[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Luton Town er enskt knattspyrnufélag sem spilar í ensku meistaradeildinni. Liðið er frá samnefndri borg í Bedford-skíri og var stofnað árið 1885. Heimavöllur þess frá árinu 1905 nefnist Kenilworth Road. Gullaldarár Luton Town voru frá 1982 til 1992, þegar félagið átti sæti í efstu deild og vann deildarbikarinn árið 1988. Liðið komst í ensku úrvalsdeildina í fyrsta sinn árið 2023 og lék þar í eitt tímabil.

Luton Town Football Club
Fullt nafn Luton Town Football Club
Gælunafn/nöfn Hattararnir, e. The Hatters
Stofnað 1885
Leikvöllur Kenilworth Road, Luton
Stærð 10.356
Stjórnarformaður Fáni Englands David Wilkinson
Knattspyrnustjóri Fáni Englands Rob Edwards
Deild Championship
2023-2024 18. sæti (enska úrvalsdeildin)
Heimabúningur
Útibúningur

Fyrstu skrefin (1885 - 1920)

breyta
 
Kapplið Luton Town árið 1898.

Luton Town var stofnað 11. apríl árið 1885 við samruna tveggja knattspyrnufélaga í Luton, Wanderers og Excelsior, sem starfað höfðu um nokkurra ára skeið. Heimavöllur félagsins var Dallow Lane, sem áður hýsti Excelsior og tók um 7.000 áhorfendur. Leikvangurinn stóð þétt upp við járnbrautarteina og kvörtuðu leikmenn oft yfir ógægindum vegna kolareyks sem lagði yfir völlinn í hvert sinn sem eimreiðir áttu leið fram hjá. Eftir að Luton Town fékk rétt til að taka þátt í ensku deildarkeppninni árið 1897, voru heimaleikirnir færðir á glænýjan völl Dunstable Road. Nokkrum árum síðar vék sá völlur fyrir íbúðabyggð og reisti félagið þess í stað nýjan leikvang skammt þar frá, Kenilworth Road. Enn í dag leikur Luton Town á vellinum, þótt um áratuga skeið hafi verið rætt um að reisa nýjan og fullkomnari völl.

 
Kenilworth Road árið 1907.

Árið 1891 varð Luton Town fyrsta félagið á sunnanverðu Englandi til að taka upp atvinnumennsku í knattspyrnu. 1897 fékk liðið þátttökurétt í ensku deildarkeppninni og hóf keppni í annarri deild. Um þær mundir komu langflest lið deildarinnar frá norðurhluta landsins og reyndust dýr ferðalög félaginu ofviða. Stjórnendur Luton Town gáfu deildarkeppnina upp á bátinn eftir þrjú ár og sneru sér aftur að keppni í héraðsdeildum í suðrinu fram yfir fyrri heimsstyrjöldina. Á þeim tíma eignaðist félagið sinn fyrsta landsliðsmann, fyrirliðann Bob Hawkes, sem lék nokkra leiki fyrir enska landsliðið og var í breska liðinu sem sigraði í knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna 1908.

Deildarkeppni og uppgangsár (1920 - 1955)

breyta

Keppnistímabilið 1920-21 var enska deildarkeppnin stækkuð og þriðju deildinni bætt við, sem árið eftir var skipt upp í tvennt: norður- og suðurhluta. Luton Town var í hópi hinna nýju liða og notaði tækifærið til að kynna til sögunnar nýjan keppnisbúning: hvítar treyjur og dökkar stuttbuxur. Liðið lék samfleytt í þriðju deild-suður næstu árin, en leiktíðina 1936-37 hafnaði það í fyrsta sæti og komst upp í aðra deild. Munaði þar mest um markahrókinn Joe Payne, sem varð langmarkahæstur í deildinni. Framherjahæfileikar Payne höfðu uppgötvast fyrir tilviljun vorið 1936 þegar hann þurfti að hlaupa í skarðið í framlínunni vegna meiðsla lykilmanna og skoraði þá tíu mörk í sínum fyrsta leik sem sóknarmaður. Er það enn í dag met í ensku deildarkeppninni.

Við tók alllangt stöðugleikatímabil í annarri deild þar sem Luton Town hafnaði yfirleitt um eða fyrir neðan miðja deild. Félagið átti í höggi við fjársterk lið frá fjölmennari borgum og þurfti því ítrekað að afla fjár með því að selja sína sterkustu leikmenn, stuðningsmönnum til lítillar kátínu. Í byrjun sjötta áratugarins tók hagur félagsins hins vegar að vænkast hratt með tilkomu ungra og efnilegra leikmanna. Veturinn 1951-52 komst félagið í annað sinn í sögunni í fjórðungsúrslt bikarkeppninnar og tapaði þar naumlega gegn Arsenal, 2:3. Árið eftir hafnaði liðið í þriðja sæti annarar deildar. Betur gekk vorið 1955 þegar Luton Town náði öðru sætinu á markatölu og komst þar með í efstu deild í fyrsta sinn í sögunni. Við það tilefni lýsti stjórnarformaður félagsins því yfir að til stæði að reisa nýjan og glæsilegan heimavöll í stað Kenilworth Road, sem kominn væri til ára sinna.

