[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Sálgreining (þýska: psychoanalyse) er sálfræðistefna sem byggist meðal annars á verkum Sigmund Freud frá um 1900, en megininntak stefnunnar er að atferli manna stjórnist meðal annars af öflum sem eru þeim lítt meðvituð og nefndi Freud þau dulvitund og hvatir. Stefnan hefur haft mikil áhrif innan sálfræði, geðlæknisfræði, heimspeki, bókmenntafræði, félags- og hugvísinda.

Upphaf

breyta

Freud setti fyrstur fram kenningar um sálgreiningu, en uppruna þeirra má meðal annars rekja til dvalar hans í París á árunum 1885-1886 hjá franska taugalækninum Jean Martin Charcot. Þar kynntist Freud sefasjúklingum, sefasýki, og dáleiðslu sem meðferðaraðferð. Freud hélt aftur til Vínar og opnaði þar sína eigin læknastofu.

Sefasýki er afbrigði taugaveiklunar sem lýsir sér sem líkamleg einkenni sálrænna veikinda. Sjúklingur getur m.a. blindast, misst heyrn og lamast. Framan af reyndi Freud að beita dáleiðslu til lækningar á þessu ástandi en gafst þó fljótt upp á þeirri aðferð. Í gegnum vinnu sína lærðist Freud að sumar gerðir taugaveiklunar mætti rekja til sálrænna áfalla, m.a. í bernsku.

Í fyrstu notaði Freud dáleiðslu í meðferð sinni en fór síðan að telja að samtalsmeðferð gæti skilað betri árangri. Samtalsmeðferðarformið sem hann notaði nefnist frjáls hugrenningaraðferð og fólst m.a. í að láta sjúklinginn leggjast á bekk og tala hug sinn. Þetta gat í sumum tilfellum leitt til þess, að mati Freuds, að fólk hreinsaði huga sinn af erfiðum minningum eða af því sem lá á samvisku þess.

Sálgreining Freuds

breyta

Sálgreining Freuds er í senn heiti á persónuleikakenningu Freud og meðferðarforminu sem hann beitti. Í seinni útgáfum af líkani Freuds um hugann voru meðal annars hugtökin þaðið, sjálfið og yfirsjálfið grundvallandi.

Samkvæmt kenningu Freud er þaðið aðsetur grunnhvata, sérstaklega kynhvatarinnar, og stjórnast af svokölluðu vellíðunarlögmáli. Vellíðunarlögmálinu er framfylgt þegar hvötunum er sinnt. Yfirsjálfið er "siðgæðisvörður" persónuleikans. Milli þaðsins og yfirsjálfsins er eilíf togstreyta. Sem dæmi má nefna það að hvötin til að stunda kynlíf er alltaf í (dulvituðum) huga manna en það gengur gegn siðferðislegum gildum samfélagsins að fólk fái útrás kynhvatar sinnar hvar og hvenær sem er. Sjálfið er síðan nokkurs konar miðstöð persónuleikans, eða meðvitund, og stjórnast af raunveruleikalögmálinu, sem í munni Freuds er nokkurn veginn jafngildi rökrænnar hugsunar. Sjálfið reynir að fá útrás hvata þaðsins en á þann hátt sem þóknast yfirsjálfinu.

Orsakalögmál Freud byggjast þó á því að hegðun okkar og skapgerð sé stjórnað m.a. af ómeðvituðum öflum í dulvitundinni. Þetta þýðir að margt í mannlegri breytni eigi rót í ómeðvituðum sálrænum ferlum eða sálrænni ætlan en get m.a. birst mismælum okkur, gleymsku, einhverju sem við „fáum á heilann“, vanrækslu, o.s.frv. Dulvitund er, eins og orðið gefur til kynna, eitthvað sem við erum okkur ekki meðvituð um og getum þvi átt erfitt með að henda reiður á.

Samkvæmt kenningunni, stjórna hvatir dulvitundinni, en í upphafi nefndi Freud þessar hvatir libido (sem er latina og merkir: „ég þrái“) og sem taugasérfræðingur taldi hann þær tengjast og mótast af tilfinningu okkar fyrir líkamanum og þá einkum þeim hlutum hans sem eru næmastir fyrir örvun. Hann taldi þránna eða lífshvötina því hafa eitthvað með kynhvötina að gera. Hvatakenningin breyttist síðan þannig að Freud gerði ráð fyrir tveimur andstæðum öflum: Dauðahvöt og lífshvöt. Lífhvötin birtist helst í þránni til að bindast öðrum, meðal annars í gegnum kynhvötina, en dauðahvötin í árásarhvöt sem m.a. raungerðist í stríði og og ófriði milli manna. Freud var þróunarsinni og kenningar hans mótast m.a. af kenningum Darwin vellíðunarlögmál. Freud taldi því að hvatirnar bæru m.a. vitni um dýrslegar leifar uppruna okkar (Darwinismi) og mótuðust af vellíðunarmarkmiðum vellíðunarlögmálsins.

