[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/

Þjóðleikhúsið

leikhús í Reykjavík

Þjóðleikhúsið er leikhús í Reykjavík sem var vígt árið 1950. Leikhúsið hefur því starfað í meira en hálfa öld og hafa um fjórar milljónir áhorfenda farið á sýningar þess frá upphafi. Leikhúsið er rekið að einum fjórða hluta með sjálfsaflafé en þrem fjórðu hlutum með framlagi af fjárlögum.

Þjóðleikhúsið.

Aðdragandi

breyta

Árið 1873, þegar þjóðerniskennd Íslendinga fór sífellt vaxandi, varpaði Indriði Einarsson fyrst fram hugmyndum um byggingu Þjóðleikhúss í símskeyti til Sigurðar Guðmundssonar málara. Indriði greindi svo formlega frá hugmyndum sínum í tímaritinu Skírni árið 1905. Árið 1922 komu fram hugmyndir um að skemmtanaskattur skyldi renna til byggingar þjóðleikhúss. Þær hugmyndir voru lögfestar ári síðar. 1925 skilaði byggingarnefnd af sér fyrstu teikningum. Guðjón Samúelsson hannaði bygginguna.

Húsið reist

breyta
 
Þjóðleikhúsið árið 1934.

Árið 1929 var grunnur hússins tekinn og næstu tvö ár risu útveggir þessa nýja leikhúss. 1932 hættu stjórnvöld að láta skemmtanaskatt renna til leikhússins og stöðvuðust framkvæmdir því til ársins 1941. Eftir það stóðu framkvæmdir svo ekki lengi því sama ár var leikhúsið hernumið af breska hernum sem notaði húsið sem hergagnageymslu. Íslensk stjórnvöld brugðu síðan á sama ráð og voru nokkur ráðuneyti með skjalageymslur þar sem í dag eru rafmagnstöflur fyrir stóra sviðið. Eftir að Bretar yfirgáfu húsið var unnið hörðum höndum að því að breyta því í leikhús og var Þjóðleikhúsið formlega vígt þann 20. apríl árið 1950.

Breytingar á húsnæði

breyta

Í upphafi var aðeins eitt leiksvið, stóra sviðið, sem er útbúið snúningssviði sem enn er notað í dag í nánast óbreyttri mynd. Grunnur hringsviðsins er smíðaður úr járni úr gömlu Ölfusárbrúnni sem hrundi 1944. Í stóra salnum voru tvennar svalir auk hliðarstúka. Árið 1968 var byggt við húsið til austurs og það húsnæði nýtt sem smíðaverkstæði. Á sjöunda áratugnum var opnað minna svið, fyrst í húsnæði við Lindargötu 9, síðan var það flutt yfir í Leikhúskjallarann og loks yfir í húsnæði leikhússins í kjallara Lindargötu 7 Íþróttahúss Jóns Þorsteinssonar. Árið 1990 voru aðrar svalirnar fjarlægðar og halli aukinn í salnum. Þessum framkvæmdum lauk ári síðar. Um svipað leyti var smíðaverkstæðinu breytt í leikhús. Á árunum 2006 til 2007 var ráðist í viðgerðir á þaki og ytra byrði hússins. Árið 2006 var opnað nýtt svið, Kassinn, á efri hæð hússins við Lindargötu 7 og skömmu síðar var hætt að nota smíðaverkstæðið sem leikhús. Í dag eru starfrækt þrjú leiksvið í Þjóðleikhúsinu, stóra sviðið sem tekur 445 til 499 manns í sæti, Kassinn með um 140 sæti, og Kúlan sem tekur um 100 manns í sæti.

Þjóðleikhússtjórar frá upphafi

breyta

Draugagangur

breyta

Í turninum, upphækkuninni yfir Stóra sviðinu, eru göngubrýr til að auðvelda starfsmönnum að athafna sig við ljósavinnu o.fl. Í brúnum er sagt að breskur hermaður hafi slasast á hernámsárunum og að hann gangi aftur og geri blásaklausum ríkisstarfsmönnum lífið leitt. En í húsinu eru líka margir ranghalar og dimm herbergi þar sem furðulegir hlutir geta átt sér stað og telja starfsmenn lítinn vafa á því að allmargir leikhúsdraugar hafi aðsetur í Þjóðleikhúsinu.

Tenglar

breyta
   Þessi menningargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.