Fyrra blómaskeiðið og hnignun (1955 - 1965)

breyta

Luton Town hélt lykilmönnum sínum fyrir átökin í efstu deild, þar á meðal fyrirliðanum Syd Owen, sem valinn hafði verið í enska landsliðið á árinu 1954. Á sínu fyrsta ári í deildinni hafnaði liðið í tíunda sæti og vann meðal annars 5:1 sigur á þriðja sætis liði Wolves. Tveimur árum síðar gerðu leikmenn Luton Town enn betur og náðu áttunda sæti, sem lengi var besti árangur félagsins í deildinni. Veturinn 1958-59 fór Luton alla leið í úrslit bikarkeppninnar í fyrsta og eina skipti. Mótherjarnir voru Nottingham Forest. Luton Town var talið sigurstranglegra, en tapaði 2:1. Í lok leiktíðar var Syd Owen útnefndur besti leikmaður deildarinnar.

Bikarúrslitaleikurinn 1959 var kveðjuleikur Syd Owen sem leikmaður hjá Luton Town. Hann tók við stjórnun liðsins fyrir leiktíðina 1959-60, en leikmannahópurinn reyndist of veikur og þunnskipaður. Félagið lenti í neðsta sæti og féll niður um deild. Eftir tvö ár um miðbik annarar deildar lenti Luton Town aftur á botninum vorið 1963. Veturinn 1964-65 féll Luton Town svo niður úr þriðju deildinni. Við það bættust alvarlegir fjárhagsörðugleikar sem félagið átti við að etja. Haustið 1965 hóf Luton Town keppni í fjórðu deild í fyrsta sinn í sögunni.

Mjakast upp deildirnar (1965 - 1978)

breyta
 
Eric Morecambe var vinsæll skemmtikraftur og stjórnarformaður Luton Town.

Árin í fjórðu deildinni urðu þrjú, þar sem skiptust á skin og skúrir. Lægst fór liðið í næstneðsta sæti deildarinnar og tapaði meðal annars 8:1 gegn Lincoln í desember 1966. Leiktíðina 1967-68 héldu Luton-mönnum hins vegar engin bönd og fór liðið upp um deild sem meistari. Árið eftir missti Luton Town naumlega af því að fara upp annað árið í röð, þegar liðið hafnaði í þriðja sæti í þriðju deild. Vorið 1970 tryggði félagið sér hins vegar sæti í annarri deild eftir að hafa hafnað í öðru sæti. Nýr leikmaður liðsins, Malcolm MacDonald, varð markahæstur Luton-manna. MacDonald lék með Luton Town um tveggja ára skeið áður en hann haslaði sér völl með Newcastle og Arsenal og er oft talinn besti framherji liðsins á síðustu áratugum. Þetta sama ár tók hinn kunni skemmtikraftur Eric Morecambe við stjórnarformennsku í félaginu, en hann var langfrægasti stuðningsmaður Luton Town um langt árabil.

Malcolm MacDonald var iðinn við kolann í markaskorun í annarrsi deild veturinn 1970-71. Fjárhagur félagsins var þó í rjúkandi rúst og var MacDonald seldur til Newcastle fyrir 180 þúsund pund til að brúa bilið. Eftir miðjumoð fyrstu árin tók Harry Haslam við stjórastöðunni fyrir leiktíðina 1973-74 og kom Luton Town upp í efstu deild á ný. Dvölin þar varð þó stutt og liðið féll naumlega með einu stigi minna en Tottenham sem hékk uppi. Ævintýrið í fyrstu deild reyndist kostnaðarsamt og fjárhagsvandræði settu félaginu erfiðar skorður, þar sem gjaldþrot virtist yfirvofandi. Árið 1978 tók Harry Haslam við stjórn Sheffield United og ungur aðstoðarmaður hans tók við taumunum, David Pleat.

Ævintýrið hefst (1978 - 1982)

breyta

David Pleat var 33 ára þegar hann tók við stjórastöðunni, en hafði þá þegar stýrt utandeildarliðinu Nuneaton um sex ára skeið. Fyrstu misserin lofuðu ekki góðu og liðið átti í harðri fallbaráttu. Með tímanum tókst Pleat hins vegar að setja mark sitt á liðið. Hann festi kaup á nýjum lykilmönnum og lagði áherslu á að liðið byggði á öflugum samleik, héldi boltanum niðri á jörðinn og blési til sóknari, í stað þess að treysta á háloftabolta og líkamlega hörku líkt og títt var meðal liða í annarri deildinni. Meðal leikmanna sem Pleat fékk til liðs við Luton Town má nefna varnarmanninn Mal Donaghy, David Moss, Brian Horton og Júgóslavann Raddy Antic, auk þess sem efnilegir leikmenn komu upp í gegnum unglingastarfið, svo sem miðjumaðurinn Ricky Hill og framherjinn Brian Stein.

