór hann að íhuga frekar náttúru samfélags og siða þess (þessir heimspekingar eru stundum kallaðir forverar Sókratesar). Þrátt fyrir að vera skynsemdarhyggjumaður eins og flestir samtímamenn hans (sófistarnir) þá var hann mjög andsnúinn geðþóttastefnu sem einkenndi suma þeirra og var sjálfur heittrúaður, en sófistar höfðu á tímum Pelópsskagaófriðarins gagnrýnt trúarbrögð, siði og reglur ríkisins. Með ítarlegri skoðun á þessum málum segja margir að Sókrates hafi verið upphafsmaður siðfræðinnar. Spurningar eins og; „Hverskonar líf er þess virði að því sé lifað?“, „Hvað er vinátta?“, „Hvað er réttlæti?“ drógu athygli spekinganna að nýjum málefnum og margir helstu hugsuða Aþenu urðu lærisveinar hans (þó svo að hann hafi sjálfur sagt að hann hefði enga lærisveina). Meðal þeirra voru Platon og Xenofon.

Æviágrip

breyta

Vitneskja okkar um Sókrates er einkum fengin úr þremur samtíma heimildum:[1] samræðum Platons og Xenofons (sem voru báðir lærisveinar og vinir Sókratesar og rituðu um hann verk að honum látnum) og leikriti Aristófanesar, Skýjunum sem var fyrst sett á svið 423 f.Kr. og svo í endurskoðaðri útgáfu 416 f.Kr. meðan Sókrates var enn á lífi. Sjálfur ritaði Sókrates ekkert. Auk þessara samtímaheimilda veitir Aristóteles (384 f.Kr.322 f.Kr.) einhverjar upplýsingar um Sókrates og Díogenes Laertíos (uppi seint á 2. öld) ritaði ævisögu hans, sem er varðveitt.

Sókrates fæddist í Aþenu annaðhvort árið 470 f.Kr. eða 469 f.Kr. Hann lést í Aþenu árið 399 f.Kr. eftir að hann hafði verið dæmdur sekur fyrir að spilla ungdómnum og kynna nýja guði til sögunnar.[2]

Í gamanleik Aristófanesar kemur Sókrates fyrir sem fræðari og rugludallur sem kennir nemendum sínum að gera verri rök betri og beita brögðum til þess að losna undan skuldum. Leikrit Aristófanesar eru hins vegar háðsádeilur sem endurspegla almenningsálitið í Aþenu á 5. öld f.Kr. Þau eru þess vegna fremur heimild um hvaða augum samborgarar Sókratesar litu hann en hvaða speki hann kenndi sjálfur og hvernig hann kenndi hana.[3]

Platon segir að faðir Sókratesar hafi heitið Sófróniskos og móðir hans Fænarete og að hún hafi verið ljósmóðir.[4] Sókratesi er lýst sem ljótum manni og lágvöxnum en hraustum.[5] Eiginkona hans hét Xanþippa og var mun yngri en hann. Hún átti með honum þrjá syni, Lamprókles, Sófróniskos og Menexenos.[6] Í samræðunni Krítoni gagnrýnir Kríton Sókrates vin sinn fyrir að yfirgefa syni sína þegar Sókrates neitaði að þiggja hjálp vina sinna til þess að flýja úr fangelsinu. Í samræðum Platons er Sókrates oft kaldhæðinn viðmælandi en einlægur í leit sinni að visku. Í eldri samræðunum, sem eru taldar endurspegla að einhverju leyti heimspeki Sókratesar sjálfs,[7] er Sókrates fyrst og fremst gagnrýninn hugsuður sem leitar skilgreininga á siðfræðilegum hugtökum en hefur engar kenningar sjálfur. Í yngri samræðum Platons hefur Sókrates á hinn bóginn ýmsar kenningar, jafnt um siðfræði og önnur viðfangsefni, en alment er talið að þær séu kenningar Platons.[8]

Það er óljóst hvaða atvinnu Sókrates hafði. Fornar heimildir segja að Sókrates hafi verið steinhöggvari eins og faðir hans. En það eru einnig vísbendingar um að hann hafi ekki haft neina atvinnu. Í Samdrykkjunni eftir Xenofon er Sókrates sagður hafa helgað sig alfarið því sem hann taldi mikilvægast í lífinu, það er að segja ástundun heimspekinnar. Í leikriti Aristófanesar þiggur Sókrates borgun fyrir kennslu sína en Sókrates mun hafa andmælt þessu og í öðru leikriti Aristófanesar og í ritum Platons (Málsvörn Sókratesar og Samdrykkjan) og Xenofons hafnar hann því alfarið að hann hafi nokkurn tímann þegið greiðslu fyrir kennslu sína og raunar heldur hann því fram í Málsvörn Sókratesar eftir Platon að hann hafi aldrei kennt og bendir á fátækt sína máli sínu til stuðnings.[9]

Í nokkrum að samræðum Platons er minnst á herþjónustu Sókratesar. Sókrates virðist hafa barist í liði Aþeninga í þremur orrustum: við Potidaju, Amfipólis og Delíum. Í Samdrykkjunni segir Alkibíades frá hreysti og hugrekki Sókratesar í orrustunum við Potidaju og Delíum og segir hann hafa bjargað lífi sínu í þeirri fyrri (219e-221b). Framgöngu Sókratesar í orrustunni við Delíum er einnig getið í samræðunni Lakkesi (181b). Og í Málsvörn Sókratesar eftir Platon líkir Sókrates málaferlunum við herþjónustuna og segir að ef kviðdómendur telji að honum beri að hörfa frá ástundun heimspekinnar ættu þeir einnig að halda því fram að hermenn ættu að hörfa ef þeir sjá fram á að bíða ósigur og láta lífið í orrustu.

