[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/Fara í innihald

Maria Goeppert-Mayer

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Maria Goeppert-Mayer
Maria Goeppert-Mayer árið 1963.
Fædd28. júní 1906
Dáin2. ágúst 1972 (66 ára)
ÞjóðerniÞýsk, síðar bandarísk
MenntunGeorg-August-háskólinn í Göttingen
StörfEðlisfræðingur
MakiJoseph Edward Mayer
Börn2
Verðlaun Nóbelsverðlaun í eðlisfræði (1963)
Undirskrift

Maria Goeppert-Mayer (28. júní 1906 – 2. ágúst 1972) var þýsk-bandarískur eðlisfræðingur sem vann til Nóbelsverðlaunanna í eðlisfræði árið 1963 fyrir rannsóknir sínar á sviði kjarneðlisfræðinnar. Hún var önnur konan sem vann til verðlaunanna á eftir Marie Curie.[1]

Maria Goeppert-Mayer fæddist (undir nafninu Maria Göppert) í borginni Kattowitz, sem tilheyrði þá þýska keisaraveldinu en er nú í Póllandi. Þegar Maria var fjögurra ára flutti fjölskylda hennar til Göttingen, þar sem faðir hennar hafði fengið stöðu prófessors í barnalækningum við Georg-August-háskólann.[2]

Eftir að Maria lauk grunnskólanámi skráði hún sig til þriggja ára undirbúningsnáms fyrir konur í einkaskóla sem rekinn var af kvenréttindasamtökum í borginni. Skólinn varð gjaldþrota stuttu eftir ósigur Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöldinni en árið 1924 stóðst Maria inntökupróf í Georg-August-háskólann og hóf háskólanám í stærðfræði. Maria skipti síðar yfir í eðlisfræðinám að áeggjan prófessorsins Max Born.[2]

Maria hóf doktorsnám í Göttingen-háskólanum árið 1928. Árið 1930 giftist hún Joseph Edward Mayer, bandarískum eðlisfræðingi sem hafði hlotið styrk frá Rockefeller-stofnuninni til rannsóknarnáms í Göttingen. Sama ár varði Maria doktorsritgerð sína, þar sem hún fjallaði á skammtafræðilegar líkur á tvíljósaútgeislun frá atómi þegar rafeind stekkur niður á innra hvel. Doktorsleiðbeinendur hennar voru Max Born og James Franck.[2]

Maria flutti stuttu síðar ásamt eiginmanni sínum til Bandaríkjanna, þar sem Joseph hafði fengið stöðu við efnafræðideild Johns Hopkins-háskólans í Baltimore. Maria hlaut aðstoðarmannsstöðu við eðlisfræðideildina og fékk þannig aðgang að starfsemi deildarinnar. Hún vann ásamt Karl F. Herzfeld og skrifaði með honum greinar um eðlisefnafræði. Hún dvaldi í Göttingen sumrin 1931 og 1933 og skrifaði ítarlega grein um kristallasveiflur með Max Born.[2]

Goeppert-Mayer flutti til New York árið 1939 ásamt eiginmanni sínum, sem hafði fengið stöðu við Columbia-háskóla. Þar starfaði hún meðal annars ásamt Harold Urey við rannsóknir á aðgreiningu úransamsæta og hvort hægt væri að skilja þær að með ljósefnavirkum hvörfum. Í háskólanum hóf hún einnig samstarf með Enrico Fermi, sem taldi hana á að reyna að segja fyrir um hvelamynstur og gildisrafeindir á óuppgötvuðum frumeindum sem liggja utar í lotukerfinu en úran.[2]

Árið 1946 hlaut Goeppert-Mayer stöðu prófessors í kjarneðlisfræði við Chicago-háskóla. Í lok seinni heimsstyrjaldarinnar tók hún ásamt J. Hans D. Jensen, prófessor við Tækniháskólann í Hanover, þátt í rannsóknum á eðli kjarnamættisins til að útskýra fyrirbrigði eins og segulmætti, reglubundin minniháttar stökk í bindiorku og orkuróf gammageisla. Goeppert-Mayer og Jensen birtu niðurstöðugreinar sínar í tímaritinu Physical Review árið 1949 og útskýrðu þar að víxlverkum kjarnamættisins við samanlagðan spuna og brautarhverfiþunga stýrði því hvernig róteindir og nifteindir röðuðust í hvel.[2]

Goeppert-Meyer og Jensen hlutu Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði fyrir rannsóknir sínar árið 1963 ásamt bandarísk-ungverska eðlisfræðingnum Eugene Wigner. Árið 1960 hlutu Maria og Joseph bæði prófessorsstöður við Kaliforníuháskóla í San Diego. Maria Goeppert-Meyer lést í San Diego árið 1972.[2]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Guðrún Hálfdánardóttir (9. desember 2017). „Hvar eru konurnar?“. mbl.is. Sótt 5. ágúst 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 Örn Helgason (25. nóvember 2011). „Hver var Maria Goeppert-Mayer og hvert var hennar framlag til vísindanna?“. Vísindavefurinn. Sótt 9. apríl 2024.