Árið 1980 og 1981 hafnaði Luton Town í sjötta og fimmta sæti annarar deildar, meðan safnað var í reynslubankann. Veturinn 1981-82 hafði liðið mikla yfirburði í deildinni og tryggði sér meistaratitilinn með 88 stig, átta stigum meira en erkifjendurnir í Watford. Luton Town var komið í efstu deild enn á ný. Öllum var þó ljóst að baráttan þar yrði hörð, enda úr litlum peningum að spila og samkeppnin því erfið á móti liðum frá miklu stærri borgum sem fengu mun fleiri áhorfendur á leikvanga sína.

Með Pleat í efstu deild (1982 - 1986)

breyta

Luton Town vakti mikla athygli fyrir líflegan sóknarbolta á fyrsta ári sínu í efstu deild undir stjórn Pleat. Einungis fjögur lið skoruðu fleiri mörk en Luton Town leiktíðina 1982-83, en liðið fékk hins vegar á sig langflest mörk allra eða 84 í 42 leikjum. Fallið virtist blasa við fyrir lokaumferðina, þar sem Luton Town þurfti að sækja sigur á Maine Road í hreinum úrslitaleik gegn Manchester City. Markalaust var þar til sjö mínútur voru til leiksloka. Þá skoraði Radomir Antić með langskoti, sem sendi heimamenn niður um deild. Fagnaðarlæti Davids Pleat, þar sem hann valhoppar yfir völlinn í þröngum, brúnleitum jakkafötum, eru oft rifjuð upp sem eitt af eftirminnilegri atvikum breskrar íþróttasjónvarpssögu.

Næstu árin festi Luton Town sig í sessi í deild þeirra bestu og hafnaði í sextánda, þrettánda og loks níunda sæti undir stjórn Pleat. Vorið 1985 fór liðið í undanúrslit bikarkeppninnar en tapaði 2:1 fyrir Everton í framlengdum leik. Bikarleikur gegn Millwall í fjórðungsúrslitum sama ár reyndist afdrifaríkur. Bullur úr hópi stuðningsmanna Millwall gengu berserksgang í Luton og tóku stjórnendur félagsins í kjölfarið þá ákvörðun að banna áhorfendur frá öðrum félögum á Kenilworth Road. Jafnframt voru tekin upp persónuskilríki fyrir alla vallargesti, en ríkisstjórn Margrétar Thatcher hvatti um þær mundir mjög til slíkra aðgerða í baráttunni við fótboltabullur. Ákvörðunin mæltist afar illa fyrir meðal fótboltaunnenda og bakaði félaginu litlar vinsældir. Við það bættist að fyrir leiktíðina 1985-86 fylgdi Luton Town í fótspor Queens Park Rangers og skipti grasinu á velli sínum út fyrir gervigras. Vorið 1986 sagði David Pleat loks skilið við Luton Town, þegar hann tók við stöðu knattspyrnustjóra Tottenham.

Sigur á Wembley og fallbarátta (1986 - 1992)

breyta
 
Framherjinn og harðjaxlinn Mick Harford var í herbúðum Luton Town seinni hluta níunda áratugarins og var í miklum metum. Hann varð síðar knattspyrnustjóri félagsins.

John Moore, aðstoðarmaður Davids Pleat og fyrrum leikmaður Luton Town, tók við stöðu knattspyrnustjóra fyrir leiktíðina 1986-87. Hann skilaði liðinu í sjöunda sæti, sem enn í dag er besti árangur í sögu félagsins í deildarkeppni. Engu að síður sagði Moore stöðu sinni lausri í árslok og sneri sér aftur að almennri þjálfun hjá félaginu, sem hann taldi henta sér betur. Var hann starfsmaður Luton Town til ársins 2003. Í hans stað var ráðinn Ray Harford, sem áður hafði stýrt liði Fulham.

 
Andy Dibble varð hetja Luton gegn Arsenal á Wembley.

Fyrsta ár Harfords við stjórnvölinn hafnaði Luton Town í níunda sæti í deildinni. Athyglin beindist þó miklu fremur að bikarkeppnum það árið. Luton tapaði fyrir Wimbledon, 2:1, í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar. Hálfum mánuði síðar fór Luton Town á Wembley í fyrsta sinn frá árinu 1959, til að keppa í úrslitum Full Members Cup, bikarkeppni með þátttöku liða úr tveimur efstu deildunum sem sett var á stofn til að bæta fyrir bann sem sett var við þátttöku enskra liða í Evrópukeppnum. Andstæðingur Luton Town var annarar deildar lið Reading, sem öllum að óvörum sigraði með fjórum mörkum gegn einu. Nokkrum vikum síðar hélt Luton Town aftur á Wembley, þar sem liðið lék til úrslita gegn Arsenal í deildarbikarkeppninni. Arsenal var talið mun sigurstranglegra og var 2:1 yfir þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Arsenal sótti linnulaust og fékk vítaspyrnu, sem markvörðurinn Andy Dibble varði frá varnarjaxlinum Nigel Winterburn. Á lokamínútunum snéru Luton-menn hins vegar leiknum sér í vil og skoruðu tvívegis. Sigurmark Brians Stein kom nánast úr síðustu spyrnu leiksins. Varð þetta fyrsti og eini stóri titill Luton Town í sögu sinni.

