[go: up one dir, main page]
More Web Proxy on the site http://driver.im/Fara í innihald

Selfoss

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 1. nóvember 2022 kl. 15:26 eftir Akigka (spjall | framlög) Útgáfa frá 1. nóvember 2022 kl. 15:26 eftir Akigka (spjall | framlög) (Tók aftur breytingar 46.182.189.213 (spjall), breytt til síðustu útgáfu Kennari1234)
Selfoss

Selfoss

Selfoss gæti einnig átt við fossinn Selfoss.
Austurvegur, Selfoss.

Selfoss er þéttbýliskjarni í Sveitarfélaginu Árborg og stendur á bökkum Ölfusár, sunnan Ingólfsfjalls. Á Selfossi og nágrenni bjuggu 8068 árið 2019.

Saga

Selfoss var lengst af venjulegur sveitabær í Sandvíkurhreppi. Nafn sitt dregur bærinn af flúðum neðan Selfosskirkju sem kallast Selfoss, vegna selagengdar í ánni. Þéttbýlið tók á sig mynd í kringum Ölfusárbrúna, þegar á smíði hennar stóð í lok 19. aldar og seinna meir í kringum Mjólkurbú Flóamanna. Hinn 1. janúar 1946 var bærinn gerður að sérstökum hreppi, Selfosshreppi, ásamt nánasta umhverfi sínu, enda hafði íbúum fjölgað verulega áratugina á undan. Auk Sandvíkurhrepps lögðu Hraungerðishreppur og Ölfushreppur land til hins nýja hrepps. Kaupstaðarréttindi fékk Selfoss 18. maí 1978. 20 árum síðar, hinn 7. júní 1998 sameinaðist Selfosskaupstaður Sandvíkurhreppi, Eyrarbakkahreppi og Stokkseyrarhreppi undir merkjum sveitarfélagsins Árborgar.

Íþróttir

Selfoss er og hefur alltaf verið mikill íþróttabær. Þar er fjölda íþróttagreina stundaðar og má þar nefna handknattleik, knattspyrnu, frjálsar, körfubolta, fimleika, sund, taekwondo, júdó, mótokross, skák, crossfit o.fl. Ungmennafélag Selfoss er stærsta íþróttafélag á Selfossi. Árið 2019 varð meistaraflokkur karla Íslandsmeistarar í handknattleik. Sama ár varð meistaraflokkur kvenna bikarmeistarar í knattspyrnu.

Samgöngur

Ferjur

Selfoss

Bóndinn í Kaldaðarnesi hafði einkarétt á ferju yfir Ölfusá frá því um 1200. Hvenær ferja við Laugardæli kom er ekki vitað, en í Jarðabók Árna Magnússonar frá árinu 1709 kemur fram að þessi ferja sé til staðar. Við afnám einokunarverslunarinnar 1787 jókst umferð um Laugardælaferju en þá hófust líka deilur um hvar lögboðin ferja skyldi vera á ánni. Var úrskurðað að hún skyldi vera í Laugardælum. Ferjan sjálf tók land vestan í svokölluðum Ferjuhól við Svarfhól, þar sem nú er golfvöllur Selfoss.

Ölfusárbrú

Á þinginu 1879 var veitt 100 þúsund krónum til brúargerðar á Þjórsá og Ölfusá. Tryggvi Gunnarsson bauð í og fékk verkið. Með honum var Vaughan & Dymond-málmsmíðafyrirtækið í Newcastle upon Tyne. Tilboð Tryggva og Vaughan & Dymond hljóðaði upp á 66.000 kr.

1889 fór Tryggvi að undirbúa komu brúarinnar og uppsteypu stöplanna lauk á höfuðdag 1890. Þetta sama sumar var reist íbúðarhús Tryggva, sem þá var kallað "Brohús" en gengur nú undir nafninu Tryggvaskáli. Síðsumars 1890 var brúarefninu sjálfu uppskipað á Eyrarbakka og flutt um veturinn á hjarni að Selfossi.

Þann 15. júní 1891 hófst brúarsmíðin af alvöru og var brúin síðan vígð 8. september 1891. Margir sóttu Selfoss heim, meðal annars frá Eyrarbakka og jafnvel austan yfir Þjórsá. Magnús Stephensen landshöfðingi flutti tölu og að lokum var Brúardrápa Hannesar Hafstein flutt.

Árið 1944 kom mjólkurbíll frá Reykjavík með annan í togi og þoldi brúin ekki þyngdina svo annar brúarstrengurinn slitnaði. Brúin hékk á brúarstrengjunum vestanmegin og var síðar hífð upp og gert við hana til bráðabirgða. Úr járnbitum brúarinnar gömlu var seinna smíðað burðarvirkið undir hringsvið Þjóðleikhússins, og stendur það enn.

Farið var að byggja nýja brú við hlið þeirrar gömlu og sú gamla loks rifin. Nýja brúin, sem enn þjónar sínum tilgangi, var tekin í notkun 22. desember 1945. Er hún 84 metra löng milli stöpla.

Vegir

Frá Selfossi að Ingólfsfjalli var lagður vegur 1891. Sama ár var Vegagerðin við vegavinnu í Kömbum og er það grunnurinn að Hellisheiðarvegi eins og hann er í dag, þó annað vegarstæði sé komið í Kömbunum sjálfum.

Þjóðvegur 1, eða Suðurlandsvegur liggur gegnum Selfoss, kemur yfir brúna og fer austur úr Tryggvatorgi. Í gegnum Selfoss kallast vegurinn Austurvegur og er aðalumferðaræð bæjarins.

Niður Eyrarveg liggur Eyrarbakkavegur frá hringtorginu við brúna (Tryggvatorgi) og allt niður að Óseyri og Þorlákshöfn eða hér um bil.

Rétt austan Selfoss er síðan Gaulverjabæjarvegur, eða Bæjarhreppsvegur. Liggur hann til suðurs frá þjóðveginum, rétt austan hesthúsabyggðar Selfyssinga.

Miðbær

Kosið var um nýjan miðbæ árið 2018 sem á að vera upp af hringtorginu við Ölfusárbrú. [1]

Heimildir

  • Guðmundur Kristinsson (1991). Saga Selfoss. Selfosskaupstaður.
Víðmynd af Selfossi

Tenglar

  1. Meirihluti hlynntur nýjum breytingum.Rúv, skoðað 19. ágúst, 2018.