[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/Fara í innihald

Spói

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Spói
Numenius phaeopus
Numenius phaeopus
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Ættbálkur: Strandfuglar (Charadriiformes)
Ætt: Snípuætt (Scolopacidae)
Ættkvísl: Spóar (Numenius)
Tegund:
N. phaeopus

Tvínefni
Numenius phaeopus
(Linnaeus, 1758)

Spói (fræðiheiti Numenius phaeopus) er vaðfugl og farfugl af snípuætt. Spóinn er háfættur og með langt og íbjúgt nef, um 40 sm á lengd. Vænghafið er um 25 sm. Nef spóa er næmt leitartæki sem hann notar til að leita í fjörusandi að burstaormum, lindýrum og öðrum hryggleysingjum. Spóinn er vaðfugl en gerist oft mófugl um varptíma og er þá oft að finna í mólendi og lyngmóum á láglendi. Spói er einkvænisfugl og virðast sambönd endast ævilangt. Parið helgar sér óðal og hefur ástarleiki með dillandi hljóðum. Eru þessi vell með tilbrigðum, stundum langvell, stundum hringvell. Hreiður er einfalt og áberandi og eru eggin oftast fjögur. Foreldrarnir skiptast á að sitja á eggjum. Ungarnir eru hreiðurfælnir, þ.e. þeir fara strax á stað að bjarga sér og leita eftir skordýrum. Þeir verða fleygir 6 vikna gamlir. Það eru fjórar undirtegundir af spóa, þær eru:

  • Numenius phaeopus phaeopus - Norður-Evrópa, Norðvestur-Asía
  • Numenius phaeopus variegatus - Norðaustur-Asía
  • Numenius phaeopus alboaxillaris - Mið-Asía (sjaldgæfur, í útrýmingarhættu)
  • Numenius phaeopus hudsonicus (Hudsonian Curlew) - norðurhluti Norður-Ameríku.

Spóar á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Spóar koma til Íslands í byrjun maí og eru flestir farnir í september. Spóar fara að safnast saman í hópa sunnanlands í lok ágúst og byrjun september og fljúga þá stundum í oddaflugi. Stærstu hóparnir yfirgefa landið um miðjan september og fara þá til vetursetu í Vestur-Afríku (Senegal). Á veturna halda þeir sig oft á kjarrsléttum og veiða engisprettur.

Engir íslenskir spóar (Numenius phaeopus) hafa hérna vetursetu en stundum hafa fjöruspóar (Numenius arquata) hér vetursetu en þeir eru stærri en íslenskir spóar eða um 58 sm á lengd. Stofnstærð við Ísland er um 200.000 varppör. Spóar eru friðaðir.

Mælingar með dægurrita sem bárust frá fjórum spóum árin 2012-2013 sýndu að spóarnir flugu beint frá Íslandi til Vestur-Afríku að hausti til án þess að stoppa á leiðinni. Þeir lögðu af stað frá Íslandi 3. til 6. ágúst og flugu hvíldarlaust í 79-120 klukkustundir, alls 3898 til 5535 km leið. Meðalhraðinn á ferð fuglanna var 50 km á klst en sums staðar var farið yfir á allt að 80 til 90 km á klukkustund. Fuglarnir yfirgáfu Afríku 20. til 29. apríl og flugu tveir beint til Íslands og komu þangað 29. apríl og 4. maí. Tveir fuglanna flugu til Bretlandseyja og höfðu þar viðkomu í ellefu og fimmtán daga og komu til Íslands 12. og 14. maí.[1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  • „Hvað getið þið sagt mér um spóa?“. Vísindavefurinn.
  • Whimbrel Species Account - Cornell Lab of Ornithology
  • Whimbrel - Numenius phaeopus - USGS Patuxent Bird Identification InfoCenter
  • Whimbrel Information - South Dakota Birds and Birding
  • Picture of American subspecies