[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Njarðvík er bær við samnefnda vík á norðanverðum Reykjanesskaga austan megin við Miðnesið, og heyrir undir sveitarfélagið Reykjanesbæ. Bærinn skiptist í tvo þéttbýliskjarna, Innri-Njarðvík (austan megin við víkina) og Ytri-Njarðvík (vestan megin við víkina), og er því oft talað um „Njarðvíkur“ í fleirtölu. Njarðvíkurnar voru tvær bæjarþyrpingar eða hverfi svipað og aðrir staðir á Suðurnesjum þar til vélbátaútgerð hófst eftir aldamótin 1900. Á milli þessara bæjaþyrpinga voru leirur, Fitjar, þar sem nú er þjónustu- og verslunarkjarni. Mikið nýtt byggingaland hefur verið tekið í notkun í vestur og austur frá Innri-Njarðvík frá því á 9. áratug 20. aldar svo nú er orðin samfelld byggð umhverfis víkina og allt austur á Vogastapa. Frá 8. áratug 20. aldar byggðist Ytri-Njarðvík í norður að sveitarfélagsmörkum við Keflavík. Ytri-Njarðvík hefur líka byggst í vestur upp hlíðina að Grænás.

Innri-Njarvík sést nær og Ytri-Njarðvík fjær.

Upphaflega voru Njarðvíkurbæirnir í Rosmhvalaneshreppi, en voru færðir undir Vatnsleysustrandarhrepp 24. apríl 1596. Árið 1889 var stofnaður sérstakur hreppur, Njarðvíkurhreppur, enda hafði byggð þá aukist mikið í landi Njarðvíkur. Njarðvíkurhreppur sameinaðist nágrannabænum Keflavík undir heitinu „Keflavíkurhreppur“ 15. júní 1908, en Keflavík sjálf hafði fram að því tilheyrt Rosmhvalaneshreppi. Njarðvíkurhreppur klauf sig aftur frá Keflavíkurhreppi 1. janúar 1942, aðallega vegna óánægju með rafveitumál og hafnarmál. Njarðvík fékk kaupstaðarréttindi 1. janúar 1976. Þann 11. júní 1994 sameinaðist Njarðvík Keflavíkurkaupstað og Hafnahreppi undir nafninu „Reykjanesbær“.

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.