Jóhann landlausi
Jóhann landlausi (24. desember 1167 – 19. október 1216) var konungur Englands frá 6. apríl 1199 til dauðadags. Viðurnefni sitt (enska John Lackland) hlaut hann af því að hann var yngstur bræðra sinna og erfði engar lendur þegar faðir hans dó og jafnframt vegna þess að á konungstíð sinni tapaði hann stórum landsvæðum í hendur Frakkakonungs.
Uppvöxtur
breytaJóhann var fimmti sonur Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu og erfði krúnuna þegar Ríkharður ljónshjarta bróðir hans dó. Eldri bræður hans þrír (sá fjórði dó fárra ára gamall) gerðu allir uppreisn gegn föður þeirra, sumir oftar en einu sinni. Elinóra móðir þeirra studdi þá og var sett í stofufangelsi 1173, þegar Jóhann var um fimm ára gamall.
Barn að aldri var Jóhann heitbundinn Alais, dóttur og erfingja Humberts 3. af Savoja. Stúlkan var flutt til Englands til að alast upp við hirð tengdaföður síns en dó áður en af brúðkaupinu varð.
Jóhann fékk snemma á sig orð fyrir undirferli og sviksemi og vann ýmist með eða á móti bræðrum sínum, Hinrik unga, Ríkharði og Geoffrey. Árið 1184 gerðu Ríkharður og Jóhann báðir kröfu til yfirráða í Akvitaníu, sem var hertogadæmi móður þeirra. Árið 1185 var Jóhann settur yfir Írland og gerði sig svo óvinsælan þar að hann hraktist á brott eftir átta mánuði.
Á meðan Ríkharður var í Þriðju krossferðinni, frá 1190 til 1194, vann Jóhann á móti honum og þeim sem hann hafði sett yfir ríkið. Þegar Ríkharður var á heimleið var hann handsamaður af Leópold 5. Austurríkishertoga og síðan afhentur Hinrik 6. keisara, sem krafðist offjár í lausnargjald. Jóhann og Filippus 2. Frakkakonungur gengu í bandalag og buðu keisaranum háa fjárhæð fyrir að halda Ríkharði föngnum. Hann neitaði og Elinóru móður þeirra bræðra og Berangaríu af Navarra, konu Ríkharðs, tókst að skrapa saman fé í lausnargjaldið. Jóhann bað Ríkharð fyrirgefningar þegar hann sneri heim og fékk hana; Ríkharður, sem var barnlaus, útnefndi hann líka erfingja sinn.
Konungur Englands
breytaÞegar Ríkharður dó 1199 játuðu Normandí og England Jóhanni hollustu og hann var krýndur í Westminster Abbey 27. maí. En Anjou, Maine og Bretagne höfnuðu honum og kusu fremur Arthúr hertoga af Bretagne, son Geoffreys eldri bróður Jóhanns. Hann naut líka stuðnings Filippusar 2. Frakkakonungs fyrst í stað en árið 1200 viðurkenndi Filippus tilkall Jóhanns.
Aðalsmenn í Poitou, sem var eitt af greifadæmum Jóhanns á meginlandinu, voru ósáttir við ýmislegt í stjórn hans og sneru sér til Filippusar. Hann kallaði Jóhann til sín í París en Jóhann neitaði að hlýða. Þar sem frönsku hertoga- og greifadæmin sem Jóhann réði voru frönsk lén gat Filippus kallað þetta óhlýðni við lénsherra og hann lýsti því yfir að Jóhann hefði fyrirgert rétti sínum til þeirra. Hann seldi Arthúri svo allar lendurnar að léni og trúlofaði hann jafnframt Maríu dóttur sinni. Jóhann hófst handa við að láta smíða flota til að geta háð stríð handan Ermarsunds og var það í raun upphaf breska konunglega flotans.
Arthúr reyndi að ná Elinóru af Akvitaníu, ömmu sinni og móður Jóhanns, á sitt vald með umsátri um kastalann Mirabeau, en Jóhann kom honum að óvörum og handsamaði hann. Arthúri var varpað í dýflissu og er ekki titað hvað um hann varð en hann er talinn hafa dáið eða verið drepinn fljótlega. Systir Arthúrs, Elinóra, var einnig sett í fangelsi og þar var hún til dauðadags 1241.
Magna Carta
breytaÍ júní 1204 náði Filippus Normandí á sitt vald og einnig hluta af Anjou og Poitou. Jóhann þurfti á miklu fé að halda til að halda úti her ef hann átti að eiga von í að ná frönsku lendunum á ný en með þeim hafði hann jafnframt tapað miklum tekjum svo að ljóst var að hann yrði að leggja á þunga skatta. Hann lagði meðal annars á tekjuskatt í fyrsta sinn og einnig hækkaði meðal annars greiðslu sem aðalsmenn þurftu að inna af hendi til að sleppa við beina herþjónustu, ellefu sinnum á sautján árum.