Veturinn 1988-89 endaði Luton Town í sextánda sæti, tveimur stigum frá falli. Annað árið í röð komst liðið í úrslit deildarbikarsins, en tapaði að þessu sinni fyrir Nottingham Forest. Fjárhagsörðugleikar leiddu til þess að félaginu hélst illa á sínum sterkustu leikmönnum og kjarninn úr liðinu sem komst upp í fyrstu deildina var horfinn á braut eða kominn til ára sinna. Árið 1990 og 1991 slapp Luton Town við fall í lokaumferðinni, í bæði skiptin eftir sigra á Derby County. Fyrir keppnistímabilið 1991-92 var David Pleat fenginn til liðsins á ný. Talsverðar breytingar urðu á leikmannahópnum, en þær komu fyrir lítið. Luton hafnaði í þriðja neðsta sæti og féll, eftir að hafa mistekist að leggja falllið Notts County í lokaumferðinni. Þar með varð ljóst að Luton Town yrði ekki meðal þátttakenda í ensku úrvalsdeildinni, sem hóf göngu sína næsta haust.

Aftur í neðstu deild (1992 - 2001)

breyta
 
Táningurinn John Hartson var seldur fyrir metfé.

Fallið úr efstu deild þýddi að Luton Town varð að laga sig að nýjum veruleika. Lykilmenn réru á önnur mið og David Pleat þurfti að byggja upp lið sitt frá grunni. Fyrstu tvö árin hafnaði Luton Town rétt fyrir ofan fallsæti, en vorið 1994 gátu stuðningsmennirnir þó huggað sig við að komast á Wembley, þar sem liðið tapaði 2:0 fyrir Chelsea í undanúrslitum bikarkeppninnar. Árið eftir lofaði góðu og Luton Town komst hæst í fimmta sæti, en botninn datt út tímabilinu eftir að John Hartson var seldur til Arsenal fyrir 2,5 milljónir punda, sem þá var metupphæð fyrir leikmann á táningsaldri og lengi vel hæsta upphæð sem Luton Town hafði fengið greitt fyrir leikmann. Luton-liðið endaði fyrir neðan miðja deild og David Pleat yfirgaf félagið í kjölfarið eftir að hafa fengið tilboð frá Sheffield Wednesday.

Veturinn 1995-96 sá Luton Town aldrei til sólar og féll niður í þriðju efstu deild ásamt erkifjendunum í Watford. Árið eftir freistaði félagið þess að skjótast strax upp aftur, en niðurstaðan varð þriðja sæti og tap í umspili. Næstu þrjú árin varð Luton fyrir neðan miðju og vorið 2001 féll félagið að nýju niður í neðstu deild. Árin á undan höfðu að miklu leyti einkennst af sölu á sterkustu leikmönnum liðsins til að ná endum saman í rekstrinum. Þrátt fyrir peningabaslið höfðu eigendur félagsins stórhuga áætlanir, þarnnig lýsti stjórnarformaðurinn David Kohler áformum sínum um að reisa 20 þúsund manna yfirbyggðan fjölnotaleikvang, með grasi sem draga mætti inn og út úr húsinu á leikdögum. Fyrirmynd leikvangsins var Pontiac Silverdome-leikvangurinn í Michigan í Bandaríkjunum og hlaut völlurinn fyrirhugaði því vinnuheitið Kohlerdome. Áformin fengu ekki náð fyrir augum yfirvalda og gagnrýni stuðningsmanna í garð stjórnarhátta Kohlers varð sífellt harðari. Kornið sem fyllti mælinn var þegar bensínsprengju var stungið inn um brefalúgu á heimili Kohlers. Í kjölfarið hætti hann afskiptum af félaginu og við tók tímabil örra eigendaskipta og upplausnar utan vallar.

Í tröllahöndum (2001 - 2003)

breyta
 
Joe Kinnear var rekinn af hinum sérvitra John Gurney.

Joe Kinnear, sem gert hafði garðinn frægan hjá Wimbledon, tók við knattspyrnustjórastarfinu hjá Luton Town á miðri leiktíð en tókst ekki að forða liðinu frá falli í neðstu deild. Þegar þangað var komið tók hann að byggja liðið upp eftir sínu höfði og styrkti leikmannahópinn verulega. Luton Town varð í öðru sæti á eftir Plymouth Argyle vorið 2002. Bjartsýnir stuðningsmenn vonuðust eftir að komast aftur upp árið eftir, en Luton Town hafnaði um miðja deild vorið 2003. Þá um veturinn kom í ljós að félagið var rekið með gríðarlegu tapi, en gjaldþrot ITV Digital-fyrirtækisins lék mörg ensk neðrideildarlið grátt þar sem tekjur af sjónvarpsréttindum hrundu. Eigendur félagsins gripu til þess ráðs að selja það líttþekktum kaupsýslumanni, John Gurney, fyrir einungis fjögur pund.

