[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Koichi Tanaka (japanska: 田中 耕一 Tanaka Kōichi) (f. 3. ágúst 1959 í Toyama í Japan) er japanskur nóbelsverðlaunahafi, en hann deildi helmingnum af nóbelsverðlaununum í efnafræði 2002 með John B. Fenn (Kurt Wüthrich hlaut hinn helminginn). Hann hlaut verðlaunin fyrir þróun á massagreiningartækni fyrir risasameindir [1], en fram að þeim tíma voru einungis smásameindir tækar til greiningar með massagreini.

Koichi Tanaka árið 2003.

Flugtíma-massagreinar starfa þannig að efnið sem greina á svífur í rafsviði að nema og er massinn metinn út frá sviftímanum. Efnið þarf því að vera bæði hlaðið og í loftkenndu ástandi. Til að massagreining risasameindar á borð við prótín sé möguleg þarf því að jóna sameindina og koma henni í gasfasa, og er það gert með leysigeislun. Sé reynt að jóna risasameindir á þennan hátt, án þess að vernda byggingu þeirra gegn niðurbroti í aflmiklum geislanum, brotna þær niður í stutta búta og massagreiningin verður marklaus. Árið 1985 þróaði Tanaka aðferð þar sem sviflausn af örfínu málmdufti í glýseróli var notuð sem stoðefni (e. matrix) og var þá mögulegt að jóna prótín með 330 nm leysigeisla án teljandi niðurbrots[2].

Aðferð Tanaka, sem kölluð er SLD (e. soft laser desorption), er raunar ekki mikið notuð í dag og hlaut nóbelnefndin nokkra gagnrýni fyrir að hafa veitt Tanaka verðlaunin fremur en Franz Hillenkamp og Michael Karas, en þeir þróuðu svipaða aðferð, MALDI (e. matrix-assisted laser desorption/ionization) [3] sem nú er mun meira notuð, einkum við greiningu prótínmengja. Þeir Hillenkamp og Karas notuðu þó MALDI aðferðina ekki á risasameindir fyrr en nokkru eftir að Tanaka hafði sýnt fram á notagildi SLD við massagreiningu prótína[4].

Heimildir

breyta
  1. Tanaka, K.; Waki, H.; Ido, Y.; Akita, S.; Yoshida, Y.; Yoshida, T. (1988). „Protein and Polymer Analyses up to m/z 100 000 by Laser Ionization Time-of flight Mass Spectrometry“. Rapid Communications in Mass Spectrometry. 2 (20): 151–153. doi:10.1002/rcm.1290020802.
  2. Markides, K. „Advanced information on the Nobel Prize in Chemistry 2002“ (PDF).
  3. Karas, M.; Bachmann, D.; Hillenkamp, F. (1985). „Influence of the Wavelength in High-Irradiance Ultraviolet Laser Desorption Mass Spectrometry of Organic Molecules“. Analytical Chemistry. 57: 2935–2939. doi:10.1021/ac00291a042.
  4. Karas M, Hillenkamp F (1988). „Laser desorption ionization of proteins with molecular masses exceeding 10,000 daltons“ (PDF). Anal. Chem. 60 (20): 2299–2301. doi:10.1021/ac00171a028. PMID 3239801. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 23. júní 2006. Sótt 14. desember 2008.

Tenglar

breyta