Heimspeki Sókratesar

breyta

Hin sókratíska aðferð

breyta

Hin sókratíska aðferð sem svo hefur verið kölluð eftir aðferð Sókratesar í leit að svörum við spurningum sínum, felst í því að spyrja viðmælanda sinn spurninga og leiða í ljós mótsagnir í skoðunum hans.[10] Með þessari aðferð fær hann fólk til að átta sig á hvað er rangt við sannfæringu þeirra (eða rétt) og hversu mikið (eða lítið) það raunverulega veit. Með þessu sagðist hann fæða visku hjá fólki og kallaði sig því „ljósmóður viskunar“. Aðferðin leiðir líka í ljós sameiginlegar grundvallarreglur samfélagsins sem við köllum siðareglur, þetta er líklegast ein af ástæðum þess að Sókrates er kallaður upphafsmaður eða faðir siðfræðinnar.

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. Um heimildir um Sókrates, sjá Guthrie (1971): 5-57, Brickhouse og Smith (2000): 11-52 og A.R. Lacey, „Our Knowledge of Socrates“ hjá Vlastos (1980): 22-49.
  2. Um ævi Sókratesar, sjá Guthrie (1971): 58-65.
  3. Um lýsingu og umfjöllun Aristófanesar um Sókrates, sjá Kenneth J. Dover, „Socrates in the Clouds“ hjá Vlastos (1989): 50-77.
  4. Sjá HMH. „Hvenær var Sókrates uppi og hverjir voru foreldrar hans?“. Vísindavefurinn 22.6.2000. http://visindavefur.is/?id=561. (Skoðað 4.2.2008).
  5. Um útlit Sókratesar, sjá Guthrie (1971): 66-70.
  6. Sjá þó Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað hét kona Sókratesar og hvað er vitað um hana?“. Vísindavefurinn 15.11.2007. http://visindavefur.is/?id=6907. (Skoðað 4.2.2008).
  7. Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig er dæmigerð sókratísk samræða?“. Vísindavefurinn 31.1.2008. http://visindavefur.is/?id=7041. (Skoðað 4.2.2008).
  8. Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig er vitað að hugmyndirnar sem Sókrates heldur fram í samræðum Platons tilheyri Platoni en ekki Sókratesi?“. Vísindavefurinn 14.9.2005. http://visindavefur.is/?id=5263. (Skoðað 4.2.2008). Um kenningar Sókratesar, sjá Brickhouse og Smith (2000): 72-89.
  9. Um Sókrates sem kennara, sjá Brickhouse og Smith (2000): 53-58 og Nehamas, „What Did Socrates Teach and to Whom Did He Teach It?“ (1999): 59-82.
  10. Um aðferð Sókratesar, sjá Brickhpuse og Smith (1994): 3-29, Brickhouse og Smith (2000): 113-120, Guthrie (1971): 105-122, Richard Robinson, „Elenchus“ hjá Vlastos (1980): 78-93, Richard Robinson, „Elenchus: Direct and Indirect“ hjá Vlastos (1980): 94-109, Richard Robinson, „Socratic Definition“ hjá Vlastos (1980): 110-124, George Nakhnikian, „Elenctic Definitions“ hjá Vlastos (1980): 125-127.

Heimildir og frekari fróðleikur

breyta
  • Brickhouse, Thomas C. og Smith, Nicholas D., Plato's Socrates (Oxford University Press, 1994).
  • Brickhouse, Thomas C. og Smith, Nicholas D., The Philosophy of Socrates (Westview Press, 2000).
  • Cornford, F.M., Before and after Socrates (Cambridge University Press, 1932).
  • Guthrie, W.K.C., Socrates (Cambridge University Press, 1971).
  • Nehamas, Alexander, „Socratic Intellectualism“ í Virtues of Authenticity: Essays on Plato and Socrates (Princeton University Press, 1999): 27-58.
  • Nehamas, Alexander, „What Did Socrates Teach and to Whom Did He Teach It?“ í Virtues of Authenticity: Essays on Plato and Socrates (Princeton University Press, 1999): 59-82.
  • Taylor, C.C.W., Socrates: A very short introduction (Oxford University Press, 2001).
  • Vlastos, Gregory (ritstj.), The Philosophy of Socrates: A Collection of Critical Essays (University of Notre Dame Press, 1980).
  • Vlastos, Gregory, Socrates: Ironist and Moral Philosopher (Cambridge University Press, 1991).
  • Vlastos, Gregory, Socratic Studies. Myles Burnyeat (ritstj.) (Cambridge University Press, 1994).

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta