[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Kolefni

Frumefni með efnatáknið C og sætistöluna 6

Kolefni er frumefni með efnatáknið C og sætistöluna 6[1] í lotukerfinu.

   
Bór Kolefni Nitur
  Kísill  
Efnatákn C[1]
Sætistala 6[1]
Efnaflokkur Málmleysingi[1]
Eðlismassi 2267,0 kg/
Harka 0,5 (grafít)
10,0 (demantur)
Atómmassi 12,0107 g/mól
Bræðslumark 3773,0 K
Suðumark 5100,0 K
Efnisástand
(við staðalaðstæður)
Fast efni
Lotukerfið

Það er mjög algengur, fjórgildur málmleysingi og er til í nokkrum mismunandi formum:

  • Demantur (harðasta þekkta steinefnið). Samsetning: Hvert atóm er bundið fjórum öðrum, sem mynda þannig þéttriðið þrívítt net úr sex kolefnisatóma hringjum.
  • Grafít (eitt mýksta efnið). Samsetning: Hvert atóm er bundið þremur öðrum atómum, sem myndar tvívíða breiðu eins og teppi, úr flötum sex kolefnisatóma hringjum. Hvert lag er mjög laustengt næsta lagi fyrir ofan sig og neðan.

Fullerín, sem kennt er við Buckminster Fuller, er gert úr sameindum kolefnisatóma á nanómetrakvarða. Einfaldasta form þess er úr sameindum, sem eru þannig, að 60 kolefnisatóm tengjast saman og mynda kúlu, sem svipar til fótbolta. Þetta minnir á kúlueiningahúsin Buckminster Fuller hannaði á sínum tíma og þaðan kemur nafnið.

Kinrok er úr litlum grafítflögum. Flögurnar eru handahófskennt dreifðar þannig að heildarbyggingin er jafnátta.

Glerkennt kolefni er jafnátta og sterkt sem gler. Ólíkt því sem er í venjulegu grafíti liggja grafítlögin ekki eins og blaðsíður í bók heldur eru þau samankrumpuð eins og blaðarusl.

Koltrefjaefni eru svipuð glerkenndu kolefni. Við sérstaka meðhöndlun (strekking á lífrænum trefjum sem svo eru kolaðar) er hægt að hagræða kolefnisflötunum í sömu stefnu og trefjarnar. Hornrétt á trefjaöxulinn vantar stefnu á kolefnafletina.

Kolefni finnst í öllum lífrænum efnum og er undistaða lífrænnar efnafræði. Þessi málmleysingi hefur einnig þann áhugaverða efnafræðilega eiginleika að geta bundist við sjálfan sig og margar tegundir annarra efna og myndar þannig nærri 10 milljón þekkt efnasambönd. Ásamt súrefni myndar það koltvísýring sem er lífsnauðsynlegur fyrir gróður. Með súrefni og vetni getur kolefni myndað mörg efnasambönd, þar á meðal fitusýrur, sem eru nauðsynlegar flestu lífi, og estra, sem gefa mörgum ávöxtum bragð sitt. Samsætan kolefni-14 er mikið notuð við aldursákvörðun með geislakolsaðferð.

Tilvísani

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Efnafræði