[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Glataði málstaðurinn

Hinn glataði málstaður suðurríkjanna (enska: Lost Cause of the Confederacy eða bara Lost Cause) er bandarísk skýringarsögn sem byggir á gervisagnfræði[1][2] og afneitunarstefnu.[3][4][5] Sögnin gengur út á að málstaður Suðurríkjasambandsins í bandaríska þrælastríðinu hafi verið göfugur, réttlátur og hafi ekki snúist um þrælahald.[6][7] Meginatriði skýringarsagnarinnar birtust fyrst árið 1866 og hún hefur enn töluverð áhrif á kynþáttahyggju, kynhlutverk og trúarleg viðhörf í suðurríkjum Bandaríkjanna.[8][9] Sagnfræðingar hafa afsannað marga þætti í söguskýringu glataða málstaðarins.

Custis Lee (1832–1913) ríður á hesti fyrir framan Jefferson Davis-minnismerkið í Richmond þann 3. júní 1907 og fylgist með skrúðgöngu til heiðurs gamalla hermanna Suðurríkjasambandsins.

Auk þess að þurfa að vinna nauðungarvinnu og fá ekki að yfirgefa þrælahældarana sættu þrælar í Bandaríkjunum oft kynferðisofbeldi og nauðgunum, fengu ekki að mennta sig og var gjarnan refsað með hýðingu og öðrum líkamlegum refsingum. Fjölskyldum þræla var oft skipt upp þegar einn eða fleiri fjölskyldumeðlimir voru seldir. Í slíkum tilvikum sáust þessir fjölskyldumeðlimir yfirleitt aldrei framar.[10] Talsmenn glataða málstaðarins hundsa þennan veruleika og halda því fram að þrælahald í Bandaríkjunum hafi fyrst og fremst verið af hinu góða. Þá hafna þeir því að deilan um þrælahald hafi verið meginorsök þrælastríðsins.[11] Þeir halda því fram að stríðið hafi fyrst og fremst verið frelsisbarátta suðurríkjanna á móti ofríki alríkisstjórnarinnar í Washington og hafi snúist um vernd suðræna landbúnaðarhagkerfisins á móti árásargirni norðurríkjanna.[12][13][14] Talsmenn skýringarsagnarinnar halda því fram að sigur sambandssinna í stríðinu hafi verið vegna meiri mannfjölda og sterkari iðnkjarna þeirra en að suðurríkjamenn hafi þó verið réttsýnni og kænni hermenn en andstæðingar þeirra.[11] Langflestir nútímasagnfræðingar hafna þessum skýringum og leggja áherslu á að meginorsök stríðsins hafi verið þrælahald.[15][16][17]

Hugmyndin um glataða málstaðinn var mjög útbreidd í kringum aldamót 19. og 20. aldar, þegar talsmenn hennar reistu fjölda minnismerkja til heiðurs gömlum hermönnum Suðurríkjasambandsins sem voru þá farnir að deyja hver af öðrum. Skýringarsögnin náði aftur mikilli útbreiðslu á tíma réttindahreyfingarinnar á sjötta og sjöunda áratugi 20. aldar, þegar hún varð hluti af mótspyrnu suðurríkjamanna gegn auknum stuðningi við kynþáttajafnrétti í Bandaríkjunum. Stofnanir sem studdu kenninguna um glataða málstaðinn létu reisa fjölda minnismerkja og rituðu sagnfræðibækur til að halda á lofti „réttri“ frásögn af þrælastríðinu. Þannig var tryggt að hvítir suðurríkjamenn myndu áfram styðja stefnur sem tryggðu yfirráð hvítra, meðal annars Jim Crow-lögin.[8][18] Hugmyndir um yfirburði hvíta mannsins eru lykilatriði í hugmyndafræði glataða málstaðarins.[18]

Einkenni

breyta
 
Hugmyndafræði glataða málstaðarins byggist meðal annars á ranghugmyndum um samband þræla og húsbænda þeirra.