Hvatir mannsins fylgja honum allt frá fæðingu, og meira að segja á bernskuskeiði telur Freud að kynhvöt sé vöknuð. Þá skiptir hann kynhvöt barna í mismunandi stig s.s. munn og kynfærastig, en útfrá þessari hugmynd um kynhvöt barna kemur Ödipusarduldin til sögunnar, en hún segir að á ákveðnum aldri laðist drengir kynferðislega að mæðrum sínum. Drengir þróa þá með sér óttablandna virðingu fyrir feðrum sínum, vegna hræðslu við afbrýðissemi föðursins. Þetta kallast vönunarótti, því drengir hræðast að verða geldir af föður sínum skyldi hann komast að hrifningu sonar síns á konu sinni. Þetta gæti einnig verið dulin ástæða þess að drengir líta oft upp til feðra sinna og reyna að líkjast þeim á ákveðnum skeiðum. Álíka duld er hjá stelpum, nema með öfugum formerkjum. Nefnist það Elektruduld.

Þessar hvatir birtast í persónuleikalíkani Freuds þar sem hann telur persónuleikann þrískiptan: Sjálfið, yfirsjálfið og það. Sjálfið er miðstöð ákvarðana og eins konar sáttasemjari milli þess og yfirsjálfsins. Þaðið er hið dýrslega í okkur og á í eilífri baráttu við yfirsjálfið sem geymir hinu samfélagslegu boð og bönn, hvað sé réttast að gera og hvað sé rangt. Hafi yfirsjálfið alltaf yfirhöndina, og aldrei er fengin útrás fyrir því sem menn vilja samkvæmt því, þá getur það birst í taugaveiklun eða öðrum geð/sálrænum kvillum. Það er því ekki alltaf endilega rétt það sem yfirsjálfið segir sjálfinu að gera, og verður mannskepnan einhvern tímann að fá útrás hvata sinna.

Gagnrýni

breyta

Mikið hefur verið rætt og skrifað um kenningar Sigmund Freud og eru enn vakna öðru hverju deilur varðandi fræði hans:

Sumir gagnrýnendur, líkt og Juliet Mitchell, hafa stungið upp á að grunnhugmynd Freuds - það að meðvitaðar hugsanir okkar og aðgerðir séu drifnar áfram af ómeðvituðum hugsunum og hræðslu - skuli hafnað vegna þess að hún óbeint segir að við getum tæplega sett fram alhliða né hlutlægar kenningar um heiminn og séu því of takmarkaðar til að hjálpa til við að skilja og útskýra mannlega hegðun.

Freud hefur verið gagnrýndur af feministum fyrir að hafa verið barn síns tíma og haft óþroskaðar hugmyndir um kynþroska og sálarlíf kvenna.

Karl Popper setti út á rannsóknaraðferðir Freud og hélt því fram að kenning Freuds um dulvitundina sé ekki hægt að rengja og sé þar með ekki vísindaleg. Hann hins vegar mótmælti ekki að öllu leyti þeirri hugmynd að það séu ferlar í huga okkar sem við ekki vitum af.

Dr. J. Von. Schneidt setti fram með þá hugmynd að kenningar Freuds væru runnar undan rifjum kókaínneyslu hans. En kókaín var nýjung á þessum tíma og á tilteknu skeiði reyndi Freud að nota kókaín til að takast á við krefjandi störf og til að auka afköst sín. Jafnvel þó að kókaínneysla geti aukið kynferðislegan áhuga og þráhyggjuhugsun þá er það mjög takmarkandi að telja að stórbrotið kenningarframlag eins byltingarkenndasta hugsuðar vestrænnar hugmyndasögu, manns sem voru veitt hin virtu Goethe verðlaun fyrir stílsnilli, hafi einvörðungu mótast af kókaínneyslu hans á mjög takmörkuðu tímabili ævi hans. Freud lagði kókaínið til hliðar þegar hann fór að gera sér grein fyrir þeim miklu sálrænu áhrifum neyslunnar á mannshugann.

Heimildir

breyta
  • „Sigmund Freud; Critical reactions“. Sótt 5. júlí 2006.
  • ^  Henry Gleitman et al. Psychology, 2004, bls. 697.
  • ^  „Spurningin - Hverjir eru helstu sálrænu varnarhættirnir - á Vísindavefnum“. Sótt 11. júlí 2006.