Fyrsta verk Johns Gurney var að reka Joe Kinnear og aðstoðarmann, gömlu Luton-kempuna Mick Harford, úr starfi. Ákvörðunin olli ofsareiði stuðningsmanna. Í kjölfarið var efnt til símakosningar, sem kallað var Manager Idol, um hver taka skyldi við starfinu. Vakti þessi nýstárlega leið til að velja knattspyrnustjóra mikla athygli fjölmiðla. Meðal valkosta í kjörinu voru þeir Kinnear og Harford, sem sögðust þó ekkert vilja eiga saman við Gurney að sælda. Að flestra mati var kosningin hrein sýndarmennska, en tilkynnt var að Mike Newell fyrrum leikmaður Luton Town og Blackburn hefði orðið fyrir valinu.

Næstu vikurnar bárust sífelldar fregnir af sérkennilegum hugmyndum hins nýja eiganda. Gurney stakk upp á að sameina Luton Town og Wimbledon, auk þess að leggja til að nafni félagsins yrði breytt í London Luton Football Club, sem yrði betra vörumerki á alþjóðavettvangi. Jafnframt ræddi hann fjálglega um að reisa nýjan heimavöll fyrir allt að 70 þúsund áhorfendur, sem jafnframt mætti nýta í samvinnu við bandarísk NBA og NFL-lið og tengja við Formúlu 1-keppnisbraut.

Viðbrögð stuðningsmanna voru þau að stofna grasrótarsamtökin Trust in Luton með það að markmiði að hrekja hinn nýja eiganda á braut og standa vörð um Luton Town og arfleifð þess. Stuðningsmenn voru hvattir til að kaupa ekki ársmiða, heldur láta andvirði þeirra renna til hins nýja félags sem aftur keypti hlutabréf í sjóði sem Luton Town skuldaði háar fjárhæðir. Trust in Luton var þar með komið í hóp lánardrottna félagsins og gat knúið John Gurney til að gefa eftir völdin og setja það í greiðslustöðvun einungis 55 dögum eftir að hann eignaðist félagið.

Rússíbanareið (2003 - 2009)

breyta
 
Curtis Davies yfirgaf Luton Town fyrir þrjár milljónir punda árið 2004.

Ráðningin á Mike Newell var í raun það eina sem stóð eftir skammvinna stjórnartíð Johns Gurney. Vegna aðdraganda hennar voru stuðningsmenn margir hverjir tortryggnir í garð Newells, sem hafði óverulega þjálfunarreynslu. Liðið endaði um miðja deild leiktíðina 2003-04, enda í fjárhagslegri spennitreyju í miðri greiðslustöðvun. Nýir eigendur fundust þó að lokum og fékk Trust in Luton sæti í stjórn félagsins. Árið eftir hafði Luton Town mikla yfirburði og lauk keppni með tólf stigum meira en Hull City í öðru sætinu. Liðið var því komið í næstefstu deild eftir áratugs bið.

Frá upphafi var ljóst að lífsbaráttan í næstefstu deild yrði hörð. Newell fékk nær ekkert fé til leikmannakaupa, en varnarmaðurinn Curtis Davies var seldur til WBA fyrir þrjár milljónir punda í byrjun leiktíðar og er það enn í dag hæsta upphæð sem Luton Town hefur fengið greitt fyrir leikmann. Liðið kom þó flestum á óvart með því að halda sig nærri topnum frameftir vetri og enda að lokum í tíunda sæti, sem var besti árangur þess í deildarkeppni frá 1992. Í bikarnum tapaði Luton Town fyrir Liverpool í eftirminnilegum leik, 3:5.

Ekki tókst að byggja á frammistöðunni 2005-06 árið eftir. Eftir góða byrjun, dróst Luton Town niður í fallbaráttuna. Mike Newell var rekinn í mars 2007, vegna slaks árangurs en ekki síður útaf gagnrýni hans á eigendur félagsins og rekstrarstefnu þeirra. Mánuði síðar lét stjórnarformaðurinn af störfum eftir að Enska knattspyrnusambandið hóf rannsókn á ólöglegum greiðslum félagsins til umboðsmanna leikmanna. Luton Town endaði í næstneðsta sæti og hefði raunar hafnað í neðsta sætinu ef Leeds hefði ekki tapað stigum vegna fjármálaóreiðu. Eftir því sem leið á árið 2007 varð sífellt betur ljóst hversu slæm fjárhagsstaða Luton Town væri og hvað eigendur félagsins hefðu haldið stöðu mála leyndri. Í nóvember 2007 fór Luton Town á ný í greiðslustöðvun. Tíu stig voru dregin af liðinu í refsingarskyni. Luton Town féll því annað árið í röð, endaði í neðsta sæti og var komið í fjórðu efstu deild á ný.

