[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/Fara í innihald

Landnámsöld

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Saga Íslands

Eftir tímabilum

Miðaldir á Íslandi
Nýöld á Íslandi
Nútíminn á Íslandi

Eftir umfjöllunarefni

Landnámsöld er tímabil við upphaf Íslandssögunnar. Hún er sögð hefjast með landnámi Ingólfs Arnarsonar í Reykjavík 870 eða 874 og enda með stofnun Alþingis á Þingvöllum árið 930. Var þá Ísland talið fullnumið.

Ferðir landkönnuða fyrir landnám við Íslandsstrendur

Á landnámsöld sigldu þúsundir manna frá nágrannalöndunum, einkum Noregi, til Íslands og settust að. Auk Norðmanna var allmikill fjöldi Dana og Svía í hópnum, svo og fólk af öðrum uppruna, og þess utan var allnokkur fjöldi þræla og ambátta frá Írlandi og fleiri löndum. Nýlegar erfðafræðirannsóknir hafa leitt í ljós að líklega hafa um 80% karla sem hingað komu verið af norrænum uppruna en aðeins um helmingur kvenna.

Til eru gamlar heimildir um landnámið, Landnámabók og Íslendingabók Ara fróða, sem hafa að geyma upplýsingar um landnámsmenn. Þær voru líklega ritaðar á 12. eða 13. öld og eru að sjálfsögðu ekki sérlega traust heimild um nöfn einstakra landnámsmanna og mörk landnáma, þar sem þá voru liðin að minnsta kosti 200 ár frá landnámi.

Fyrstu landnámsmennirnir

[breyta | breyta frumkóða]

Saga Íslands hefst samkvæmt hefðbundinni söguskoðun með komu fóstbræðranna Ingólfs Arnarsonar og Hjörleifs Hróðmarssonar um 870 því þá hefst jafnframt skipulagt landnám Íslands. Áður höfðu þó nokkrir komið hingað og getur Landnáma um þá Naddodd víking, Garðar Svavarsson og Hrafna-Flóka Vilgerðarson, sem reyndi landnám í Vatnsfirði á Barðaströnd en hvarf aftur til Noregs eftir að hafa gefið landinu nafn.[1]

Þeir Ingólfur og Hjörleifur höfðu með sér bæði frjálsborna menn og konur, svo og þræla nokkra og konur og voru hvor á sínu skipi. Þegar nálgaðist landið er sagt að Ingólfur hafi varpað öndvegissúlum sínum frá borði og heitið því að setjast að þar sem þær ræki að landi. Ingólfur tók fyrst land við Ingólfshöfða og hafði þar vetursetu en Hjörleifur við Hjörleifshöfða. Næsta vor var Hjörleifur veginn af þrælum sínum sem flúðu því næst til Vestmannaeyja en Ingólfur elti þá uppi og vó.

Ingólfur nam svo allt land frá Ölfusá og að Botni í Hvalfirði og settist að í Reykjavík, því þar áttu öndvegissúlurnar að hafa fundist. Hann er jafnan talinn fyrsti landnámsmaðurinn og er yfirleitt miðað við ártalið 874, því þá er hann talinn hafa byggt bæ sinn. Fornleifarannsóknir á síðustu árum benda þó til þess að mannabyggð hafi verið hér töluvert fyrr.[2][3][4]

Þótt Ingólfur Arnarson sé almennt kallaður fyrsti landnámsmaðurinn, þá höfðu aðrir komið til landsins áður og getið er um mann sem settist að í landinu á undan honum. Hann er kallaður Náttfari í Landnámabók, en óvíst er að það sé rétt nafn hans. Hann kom með Garðari Svavarssyni landkönnuði nokkrum árum fyrir landnám Ingólfs og „sleit frá honum“ á báti, ásamt þræli og ambátt. Hann settist fyrst að í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu og helgaði sér þar land en var seinna rekinn þaðan og settist þá að í Náttfaravíkum.