Mýtan um glataða málstaðinn felst meðal annars í fullyrðingum um að þrælahald hafi ekki verið helsta ágreiningsefnið á milli norður- og suðurríkjanna og hafi ekki verið ástæða þess að suðurríkin reyndu að kljúfa sig frá Bandaríkjunum. Samkvæmt mýtunni hefði aðeins verið tímaspursmál hvenær suðurríkin myndu afnema þrælahald af fúsum og frjálsum vilja, og í reynd hafi það verið upphlaupssamir afnámssinnar sem espuðu upp ágreining á milli ríkjanna. Svart fólk sem bjó í þrældómi hafi upp til hópa verið hamingjusamt og tryggt húsbændum sínum.[19][20]

Ein röksemd að baki glataða málstaðnum gengur út á hugmyndina um að suðurríkjamenn hafi verið komnir af normönnskum riddurum Vilhjálms sigursæla, „[kynþætti] sem var kunnur fyrir vaskleika, riddaramennsku, heiður, blíðu og gáfur.“[21][22] Talsmenn glataða málstaðarins reyna að skýra hernaðarósigur Suðurríkjasambandsins þannig að suðrið hafi í raun ekki verið sigrað, heldur hafi það lotið í lægra haldi vegna ósanngjarnra yfirburða norðurríkjanna á sviði mannfjölda og auðlinda. Hins vegar halda þeir því gjarnan fram að suðurríkin hefðu sigrað ef þau hefðu unnið orrustuna við Gettysburg eða að þau hafi tapað vegna dauða Stonewall Jacksons árið 1863 og mistaka James Longstreet aðstoðarhershöfðingja.[19]

Í orðræðu glataða málstaðarins eru suðurríkin sýnd á rómantískan máta sem land „glæsibrags og kyrrðar“ þar sem plantekruaðallinn var undanlátssamur gagnvart glaðlyndum þrælum sínum og gildi á borð við karlmennsku og hugrekki voru í hávegum höfð. Svart og hvítt fólk hafi búið saman í sátt og samlyndi og bæði notið góðs af siðmenningu suðurríkjanna, sem hafi verið langtum betri en í norðrinu.[23] Hermenn Suðurríkjasambandsins eru sýndir sem staðfastir, glæsilegir og hugrakkir. Herforingjum suðurríkjanna er nánast lyft upp á dýrlingastall og Robert E. Lee er látinn líkjast Kristi.[24]

Jefferson Davis, forseti Suðurríkjasambandsins, skrifaði um stöðu svartra þræla í bókinni The Rise and Fall of the Confederate Government (1881):

Þrælslund [svörtu hermannanna] gerði þá sátta við hlutskipti sitt, og þolinmæðisvinna þeirra gæddi heimaland þeirra ómældum auðæfum. Sterk staðbundin og persónuleg bönd þeirra tryggðu dygga þjónustu þeirra ... Aldrei hefur verið til lánsamlegra samband milli vinnuafls og auðmagns. Þá kom freistarinn, eins og höggormurinn í Eden, og ginnti þá með galdraorðinu „frelsi“ ... Hann færði þeim vopn í hönd og þjálfaði lítillátt en tilfinningasamt eðli þeirra í ofbeldi og blóðsúthellingum, og sendi þá til að tortíma velunnurum þeirra.[25][26]

— .