 
Leikmenn Luton Town fagna bikarsigrinum á Wembley árið 2009.

Fyrir leiktíðina 2007-08 komst félagið í eigu nýrra eigenda, Luton Town Football Club 2020 Consortium, oftast kallað einfaldlega 2020. Félagið fékk blessun helstu stuðningsmannaklúbba Luton Town á borð við Trust in Luton og dró nafn sitt af því markmiði að tryggja Luton Town sæti í næstefstu deild á ný ekki síðar en árið 2020, auk þess að reisa nýjan heimavöll. Þar sem Luton Town hafði í tvígang farið í greiðslustöðvun á skömmum tíma, úrskurðaði stjórn ensku deildarkeppninnar að draga skyldi tuttugu stig af liðinu í refsingarskyni. Þótti Luton-mönnum það hart hlutskipti og bentu á að fyrri greiðslustöðvunin hefði verið knúin fram til að losa félagið við ævintýramanninn John Gurney, en ekki til að bæta samkeppnisstöðu félagsins. Til að bæta gráu ofan á svart ákvað Enska knattspyrnusambandið að draga tíu stig af félaginu vegna hinna ólöglegu greiðslna til umboðsmanna. Töldu stuðningsmenn Luton Town þá refsingu sérlega ósanngjarna í ljósi þess að um væri að ræða misgjörðir fyrri eigenda sem horfnir væru frá félaginu, málið hafi komið upp á yfirborðið vegna ábendinga frá starfsfólki og stuðningsmönnum Luton Town og að umboðsmennirnir sjálfir hafi ekki þurft að sæta neinum teljandi refsingum. Upp frá því hefur töluverður hópur stuðningsmanna Luton Town lagt algjöra fæð á knattspyrnusambandið sem birtist í fjölda stuðningssöngva og því að neita jafnvel að styðja enska knattspyrnulandsliðið.

Með þrjátíu stiga frádrátt, sem mun vera einsdæmi í knattspyrnusögunni, átti Luton Town aldrei möguleika á að halda sér uppi. Liðið endaði í 24. og neðsta sæti deildarinnar, en án stigafrádráttar hefði 15. sætið orðið raunin. Luton Town var því fallið úr deildarkeppninni í fyrsta sinn frá 1920. Stuðningsmenn gátu þó sleikt sárin þegar Luton Town sigraði í bikarkeppni liða úr þriðju og fjórðu efstu deild, eftir 3:2 sigur á Scunthorpe á Wembley í dramatískum úrslitaleik. Af 55 þúsund áhorfendum á leiknum var áætlað að um 40 þúsund hefðu verið á bandi Luton Town og létu þeir stjórnarformann ensku deildarkeppninnar óspart heyra það meðan á verðlaunaafhendingunni stóð.

Horft til framtíðar (2009 - 2019)

breyta
 
Nathan Jones var knattspyrnustjóri Luton Town 2016-19.

Leikmenn og stuðningsmenn Luton Town voru lengi að venjast lífinu í utandeildarkeppninni. Á hverju hausti spáðu veðbankar liðinu toppsætinu, en fjögur ár í röð brugðust þær vonir. Fyrsta árið hafnaði liðið í öðru sæti, þá í þriðja og því næst í fimmta sæti. Í öll skiptin dugði árangurinn til að komast í umspil, en alltaf töpuðu Luton-menn þeirri keppni: tvisvar í fyrri umferðinni og einu sinni í úrslitaleik á Wembley. Veturinn 2012-13 komst Luton Town ekki einu sinni í umspilskeppnina, hafnaði í sjöunda sæti. Það ár náði liðið hins vegar besta árangri sínum í ensku bikarkeppninni um langt árabil, fór í 16-liða úrslit eftir að hafa sigrað Úrvalsdeildarlið Norwich 1:0 á útivelli. Á þessum árum skipti Luton nær árlega um knattspyrnustjóra.

John Still, gamalreyndur stjóri sem náð hafði góðum árangri með efnalítil neðrideildarlið, tók við stjórnartaumunum og veturinn 2013-14 tryggði Luton Town sér sæti í deildarkeppninni á nýjan leik eftir að hafa unnið utandeildarkeppnina með miklum yfirburðum. Ekki tókst að fylgja þeim árangri nægilega vel eftir og næstu tvö árin hafnaði Luton rétt um miðbik fjórðu efstu deildar, fyrst undir stjórn Johns Still en síðar Walesverjans Nathans Jones. Á sínu fyrsta heila ári, 2016-17, skilaði Jones liðinu í fjórða sætið en féll úr leik í umspili. Markmið 2020-eigendahópsins um að komast upp um tvær deildir á næstu misserum eru þó enn við lýði, auk þess sem félagið hefur opinberað áform sín um að reisa nýjan 17 þúsund manna leikvang í miðborg Luton. Í ársbyrjun 2019 samþykkti bæjarstjórn Luton tillögur félagsins um byggingu nýs vallar.

