[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Arsinóe 1. (gríska: Αρσινόη; 305 f.Kr. – eftir 248 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins. Hún var dóttir Lýsimakkosar konungs Þrakíu, sem var einn af herforingjum Alexanders mikla, og Níkaiu konu hans. Hún átti tvö eldri systkini, bróðurinn Agaþókles og systurina Evridíke.

Mynt með mynd Arsinóe 1.

Hún giftist bandamanni föður síns, Ptólemajosi 2. Fíladelfosi, sem var fjarskyldur henni, þegar þeir Lýsimakkos gerðu með sér bandalag gegn Selevkosi 1. Níkator. Þau áttu þrjú börn; Ptólemajos 3. Evregetes, Lýsimakkos af Egyptalandi og Bereníku yngri.

Einhvern tíma milli 279 og 274 f.Kr. flúði Arsinóe 2. til bróður síns í Egyptalandi undan hálfbróður sínum Ptólemajosi Kerános og fékk hann brátt til að dæma Arsinóe 1. fyrir drottinsvik. Hún var þá rekin í útlegð til borgarinnar Koptos í Efra Egyptalandi. Hugsanlega tengist útlegð hennar útlegð Þeoxenu yngri sem Ptólemajos dæmdi útlæga um sama leyti. Ptólemajos giftist síðan Arsinóe 2.

Arsinóe 1. lifði í 20 ár í útlegð. Hún hélt hirð og lifði við töluverðan munað. Fundist hefur steintafla í Koptos sem vísar til Arsinóe sem eigikonu konungsins án þess að nafn hennar komi fyrir í hylki eins og venja er með konungleg nöfn.