[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/Fara í innihald

Ahnighito

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ahnighito loftsteinninn. Steinninn vegur 31 tonn.
Ahnighito eða Cape York loftsteinninn á sýningu í New York

Ahnighito er loftsteinn úr járni sem rakst á jörðina fyrir um 10 þúsund árum. Stór loftsteinn sem þá rakst á jörðina splundraðist í þúsundir mola fyrir ofan Thulesvæðið á Grænlandi og dreifðust brotin þar yfir stórt svæði í grennd við Yorkshöfða (Cape York) og einkum þar sem þorpið Savissivik er. Ahnighito er langstærsta brotið sem fundist hefur úr þessum loftsteini og er um 31 tonna þungur. Það fannst á ey sem nú er kölluð Meteoritöen eða Loftsteinseyja.

Inúítar kölluðu loftsteininn Tjaldið.

Inúítar á Grænlandi nýttu járnið í steinunum í margar aldir. Fyrstu heimildir um steinana bárust til vísindamanna á Vesturlöndum um 1818 en fimm heimskautaleiðangrar sem farnir voru á árunum 1818 til 1883 leituðu að uppsprettu járnsins en fundu ekki. Landkönnuðurinn John Ross kom á þessar slóðir árið 1818 en hann var að leita að norðvestur siglingaleiðinni. Hann varð þess áskynja að Inúítar á Thulesvæðinu höfðu aðgang að járni og höfðu búið til beitta hnífa og afar vandaða járnodda á hvalskutla sína á meðan Inúítar á Grænlandsslóðum voru ennþá á steinöld. Nafnið Savissivik þýðir á máli Inúíta "staðurinn þar sem maður finnur járn". Ross fann ekki uppsprettu járnsins enda vildu Inúítar leyna staðnum sem þeir kölluðu járnfjallið.

Ahnighito er stærsti steinninn af þremur sem Inúítar kölluðu tjaldið, konuna og hundinn eftir lögun þeirra. Ahnighito eða tjaldið var 31 tonn, konan var 2½ tonn og hundurinn var ½ tonn.

Árið 1864 komst Robert Peary að staðnum þar sem stærstu loftsteinastykkin voru því leiðsögumaður hans úr hópi Inúíta fylgdi honum þangað. Þremur árum seinna tókst Peary að koma Ahnighito á skipsfjöl og þaðan var siglt með hann til Bandaríkjanna. Nafnið Ahnighito kemur úr grænlensku en rétt stafsetning væri Arnakittoq ("stelpukind").[1] Peary seldi svo steininn fyrir $40.000 til American Musem of Natural History og þar er steinninn ennþá til sýnis. Annað stórt stykki, Agpalilik (20 tonn), er varðveitt á safni í Kaupmannahöfn.

  1. Kenn Harper, "The women in Peary's life: The Snow Baby," Taissumani (2009-05-15). Sótt 5. mars 2017 frá http://www.nunatsiaqonline.ca/stories/article/The_women_in_Pearys_life_The_Snow_Baby/ Geymt 27 ágúst 2017 í Wayback Machine