Síðustu hækkanirnar voru mestar og þá var aðalsmönnum nóg boðið. Í september 1214 neituðu margir aðalsmennn að borga, enda höfðu þeir enga trú á að Jóhanni tækist að ná frönsku lendunum aftur. Í maí 1215 höfnuðu þeir alfarið greiðslunni, héldu til London undir forystu Robert fitz Walter og tóku borgina, svo og Lincoln og Exeter. Jóhann átti fund með þeim við Runnymede nálægt London 15. júní 1215 og undirritaði þar Magna Carta, lagabálk sem takmarkaði vald konungsins og gerði honum skylt að hlíta tilteknum lögum og reglum.
Borgarastyrjöld
breytaJóhann átti í hörðum deilum við kaþólsku kirkjuna framan af ríkisárum sínum og fór svo að páfi bannfærði hann árið 1209. Til að losna undan bannfæringunni féllst Jóhann á það árið 1213 að gera England og Írland að lénsríkjum guðs, Péturs postula og Páls postula og gjalda páfanum ákveðna fjárhæð árlega og viðurkenna hann sem lénsherra sinn. Nú ákvað hann að nota sér þetta. Þar sem hann hafði verið beittur þrýstingi til að undirrita skjalið leitaði hann til lénsherra síns, páfans, og bað hann um að ógilda það.
Páfinn varð við því en hópur aðalsmanna gerði þá uppreisn gegn konungi og leitaði meðal annars aðstoðar hjá Loðvík, krónprinsi Frakklands, og bauð honum ensku krúnuna að launum. Kona Loðvíks, Blanka af Kastilíu, var dótturdóttir Hinriks 2. og systurdóttir Jóhanns. Jóhann fór víða um England og barðist gegn uppreisnarmönnum og jafnframt gegn Alexander 2. Skotakonungi, sem hafði notað tækifærið og ráðist inn í Norður-England. Hann réðist hins vegar ekki til atlögu við uppreisnarmenn í London, sem þeir höfðu á valdi sínu.
Þann 21. maí 1216 lenti Loðvík með her sinn í Kent, hélt þaðan til London og var lýstur konungur Englands í Pálskirkju en þó ekki krýndur. Í lok sumars hafði hann náð þriðjungi Englands á sitt vald og naut stuðnings tveggja þriðju hluta allra aðalsmanna. Jóhann konungur hraktist stað úr stað og var orðinn sjúkur af blóðkreppusótt. Sigur Loðvíks virtist skammt undan en þá dó Jóhann í Newark-kastala í Lincolnshire, 18. eða 19. nóvember 1216.
Hinrik sonur Jóhanns, þá níu ára að aldri, tók við krúnunni og þá brá svo við að ensku aðalsmennirnir snerust flestir á sveif með hinum nýja konungi. Her hans vann sigur á her Loðvíks í orrustu við Lincoln 20. maí 1217 og í ágúst tapaði franski flotinn sjóorrustu við þann enska. Þá neyddist Loðvík til að ganga til samninga þar sem hann féllst á að ráðast aldrei á England aftur og viðurkenna að hann hefði aldrei átt löglegt tilkall til krúnunnar. Í staðinn fékk hann allháa fjárhæð greidda.
Eftirmæli
breytaJóhann hefur fengið afar slæmt eftirmæli í sögunni, bæði vegna þess að hann tapaði miklum lendum í Frakklandi á fyrstu ríkisstjórnarárum sínum, hann stýrði ríki sínu inn í borgarastyrjöld og hann gerði England að lénsríki páfastóls. Hans er þó helst minnst fyrir það að hann var þvingaður til að undirrita Magna Carta. Að mörgu leyti var hann þó hæfur stjórnandi, vel að sér um málefni ríkisins og réttsýnn og var oft fenginn til að dæma í málum. Hann var hins vegar tortrygginn, sveifst einskis til að koma sínu fram og naut lítils trausts þegna sinna.
Hjónabönd og börn
breytaJóhann kvæntist Ísabellu af Gloucester, dóttur William Fitz Robert, jarls af Gloucester. Þau voru barnlaus og Jóhann fékk hjónaband þeirra gert ógilt vegna skyldleika um það leyti eða skömmu eftir að hann varð konungur. Hún hefur því aldrei verið talin drottning. 24. ágúst árið 1200 gekk Jóhann svo að eiga Ísabellu af Angoulême, sem hann hafði rænt frá unnusta hennar, Hugh 10. de Lusignan. Þau áttu fimm börn: Hinrik 3. Englandskonung, Ríkharð, jarl af Cornwall, Jóhönnu Skotadrottningu, konu Alexanders 2., Ísabellu keisaraynju, konu Friðriks 2. keisara, og Elinóru, sem fyrst giftist jarlinum af Pembroke og síðar Simon Montfort, jarli af Leicester.
Jóhann er sagður hafa verið mjög kvensamur og svo mikið er víst að hann átti fjölda óskilgetinna barna.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „John of England“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 18. ágúst 2010.
Fyrirrennari: Ríkharður ljónshjarta |
|
Eftirmaður: Hinrik 3. | |||
Fyrirrennari: Ríkharður ljónshjarta |
|
Eftirmaður: Hinrik 3. / að nafninu til |