Leiktíðina 2017-18 tókst Luton loks að komast að nýju upp í þriðju efstu deild, eftir að hafa hafnað í öðru sæti á eftir Accrington Stanley. Luton stóð sig vonum framar á nýjum slóðum og var komið í harða toppbaráttu á miðjum vetri. Árangurinn vakti athygli annarra liða á knattspyrnustjóranum Jones og í janúar 2019 tók hann við stjórn Stoke City. Gamla kempan Mick Harford tók við stjórn liðsins til loka leiktíðarinnar og stýrði því til sigurs í deildinni. Luton komst þannig í næstefstu deild í fyrsta sinn frá 2007.

Upp í úrvalsdeild (2019-)

breyta

Luton átti erfitt uppdráttar á sínum fyrsta vetri í ensku meistaradeildinni 2019-20, sem mótaðist mjög af Covid-faraldrinum sem riðlaði leikjadagskránni rækilega. Knattspyrnustjórinn Graeme Jones sagði starfi sínu lausu þegar liðið var í næstneðsta sæti og langt liðið á mót. Flestum að óvörum sneri Nathan Jones aftur til félagsins og tókst að halda liðinu uppi með sigri í lokaumferðinni á móti Blackburn Rovers.

Árið eftir sigldi liðið lygnan sjó og endaði um miðja deild eftir að hafa gert atlögu að umspilssæti. Leiktíðina 2021-22 náði Luton sjötta sæti og þar með síðasta plássinu í umspilinu, en féll á fyrstu hindrun gegn Huddersfield Town. Vonir voru bundnar við að liðinu tækist enn betur upp á næsti ári, þrátt fyrir að hafa úr minni fjármunum að spila en velflest lið deildarinnar.

Draumar Luton um að komast upp um deild urðu fyrir áfalli þegar Nathan Jones yfirgaf liðið öðru sinni í nóvember 2022 til að taka við stjórninni hjá Southampton. Í hans stað var ráðinn ungur stjóri, Rob Edwards, sem hafði fáeinum vikum áður verið rekinn frá erkifjendunum í Watford. Undir stjórn Edwards hafnaði Luton í þriðja sæti deildarinnar og tókst því næst að sigra Coventry City 6-5 í vítaspyrnukeppni í úrslitum umspilsins og komst þar með í fyrsta sinn í ensku úrvalsdeildina. Liðið féll úr deildinni eftir eitt tímabil þar.

Einkennismerki og hefðir

breyta
 
Hattarinn í Ævintýri Lísu í Undralandi er uppspretta ýmissa orðaleikja í tengslum við Luton Town og stuðningsmenn þess.

Luton Town og stuðningsmenn félagsins ganga undir viðurnefninu hattararnir (e. The Hatters). Nafnið vísar til stráhattaframleiðslu sem var mikil í Luton fyrr á árum. Kallar viðurnefni þetta á ýmis konar orðaleiki sem tengjast höttum eða skírskotunum til „óða hattarans“ í Ævintýri Lísu í Undralandi. Lukkudýr Luton Town er Happy Harry, kankvís maður í knattspyrnubúningi með stráhatt.

Um 1920 tók Luton Town upp hvítar treyjur og svartar buxur sem aðalbúning sinn. Fyrir leiktíðina 1973-74 var honum skipt út fyrir appelsínugular treyjur og svarbláar buxu. Nokkrum árum síðar var aftur skipt yfir í hvítar treyjur en þess þó gætt að appelsínuguli og svarblái liturinn væri áfram áberandi í búningnum. Stuðningsmenn skiptast í tvö horn í afstöðunni til þess hvort hvítur eða appelsínugulur skyldi vera aðalbúningur félagsins. Frá 2009 hefur appelsínuguli liturinn orðið ofan á, en varabúningurinn verið hvítur.

Stuðningsmenn Luton Town og Watford hafa lengi eldað grátt silfur, þótt í seinni tíð hafi leiðir liðanna tveggja ekki legið oft saman í deildarkeppni. Frá 1997 hefur Watford verið ofar í deildum en Luton Town, en í 118 viðureignum félaganna í sögunni hefur Luton þó vinninginn með 53 sigra. Watford hefur unnið 36 sinnum en 29 sinnum hafa liðin gert jafntefli. Luton Town og Watford mættust síðast árið 2006. Könnun árið 2003 leiddi í ljós að þótt flestir Luton-stuðningsmenn nefni Watford sem erkióvini á knattspyrnuvellinum, velur allnokkur hópur þó fremur Lundúndaliðið Queens Park Rangers.

Eric Morecambe, kunnasti stuðningsmaður Luton Town, fæddist í borginni Morecambe. Árið 2014 ákváðu stjórnendur Luton Town og Morecambe F.C. að efna til sérstakrar kepppni, Eric Morecambe Trophy, en handhafi þess titils skyldi ætíð vera sigurvegarinn í síðustu viðureign félaganna tveggja í deild eða bikar.