Landið numið

[breyta | breyta frumkóða]

Á næstu árum eftir landnám Ingólfs fjölgaði landnámsmönnum hratt en talið er að þeir hafi verið á bilinu 10-20 þúsund á fyrstu áratugunum eftir komu fóstbræðranna.[heimild vantar] Samkvæmt samantekt Jóns Steffensens eru 383 landnámsmenn og 54 landnámskonur nefndar í Landnámabók.[5]

Ísland byggðist til fulls á rúmri hálfri öld og tók þá þegar að gæta þrengsla. Þekktust nokkrar sögur af því hvernig marka átti sér land. Segir ein þeirra að maður hafi getað eignað sér land sem því svæði nemur að hann hafi komist um með logandi eldi á einum degi.

Landnámin voru þó mjög misstór. Þeir sem fyrstir voru á ferð og komu að ónumdu landi gátu slegið eign sinni á mjög stór svæði og gefið eða selt svo öðrum hluta af því en landnámsmenn sem seinna komu urðu að láta sér nægja mun minna landrými og oft útkjálka eða afdali. Um það bil fjórðungur þeirra landnámsmanna sem taldir eru í Landnámabók virðist hafa fengið land hjá þeim sem á undan komu.

Meðal frægra landnámsmanna sem komu snemma og námu stór landsvæði, jafnvel heil héröð, má telja Auði djúpúðgu, Helga magra, Ketilbjörn gamla, Ingimund gamla, Björn austræna, Geirmund heljarskinn og Skalla-Grím Kveldúlfsson.

Breytingar við landnám

[breyta | breyta frumkóða]

Landgæði í upphafi landnáms voru önnur og meiri en seinna varð og veðurfar var líka mildara. Sagt er að landið hafi verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru þegar landnámsmenn komu hingað fyrst en sú lýsing hefur verið dregin í efa. Þó er enginn vafi á því að gróðureyðing var mikil þegar á fyrstu áratugunum og öldunum eftir landnám, enda virðast menn hafa látið búsmala sinn ganga meira og minna sjálfala. Talið er að þrjár trjátegundir hafi verið að finna á Íslandi við landnám: birki, reyniviður og blæösp, við þessar þrjár tegundir má bæta við gulvíði sem getur náð 8-9 m. hæð en er runnategund.[6] Árið 2017 þöktu birkikjarr og skógar um 1,5% landsins en talið er að við landnám hafi þekja birkis verið á bilinu 8-40%.[7]

Talið er að margskonar plöntutegundir hafi numið land samhliða landnámi manna á borð við húsapuntur, baldursbrá, njóla, skriðsóley, haugararfa, hjartararfa og varpasveifgras.[8]

Landnámsmenn fluttu með sér nautgripi, sauðfé, hesta, geitur, svín og hænsni, auk hunda og katta. Á landnámsöld og fram eftir öldum var hlutfallslega mun meira um nautgripi en seinna varð og færra sauðfé.

  1. „Hófst landnám á Íslandi 200 árum fyrr en talið hefur verið?“. Vísindavefurinn.
  2. „Ísland numið á árunum 700 til 750“. 16. mars 2009.
  3. „Landnám fyrir landnám?“. Morgunblaðið. 12. maí 2009.
  4. „Var Ísland numið 670?“. Morgunblaðið. 4. nóvember 2009.
  5. „Er hægt með rannsóknum á Y-litningum Íslendinga að finna út hve landnámsmenn voru margir?“. Vísindavefurinn.
  6. „Hvaða trjátegundir voru á Íslandi við landnám?“. Vísindavefurinn.
  7. „Er það rétt sem ég lærði í grunnskóla að sauðfé hafi eytt skógum landsins?“. Vísindavefurinn.
  8. „Hvernig hefur íslensk flóra breyst í grófum dráttum frá landnámi?“. Vísindavefurinn.