Þorsteinn Már Baldvinsson
Þorsteinn Már Baldvinsson (f. 7. október 1952 á Akureyri) er forstjóri útgerðarfyrirtækisins Samherja og fyrrverandi stjórnarformaður Glitnis.
Þorsteinn varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1973 og fékk skipstjórnarréttindi frá Stýrimannaskólanum 1974. Árið 1980 útskrifaðist hann sem skipaverkfræðingur frá Norges Tekniske Högskole. Hann keypti Samherja ásamt frændum sínum, bræðrunum Þorsteini Vilhelmssyni skipstjóra og Kristjáni Vilhelmssyni vélstjóra, árið 1983 og hefur verið forstjóri félagsins síðan. Kristján er framkvæmdastjóri útgerðarsviðs en Þorsteinn Vilhelmsson klauf sig út úr fyrirtækinu eftir harðar deilur. Samherji varð með tímanum stærsta útgerðarfyrirtæki landsins og eitt hinna stærstu í Norður-Evrópu.
Þorsteinn Már varð stjórnarformaður Glitnis á árinu 2008. Hann var nokkuð áberandi í upphafi bankahrunsins sama haust, þegar Seðlabankinn yfirtók Glitni, en Þorsteinn var mjög ósáttur við þá atburðarás og sagði meðal annars í viðtölum að það hefðu verið stærstu mistök lífs síns að leita til Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra. Sagt var að Þorsteinn hefði verið því mjög mótfallinn þegar Davíð var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins árið 2009, en Þorsteinn er einn af eigendum blaðsins.
Í nóvember árið 2019 birti WikiLeaks fjölda skjala og tölvupósta sem gáfu til kynna að Samherji hefði greitt milljónir króna í mútufé til stjórnmálamanna og embættismanna í Namibíu í skiptum fyrir aðgang að fiskveiðikvóta á miðum Namibíu.[1] Sama dag staðhæfði Jóhannes Stefánsson, fyrrum starfsmaður Samherja í Namibíu, í viðtali í þættinum Kveiki á Ríkisútvarpinu, að Þorsteinn Már hefði skipað mútugreiðslurnar.[2] Þorsteinn Már steig tímabundið til hliðar þann 14. nóvember sem forstjóri fyrirtækisins þegar innri rannsókn hófst á ætluðum brotum þess og Björgólfur Jóhannsson tók við til bráðabirgða.[3]
Heimildir
breyta- „Sægreifinn sem Davíð sveik. DV, 10. júlí 2009“.
- „Þorsteinn Már vill ekki Davíð. DV, 23.september 2009“.
- Tilvísanir
- ↑ Helgi Seljan; Aðalsteinn Kjartansson; Stefán Aðalsteinn Drengsson. „Það sem Samherji hafði að fela“. RÚV. Sótt 13. nóvember 2019.
- ↑ Ingi Freyr Vilhjálmsson (12. nóvember 2019). „Samherji greiðir hundruð milljóna í mútur til að fá kvóta í Namibíu“. Stundin. Sótt 13. nóvember 2019.
- ↑ Þórður Snær Júlíusson (14. nóvember 2019). „Þorsteinn Már stígur til hliðar sem forstjóri Samherja“. Kjarninn. Sótt 14. nóvember 2019.