[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/Fara í innihald

Kirk Douglas

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kirk Douglas
Kirk Douglas árið 1963.
Kirk Douglas árið 1963.
Upplýsingar
FæddurIssur Danielovítsj
9. desember 1916
Amsterdam, New York í Bandaríkjunum
Dáinn5. febrúar 2020 (103 ára)
Beverly Hills, Kaliforníu, Bandaríkjunum
Ár virkur1946 – 2008
Undirskrift
Helstu hlutverk
Spartacus í Spartacus
Ned Land í Sæfaranum
Dax ofursti í Paths of Glory
Vincent van Gogh í Lust for Life

Kirk Douglas (fæddur undir nafninu Issur Danielovítsj þann 9. desember 19165. febrúar 2020) var bandarískur leikari, framleiðandi, leikstjóri og rithöfundur. Douglas lést 103 ára gamall og var einn af síðustu eftirlifandi leikurum úr gullöld kvikmyndaiðnaðarins í Hollywood.[1] Douglas ólst upp í fátækri innflytjendafjölskyldu ásamt sex systrum en birtist fyrst á hvíta tjaldinu árið 1946 í kvikmyndinni The Strange Love of Martha Ivers ásamt Barböru Stanwyck. Douglas varð brátt að kvikmyndastjörnu sem birtist í fjölmörgum stórmyndum á sjötta og sjöunda áratugnum, þar á meðal mörgum vestrum og stríðsmyndum. Á ferli sínum birtist hann í fleiri en nítutíu myndum og var þekktur fyrir kraftmikinn leikstíl sinn.

Douglas varð stjarna á alþjóðavísu eftir að hafa leikið aðalhlutverk sem óforskammaður boxari í myndinni Champion árið 1949 og fékk fyrir hana sína fyrstu Óskarsverðlaunatilnefningu sem besti leikarinn. Hann lék líka í Young Man with a Horn árið 1950 á móti Lauren Bacall og Doris Day, í Ace in the Hole á móti Jan Sterling árið 1951 og í Detective Story árið 1951. Hann var aftur tilnefndur til Óskarsverðlauna árið 1952 fyrir leik sinn í myndinni The Bad and the Beautiful og í þriðja sinn fyrir að leika Vincent van Gogh árið 1956 í myndinni Lust for Life.

Árið 1955 stofnaði Douglas kvikmyndafyrirtækið Bryna Productions sem framleiddi margvíslegar myndir á borð við Paths of Glory (1957) og Spartacus (1960). Í þessum tveimur myndum lék Douglas aðalhlutverkið og vann með leikstjóranum Stanley Kubrick, sem þá var lítið þekktur. Douglas átti þátt í því að brjóta niður Hollywood-svartlistann með því að ráða Dalton Trumbo til að skrifa handritið að Spartacus og nefna hann á nafn í kreditlista myndarinnar. Fjölskylda Trumbos hélt því þó fram að Douglas hefði ýkt þáttöku Daltons í handritsgerðinni. Douglas framleiddi og lék aðalhlutverkið í Lonely are the Brave árið 1962 og Seven Days in May árið 1964 á móti Burt Lancaster, sem hann vann að sjö myndum með. Árið 1963 lék Douglas aðalhlutverkið í Broadway-leikritinu One Flew Over the Cuckoo's Nest og keypti kvikmyndaréttinn að sögunni. Hann eftirlét syni sínum, Michael Douglas, síðar réttinn að sögunni og honum tókst að gera úr henni kvikmynd sem vann til Óskarsverðlauna.

Sem leikari og mannvinur var Douglas þrisvar tilnefndur til Óskarsverðlauna og vann Óskarsverðlaun fyrir ævistörf sín. Hann var jafnframt sæmdur frelsisorðu Bandaríkjaforseta. Sem rithöfundur skrifaði hann tíu skáldsögur og endurminningar. Eftir að hann slapp með naumindum með líf sitt í þyrluslysi árið 1991 einbeitti Douglas sér að sálar- og trúarlífi sínu. Kirk Douglas varð hundrað ára þann 9. desember 2016.[2]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Valenti, Jack. This Time, This Place: My Life in War, the White House, and Hollywood, Crown Publishing (2007) Kafli 12
  2. Bradshaw, Peter (9. desember 2016). „Kirk Douglas at 100: a one-man Hollywood Mount Rushmore“. The Guardian. Sótt 17. desember 2016.