Titlar

breyta
  • Besti árangur í A-deild: 6. sæti 1986-87.
  • B-deild: meistarar (1) 1982-83.
  • C-deild: meistarar (3) 1936–37 (suður), 2004–05, 2018–19.
  • D-deild: meistarar (1) 1967–68.
  • E-deild: meistarar (1) 2013–14.
  • FA-bikarinn: 2. sæti (1) 1958–59; undanúrslit (3) 1984-85, 1987-88, 1993-94.
  • Deildarbikarinn: meistarar (1) 1987-88; 2. sæti (1) 1988-89.
  • Bikarkeppni C- & D-deildarliða: meistarar (1) 2008-09.

Helstu met

breyta

Leikjafjöldi

breyta
  • Flestir leikir: Bob Morton (1948-64), 562 leikir, þar af 495 deildarleikir.
  • Yngsti leikmaður: Jordan Patrick, 16 ára og 7 daga, gegn Grinsby Town, okt. 2008.
  • Elsti leikmaður: Trevor Peake, 40 ára og 222 daga, gegn Wrexham, sept. 1997.
  • Flestir landsleikir: Mal Donaghy lék 58 (af 91) landsleik sínum fyrir Norður-Írland sem leikmaður Luton Town.
  • Flestir landsleikir fyrir England: Robert Hawkes og Paul Walsh, 5 leikir hvor.

Markaskorun

breyta
  • Flest mörk: Gordon Turner (1949-60), 276 mörk, þar af 243 í deildarleikjum.
  • Flest mörk í einum leik: Joe Payne, 10 í leik gegn Bristol Rovers, ap. 1936.
  • Flest mörk á leiktíð: Joe Payne, 58 mörk veturinn 1936-37, þar af 55 í deildarleikjum.

Einstök úrslit

breyta
  • Stærsti sigur: 15:0 gegn Great Yarmouth Town í bikarkeppninni, nóv. 1914.
  • Stærsti deildarsigur: 12:0 gegn Bristol Rovers, ap. 1936.
  • Stærsti sigur á útivelli: 0:5 gegn Exeter City, okt. 1967; 0:5 gegn Colchester, ap. 2003; 1:6 gegn Ebbsfleet United, mars 2010; 0:5 gegn Kettering Town, jan. 2012; 0:5 gegn Alfreton, des. 2013 & 0:5 gegn Nuneaton, feb. 2014.
  • Stærsta deildartap: 9:0 gegn Small Heath, nóv. 1898.
  • Stærsta tap á heimavelli: 0:7 gegn 93rd Highland Regiment í bikarkeppninni, okt. 1890.
  • Stærsta deildartap á heimavelli: 0:5 gegn Manchester United, feb. 1984; 0:5 gegn Sunderland, maí 2007; 1:6 gegn Leicester Fosse, jan. 1899; 1:6 gegn Charlton Athletic, feb. 1962 & 2:7 gegn Shrewsbury Town, mars 1965.
  • Flestir sigurleikir í röð: 12, frá 19. febrúar til 6. apríl 2002 í þriðju efstu deild.
  • Flestir leikir í röð án taps: 27, frá 17. sept. 2013 til 11. mars 2014 í utandeildarkeppninni.
  • Flestir heimaleikir í röð án ósigurs: 39, frá 26. sept. 1925 til 30. ap. 1927 í þriðju deild-suður.
  • Flestir leikir í röð án þess að fá á sig mark: 7, frá 13. okt. til 23. nóv. 1923 í þriðju deild-suður.

Áhorfendur

breyta
  • Flestir áhorfendur á leik: um 100 þúsund, í bikarúrslitum á Wembley gegn Nottingham Forest 1959.
  • Flestir áhorfendur á heimaleik: 30.069, gegn Blackpool í bikarkeppninni, mars 1959.
  • Flestir áhorfendur á deildarleik: 27.911 gegn Wolves, nóv. 1955.

Fjárhæðir

breyta

Hæstu kaupverð

breyta
  1. Simon Sluga, frá HNK Rijeka, júlí 2019, 1.200 þús. pund.
  2. Lars Elstrup, frá Odense Boldklub, ág. 1989. 850 þús. pund.
  3. Steve Davis frá Burnley, júlí 1995. 750 þús. pund.
  4. Ian Feuer frá West Ham, des. 1995. 580 þús. pund.
  5. Adam Boyd, frá Hartlepool, júlí 2006. 500 þús. pund.

Hæstu söluverð

breyta
  1. Curtis Davies, til WBA, ág. 2005. 3 milljónir punda.
  2. Rowan Vine, til Birmingham City, jan. 2007. 3 milljónir punda.
  3. Leon Barnett, til WBA, júlí 2007. 2,75 milljónir punda.
  4. John Hartson, til Arsenal, jan. 1995. 2,5 milljónir punda.
  5. Matthew Upson, til Arsenal, maí 1997. 2 milljónir punda.

Heimildir

breyta

Fyrirmynd síðunnar er enska Wikipediu-síðan um Luton Town F.C. Sótt í ágúst 2017.