Ásdís Halla Bragadóttir
Ásdís Halla Bragadóttir (f. 6. júlí 1968) er íslenskur stjórnmálafræðingur, rithöfundur og ráðuneytisstjóri í Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Hún hefur m.a. starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu, framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins, bæjarstjóri í Garðabæ, forstjóri BYKO[1] og verið stjórnarformaður EVA Consortium ehf. sem er fyrirtæki á sviði einkarekinnar velferðar- og heilbrigðisþjónustu.[2]
Ásdís Halla ólst upp í Ólafsvík til níu ára aldurs en fluttist þá ásamt foreldrum sínum og systkinum til Svíþjóðar og Noregs. Fjölskyldan fluttist aftur til Íslands árið 1979 og settist þá að á Akranesi. Ásdís Halla lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi árið 1988, BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1991, MA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Harvard háskóla árið 2000 og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008. Hún starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu frá 1991-1993, var framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins frá 1993-1995, aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra frá 1995-1999 og framkvæmdastjóri nýsköpunar- og þróunarsviðs Háskólans í Reykjavík árið 2000.[1] Hún var ráðin bæjarstjóri í Garðabæ árið 2000[3] og gegndi starfinu í fimm ár, eða til ársins 2005 er hún var ráðin forstjóri BYKO.[4] Hún starfaði hjá BYKO í tvö ár og lét af störfum haustið 2007.[5] Í gegnum fyrirtækið EVA Consortium ehf. var Ásdís Halla einn eigenda fyrirtækjanna Sinnum og Klínikin sem eru einkarekin fyrirtæki á sviði heilbrigðis- og velferðarþjónustu.
Í desember árið 2021 var Ásdís Halla ráðin verkefnastjóri við undirbúning stofnunar nýs ráðuneytis vísinda, iðnaðar og nýsköpunar[6] og í apríl 2022 var hún skipuð ráðuneytisstjóri Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.[7]
Ásdís Halla var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna frá 1997-1999 en hún var fyrsta konan til að gegna þeirri stöðu.[8] Hún var einnig formaður Frjálsíþróttasambands Íslands um tíma.
Eiginmaður Ásdísar Höllu er Aðalsteinn Jónasson lögfræðingur og dómari við Landsrétt og eiga þau þrjú börn.
Bækur
breyta- Í hlutverki leiðtogans - líf fimm forystumanna í nýju ljósi (2000)
- Tvísaga. Móðir, dóttir, feður (2016)
- Hornauga (2018)
- Ein (2020)
- Læknirinn í Englaverksmiðjunni (2021)
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 „Ásdís Halla Bragadóttir“, Vera tímarit, 5. tbl. 19. árg. 2000, bls. 33 (skoðað 8. nóvember 2019)
- ↑ Vb.is, „Hótel Ísland auglýst til sölu“ (skoðað 8. nóvember 2019)
- ↑ „Ásdís Halla ráðin bæjarstjóri í Garðabæ“, Morgunblaðið, 31. ágúst 2000 (skoðað 8. nóvember 2019)
- ↑ Visir.is, „Ásdís Halla verður forstjóri BYKO“ (skoðað 8. nóvember 2019)
- ↑ Mbl.is, „Forstjóraskipti hjá BYKO“ (skoðað 8. nóvember 2019)
- ↑ Kjarninn.is, „Ásdís Halla ráðin til að koma að mótun nýs ráðuneytis Áslaugar Örnu“ Skoðað 5. júlí 2022
- ↑ Stjornarradid.is, „Ásdís Halla Bragadóttir er nýr ráðuneytisstjóri í háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu“ Skoðað 5. júlí 2022.
- ↑ „Vona að mitt framboð verði hvatning fyrir aðrar konur“, Morgunblaðið, 16. september 1997 (skoðað 8. nóvember 2019)