[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/Fara í innihald

Fiat

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lingotto-verksmiðjubyggingin í Tórínó árið 1928.
Ódýrir fjölskyldubílar á borð við Fiat 600 og Fiat 500 urðu gríðarvinsælir um allan heim í efnahagsuppgangnum á 6. áratugnum. Á Spáni var sami bíll framleiddur sem SEAT 600, í Júgóslavíu sem Zastava 750, í Vestur-Þýskalandi sem Jagst 600 o.s.frv.

Fiat S.p.A. (upphaflega skammstöfun: Fabbrica Italiana Automobili Torino) er ítalskur bílaframleiðandi með höfuðstöðvar í Tórínó.

Fyrirtækið var stofnað árið 1899 af Giovanni Agnelli og hópi fjárfesta. Fyrsti bíllinn sem fyrirtækið framleiddi var Fiat 4 HP. Í upphafi 20. aldar óx fyrirtækið hratt, það hóf framleiðslu flugvélahreyfla og Fiat 1 sem náði vinsældum sem leigubíll í Evrópu og Bandaríkjunum eftir 1908. Árið 1910 var Fiat orðinn stærsti bifreiðaframleiðandi Evrópu.

Árið 1921 tóku verkamenn sem aðhylltust hinn nýja kommúnistaflokk, sem Antonio Gramsci og fleiri sósíalistar frá Tórínó höfðu stofnað sama ár, verksmiðjuna yfir sem leiddi til afsagnar Agnellis. Ítalski sósíalistaflokkurinn og Almenna verkalýðssambandið (CGIL) skipuðu verkamönnunum að hætta yfirtökunni. Árið eftir var Lingotto-bílaverksmiðjan í Tórínó byggð. Það var fyrsta verksmiðjan á Ítalíu sem var hönnuð fyrir fjöldaframleiðslu með samsetningarlínu. Fiat framleiddi hergögn í síðari heimsstyrjöld, einkum orrustuflugvélar á borð við Fiat CR.42 og létta skriðdreka.

Eftir stríð var Agnelli-fjölskyldan rekin úr stjórn fyrirtækisins vegna tengsla þeirra við fasistastjórnina. Árið 1963 varð Gianni Agnelli, barnabarn stofnandans, framkvæmdastjóri og stjórnarformaður árið eftir. Hann réðist í miklar breytingar á skipulagi fyrirtækisins, dreifði stjórn þess og hóf uppkaup annarra bílaframleiðanda eins og Autobianchi (1967) og Ferrari og Lancia (1969). Árið 1966 átti Fiat þátt í stofnun sovéska bílaframleiðandans AvtoVAZ sem hóf framleiðslu á eigin útgáfu af Fiat 124, Lada Riva.

Árið 1979 var fyrirtækinu breytt í eignarhaldsfélag og starfseminni dreift í dótturfélög. Sama ár náði sala Fiat-bifreiða í Bandaríkjunum hápunkti þegar Bandaríkjamenn skiptu yfir í eyðslugrannari bíla í kjölfar olíukreppunnar 1979. Árið 1986 keypti Fiat Alfa Romeo af ítalska ríkinu og 1993 eignaðist það Maserati. Á 10. áratugnum gekk fyrirtækið í gegnum kreppu; sala bifreiða minnkaði og stjórnarmenn blönduðust inn í spillingarréttarhöldin Mani pulite. Árið 1998 tók Paolo Fresco við stjórnarformennsku en gekk illa að koma á nauðsynlegum breytingum hjá fyrirtækinu, meðal annars vegna andstöðu verkalýðsfélaga. Frá árinu 2002 hefur tap fyrirtækisins minnkað ár frá ári. Luca Cordero di Montezemolo varð stjórnarformaður 2004 og Sergio Marchionne tók við sem framkvæmdastjóri sama ár. Núverandi stjórnarformaður er John Elkann, barnabarn Gianni Agnelli. Árið 2011 eignaðist Fiat meirihluta í bandaríska bílaframleiðandanum Chrysler.

Fiat 500 (2007) var valinn Bíll ársins árið 2008

Fiat er stórt eignarhaldsfélag með yfir 200.000 starfsmenn í meira en 60 löndum. Aðaláhersla fyrirtækisins er þó á framleiðslu bifreiða og landbúnaðarvéla. Bílar fyrirtækisins hafa tólf sinnum unnið verðlaunin Bíll ársins í Evrópu:

Fiat á líka Fiat Industrial sem framleiðir sendibílana Fiat Ducati, Fiat Scudo og Fiat Doblò, og stærri farþegavagna og slökkvibíla undir merkjum Iveco. Fiat Industrial á CNH Global sem á vélaframleiðendurna New Holland, Steyr, Case IH og Case CE.

Fiat á dagblaðið La Stampa. Fyrri eigandi, Alfredo Frassati, var neyddur til að selja Giovanni Agnelli blaðið eftir að hafa gagnrýnt morðið á Giacomo Matteotti 1924.

Í gegnum söguna hefur Fiat fengist við ýmislegt annað en framleiðslu lítilla bifreiða, til dæmis járnbrautarlesta (í gegnum Fiat Ferroviaria, selt 2000), hergagna, verksmiðjuíhluta, mótorhjóla og flugvéla (m.a. í gegnum fyrirtækið Piaggio sem Fiat átti um tíma).

Utan Ítalíu

[breyta | breyta frumkóða]

Fiat stofnaði nokkur dótturfélög utan Ítalíu á 6. áratug 20. aldar, meðal annars í Frakklandi (Simca), Brasilíu (Fiat Automóveis), Argentínu (Fiat Argentina), Póllandi (Polski Fiat) og Tyrklandi (Tofaş). Fyrirtækið samdi auk þess um framleiðslu Fiat-bifreiða við framleiðendur í Júgóslavíu (Zastava), Búlgaríu, Þýskalandi (Neckar) Egyptalandi og Eþíópíu og átti stóran þátt í stofnun spænska bílaframleiðandans SEAT 1950 og sovéska bílaframleiðandans AutoVAZ 1966.