Tilvísanir

breyta
  1. Duggan, Paul (28. nóvember 2018). „The Confederacy Was Built on Slavery. How Can So Many Southern Whites Think Otherwise?“. The Washington Post. Afrit af uppruna á 16. apríl 2020. Sótt 2. mars 2020.
  2. „The Black and the Gray: An Interview with Tony Horwitz“. Southern Cultures. 4 (1): 5–15. 1998. doi:10.1353/scu.1998.0065.
  3. „American Battlefield Trust, October 30, 2020, updated March 25, 2021“. 30. október 2020. Afrit af uppruna á 2. júní 2021. Sótt 2. júní 2021.
  4. Ball, Molly (June 7–14, 2021). „Stonewalled“. Time. bls. 54.
  5. „Karen L. Cox, "Five Myths About the Lost Cause," The Washington Post, January 14, 2021“. The Washington Post. Afrit af uppruna á 14. apríl 2021. Sótt 2. júní 2021.
  6. „Confederate Symbols Are Making Way for Better Things“. Los Angeles Times. Associated Press. 27. febrúar 2021. bls. A-2. Afrit af uppruna á 23. maí 2021. Sótt 23. maí 2021.
  7. Sheehan-Dean, Aaron, ritstjóri (2014). A Companion to the U.S. Civil War. Wiley. bls. 837. ISBN 978-1-118-80295-3. Afrit af uppruna á 20. apríl 2017. Sótt 19. apríl 2017.
  8. 8,0 8,1 Cox, Karen L. (2019). Dixie's Daughters: The United Daughters of the Confederacy and the Preservation of Confederate Culture. University Press of Florida. ISBN 9780813064130. OCLC 1258986793.
  9. Wilson, Charles Reagan (2011). Baptized in Blood: The Religion of the Lost Cause, 1865–1920. University of Georgia Press.
  10. Rosenwald, Mark (20. desember 2019). „Last Seen Ads“. Washington Post. Retropod. Afrit af uppruna á 29. desember 2019. Sótt 29. desember 2019.
  11. 11,0 11,1 Domby, Adam H. (11. febrúar 2020). The False Cause: Fraud, Fabrication, and White Supremacy In Confederate Memory. University of Virginia Press. ISBN 978-0-8139-4376-3. OCLC 1151896244. Afrit af uppruna á 6. ágúst 2020. Sótt 4. júlí 2020.
  12. White, C. (23. júlí 2011). Journeys in Social Education: A Primer (enska). Springer Science & Business Media. bls. 102. ISBN 978-94-6091-358-7.
  13. Craven, Avery O. (1. febrúar 1953). The Growth of Southern Nationalism, 1848–1861: A History of the South (enska). LSU Press. bls. 339. ISBN 978-0-8071-0006-6. Sótt 7. september 2022.
  14. Gallagher, Gary W.; Nolan, Alan T., ritstjórar (2000). The Myth of the Lost Cause and Civil War History. Indiana UP. ISBN 978-0-253-33822-8. Afrit af uppruna á 12. maí 2016. Sótt 11. desember 2015.
  15. Finkelman, Paul (24. júní 2015). „States' Rights, Southern Hypocrisy, and the Crisis of the Union“. Akron Law Review. 45 (2).
  16. McPherson, James M. (1988). Battle Cry of Freedom: The Civil War Era. Frank and Virginia Williams Collection of Lincolniana. New York. bls. vii–viii. ISBN 0-19-503863-0. OCLC 15550774.
  17. McPherson, James M. (2007). This Mighty Scourge: Perspectives on the Civil War. Frank and Virginia Williams Collection of Lincolniana. Oxford: Oxford University Press. bls. 3–9. ISBN 978-0-19-531366-6. OCLC 74915689.
  18. 18,0 18,1 David W. Blight (2001). Race and Reunion: The Civil War in American Memory. Harvard University Press. bls. 259. ISBN 978-0-674-00332-3. Afrit af uppruna á 10. júní 2016. Sótt 11. desember 2015.
  19. 19,0 19,1 Nolan, Alan T. (2000). „The Anatomy of the Myth“. Í Gallagher, Gary W.; Nolan, Alan T. (ritstjórar). The Myth of the Lost Cause and Civil War History. Indiana University Press. bls. 15–18. ISBN 978-0-253-33822-8.
  20. Piston, William Garrett (1990). Lee's Tarnished Lieutenant: James Longstreet and His Place in Southern History. University of Georgia Press. bls. 158. ISBN 978-0-8203-1229-3.
  21. Falconer, William (júní 1860). „The Difference of Race Between the Northern and Southern People“. Southern Literary Messenger. 30 (6): 407.
  22. McPherson, James M. (1999). „Was Blood Thicker than Water? Ethnic and Civic Nationalism in the American Civil War“. Proceedings of the American Philosophical Society. 143 (1): 106. JSTOR 3181978.
  23. Piston, William Garrett (1990). Lee's Tarnished Lieutenant: James Longstreet and His Place in Southern History. University of Georgia Press. bls. 112. ISBN 978-0-8203-1229-3.
  24. Nolan, Alan T. (2000). „The Anatomy of the Myth“. Í Gallagher, Gary W.; Nolan, Alan T. (ritstjórar). The Myth of the Lost Cause and Civil War History. Indiana University Press. bls. 197. ISBN 978-0-253-33822-8.
  25. Blight, David (2009). „The Lost Cause and Causes Not Lost“. Í Radway, Janice A.; Gaines, Kevin; Shank, Barry; Von Eschen, Penny (ritstjórar). American Studies: An Anthology. John Wiley & Sons. bls. 529. ISBN 978-1-4051-1351-9.
  26. Davis, Jefferson (1881). The Rise and Fall of the Confederate Government. D. Appleton and Company. bls. 192–193.
   Þessi sögugrein sem tengist Bandaríkjunum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.