[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Knútur Eiríksson d. 1195/1196) var konungur Svíþjóðar frá 1167. Fyrstu árin barðist hann um völd við þá Kol og Búrisláf Sörkvissyni en frá 1172/1173 var hann einn konungur.

Knútur var sonur Eiríks konungs helga og Kristínar konu hans. Hann var barn að aldri þegar faðir hans var drepinn og varð að flýja land undan óvinum hans. Árið 1167 sneri hann aftur til Svíþjóðar og felldi þá Karl konung Sörkvisson. Næstu árin háði hann stríð við frændur hans, Kol Sörkvisson og Búrisláf Sörkvisson en þeir gerðu í sameiningu kröfu til krúnunnar. Árið 1172 eða 1173 hafði honum þó tekist að fella þá báða og var eftir það einn konungur Svíþjóðar til dauðadags, eða í meira en tuttugu ár.

Knútur gerði, eða jarl hans, Birgis Brosa, fyrir hans hönd, fyrsta verslunarsamninginn sem Svíar gerðu við erlent ríki. Hann var einnig í samskiptum við Hinrik 2. Englandskonung, sem sendi honum hertygi að gjöf. Hann átti góð samskipti við Sverri Noregskonung og gifti honum systur sína, Margréti, árið 1185.

Knútur giftist um 1160. Nafn og ætt konu hans er óþekkt en þess hefur verið getið til að hún hafi verið dóttir Jóhanns Sörkvissonar, sonar Sörkvis eldra. Varðveist hefur bréf sem konungur skrifaði páfanum árið 1193, þar sem fram kemur að árið 1190 hafði drottningin veikst alvarlega og vart verið hugað líf. Hafði hún þá heitið skírlífi ef hún læknaðist. Það gerðist og nú vildu þau hjónin fá hana leysta undan heitinu. Páfinn svaraði því að hún skyldi standa við heit sitt og neyddist drottningin þá til að leggja niður kórónuna og ganga í klaustur.

Þegar Knútur féll frá um 1196 voru synir hans fjórir enn allir á barnsaldri og Birgir Brosa kom því til leiðar að Sörkvir yngri, sonur Karls Sörkvissonar, var kjörinn konungur. Þegar synir Knúts uxu úr grasi reyndu þeir að ná ríki föður síns aftur og þrír þeirra, Jón, Knútur og Jóar, féllu í orrustunni við Älgarås í nóvember 1205. Eiríkur komst einn undan og varð síðar konungur Svíþjóðar.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Karl Sörkvisson
Svíakonungur
með Kol Sörkvissyni og Búrisláfi Sörkvissyni
(11671195/1196)
Eftirmaður:
Sörkvir yngri Karlsson